Norðaustanátt áfram ríkjandi - en lítillega hlýrri (?)

Ekki er lát að sjá á norðaustanáttinni - hún er búin að vera óþægilega köld að undanförnu (nema rétt sunnan undir vegg suðvestanlands). En strax munar ef hún gerist aðeins austlægari. Þá gætu skotist inn dagar þegar hreinsar frá inn til landsins um landið norðaustanvert auk þess sem hlýrra verður um landið sunnan- og vestanvert. 

Hér að neðan er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting næstu 10 daga. Jafnframt eru sýnd vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Meðalkort geta verið misvísandi - því auðvitað víkur mikið frá meðalstöðunni einstaka daga.

w-blogg010815a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, þrýstivik (hPa) eru sýnd í lit, þau neikvæðu eru bláleit, en þau jákvæðu rauðleit. Lægð er fyrir suðaustan land - þrýstingur er nærri 13 hPa undir meðallagi þar sem mest er - og jafnframt er hæð yfir Grænlandi, þar sem þrýstingi er spáð um 12 hPa yfir meðallagi - samtals eru þetta um 25 hPa norðaustanáttarauki á svæðinu milli vikahámarkanna. 

Yfir landinu er aukinn í kringum 5 hPa. Séu vikin gaumgæfð nánar má sjá að annars vegar er norðaustanáttarauki meðfram Grænlandi - en mun austlægari fyrir suðaustan land - þetta gefur okkur von um að loftið verði af austrænni uppruma en verið hefur.

Sé úrkomuspá reiknimiðstöðvarinnar tekin bókstaflega (sem getur verið varsamt) verður úrkoma langt undir meðallagi suðvestan- og vestanlands, en meir en tvöföld meðalúrkoma eystra og þá sérstaklega á Austfjörðum og á Hornströndum. 

Norðaustanátt með hóflegu austrænu ívafi getur verið sérlega hagstæð á höfuðborgarsvæðinu - enn hagstæðari heldur en bæði í Borgarfirði og fyrir austan fjall og hiti getur komist upp í það hæsta sem veðrahvolfið getur leyft - miðað við almennan hita í neðri hluta þess. Þess vegna hafa stöku spár verið að tala um 18 til 19 stiga hita í Reykjavík á mánudag/þriðjudag og ritstjórinn fær jafnvel 20 stiga glýju.

En þá þarf líka allt að ganga upp - en slíkt hefur gengið mjög illa í sumar - tígulgosinn hefur aldrei legið fyrir svíningu. 


Bloggfærslur 1. ágúst 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 334
  • Sl. sólarhring: 505
  • Sl. viku: 2043
  • Frá upphafi: 2484305

Annað

  • Innlit í dag: 311
  • Innlit sl. viku: 1836
  • Gestir í dag: 301
  • IP-tölur í dag: 294

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband