Lúmskur vindgarður

Útsynningurinn er oft erfiður viðfangs. Í honum geta leynst élja- og vindgarðar sem erfitt kann að vera að átta sig á. Einn slíkur gekk yfir landið vestan- og norðvestanvert í dag (sunnudag 8. mars). Hann kom fyrst greinilega fram í harmonie-spárunu sem byggð var á greiningu kl. 18 í gær - laugardag - en illa í fyrri runum. 

Hér að neðan er kort sem sýnir vind í 100 metra hæð kl.15 - [úr rununni kl.12].

w-blogg090315a

Hér sést garðurinn vel - staðbundið hámark er í vindhraðanum rétt við Snæfellsnes - með vindi meiri en 24 m/s. Varla er hægt að ætlast til þess að líkanið hitti alveg rétt í smáatriði af þessu tagi sem kemur beint af hafi - og er á hraðri hreyfingu. 

Sé rýnt í veðurathuganir kemur í ljós að garðurinn skilaði sér illa nema á stöðvum Vegagerðarinnar á Bröttubrekku, Laxárdalsheiði og á Holtavörðuheiði. Sömuleiðis kom nokkuð snarpur toppur á Ennishálsi. Ritstjórinn var sjálfur á ferð á leið úr Borgarfirði síðdegis og ekki vantaði mikið upp á samfellt kóf á Melunum. 

Ekki er gott að segja nákvæmlega hvað var þarna á ferðinni - og ástæðulaust að vera að mása um það - en lítum samt á þversnið úr líkaninu á sama tíma - það liggur eftir 23 gráðum vesturlengdar, frá sjávarmáli og upp í 250 hPa - um 10 km hæð (sjá kortið í efra hægra horni). Vindátt og vindhraði eru sýnd á venjubundinn hátt með vindörvum, en vindhraði líka í lit. Jafnmættishitalínur eru heildregnar.

w-blogg090315b

Hér sést garðurinn sérlega vel, bylgjan nær alveg upp í veðrahvörf - en aðeins fremst í garðinum - þar sem hann ryðst til norðurs. Á eftir fylgir loft þar sem vindhraði er um 20 m/s - en ekki nema upp í um 3 km hæð, þar ofan við dregur úr vindi. Sjá má Sæfellsnes sem gráa hæð neðst á myndinni - rétt norðan við vindgarðinn. 

Garðar sem þessi hafa vafalítið valdið mörgum sjóslysum hér á landi enda sérlega erfitt að varast þá.  

w-blogg090315c

En við skulum líka gefa framtíðinni auga. Kortið hér að ofan gildir kl.6 á þriðjudagsmorgun (10. mars). Mjög vaxandi lægð nálgast landið úr suðvestri. Það hvessir af landsuðri með snjókomu og slyddu til fjalla en sennilega rigningu á láglendi. Ekkert ferðaveður á heiðum síðdegis - fylgist með spám Veðurstofunnar - þið sem eruð í slíkum hugleiðingum.

Svo er þarnæsta lægð í gerjun við Nýfundnaland - ósköp saklaus á þessu korti en á að ná sér á strik strax á miðvikudag - en ekki er enn vitað hvar hún lendir.


Bloggfærslur 9. mars 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 8
  • Sl. sólarhring: 203
  • Sl. viku: 1804
  • Frá upphafi: 2484684

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1621
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband