Er þetta laugardagslægðin?

Miklum illviðrum er spáð næstu daga. Að vanda látum við Veðurstofuna um aðvaranir og þá hnykki sem nauðsynlegir eru. Þótt illu sé spáð á morgun (föstudag) virðist enn verra spáð á laugardag. Lægðin sem á að færa okkur það högg er reyndar rétt svo að verða til - þótt aðeins sé nú (um miðnætti á fimmtudagskvöldi (12. mars) rétt rúmur sólarhringur í að áhrifa hennar fari að gæta hér á landi. - Svo hratt gerast hlutirnir.

Myndin hér að neðan er fengin frá kanadísku veðurstofunni, úr ameríkuhnettinum sem kallaður er GOES-east.

w-blogg130315a

Þetta er hitamynd - lituð þannig að köldustu skýin eru gul - síðan eru þau rauðgulu lítillega hlýrri, því næst þau hvítu sem rennur svo í grátt. Grænt er hlýjast. 

Ísland er efst til hægri - en við sjáum langt suður í höf. Örin bendir á hvítan flekk. Þetta er „haus“ nýju lægðarinnar - miðja hennar við sjávarmál er nokkuð þar suðaustur af. Hausinn er líka kallaður „riðalauf“ (baroclinic leaf) meðan hann er ekki meiri en þetta. 

Annað fyrirbrigði sem við viljum líka sjá í ört dýpkandi lægðarbylgjum er „hlýja færibandið“ [hálfgert klámyrði - en hrá þýðing á „warm conveyor belt“ sem verður að duga þar til betri þýðing finnst). Hér er nýja lægðin ekki alveg búin að koma sér upp eigin færibandi - Það ætti að koma fljótlega í ljós.  

Eftir að haus og hlýtt færiband eru mætt á staðinn förum við að svipast um eftir „þurru rifunni“ (dry slot). Hún kemur fram rétt áður en hringform fer að komast á kerfið - rifan er skýlaust svæði rétt vestan við norðurenda færibandsins. - Enn síðar birtist það sem oftast er kallað snúður lægðarinnar - þar býr hin illræmda „stingröst“ (sting jet) þar sem vindur lægðar af þessu tagi er venjulega mestur við sjávarmál. 

En við bara bíðum og sjáum hvað setur. Á vef Veðurstofunnar má fylgjast með nýjum gervihnattahitamyndum sem endurnýjast á klukkustundarfresti. Þar eru hvítustu svæðin köldust - skýin eru hæst - og hægt er að fylgjast með fyrirbrigðunum sem nefnd voru hér að ofan verða til í nærri því beinni útsendingu. Skýjakerfi lægðarinnar nýju er nýkomið inn á myndina þegar þetta er skrifað (rétt upp úr miðnætti). 


Bloggfærslur 13. mars 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 9
  • Sl. sólarhring: 204
  • Sl. viku: 1805
  • Frá upphafi: 2484685

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1622
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband