Stöðugt í skotlínu

Í vetur hefur hvað eftir annað þurft að sæta lagi til að komast milli staða - jafnvel innan sama landshluta. Þannig var það líka í dag (þriðjudag) - og meira að segja þurfti að hafa hugann við tímasetningar til að komast á milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem misstu af „glugganum“ fyrir hádegi - og voru ekki í stöðu til að bíða fram á kvöld lentu í veseni eða jafnvel vandræðum. 

Reikna verður með því að lag á milli lægða sé mun skemmra á heiðum en á láglendi - mikilvægt er því að velja tíma til ferðalaga af kostgæfni. 

Það er enn rétt að ítreka að blogg hungurdiska stundar ekki spádóma - ritstjórinn er ekki á 24 stunda vakt alla daga vikunnar og ekki með vökula samstarfsmenn sér við hlið ef honum skyldi yfirsjást eitthvað. Vakt Veðurstofunnar sér um málið - auk þess er aðgangur að ýmsum öðrum spám á vefnum - bæði í kortaformi sem og á veðurritum. 

Hvað um það - við skulum líta á sama kort og í gær - það er að segja spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti á miðvikudagskvöld (11. mars) - nema hvað reiknað var í dag - kannski er spáin því nákvæmari.

w-blogg110315a

Lægðins em olli illviðrinu í dag (þriðjudag) er að grynnast vestast á Grænlandhafi - en afleggjari úr henni er langt norður í hafi - hér má líka benda á að mikil snerpa er í lægðardragi - eða lægð - á Noregshafi - þar er spáð fárviðri á bletti. Norðmenn sleppa þó vonandi að mestu. 

Næstu lægðir sem okkur varða eru tvær á kortinu. Sú fyrri er suður í hafi og hreyfist til norðurs - en sú síðari er við Nýfundnaland og stelur hún nokkru af fóðri fyrri lægðarinar sem á heldur að grynnast áður en hingað er komið. Enda eins gott því gríðarhvasst er í kringum lægðina sem á að fara hjá annað hvort rétt suðaustan við land eða yfir það austanvert seint á fimmtudag eða þá um kvöldið. 

Ekki er hjá því komist að fylgjast með þessari lægð - t.d. er alveg hugsanlegt að hann snjói nokkuð á Suðurlandi á fimmtudag - og reyndar rignt líka - svo erum við ekki heldur viss um að vestanáttin sunnan við lægðina sneiði alveg hjá landinu. 

En síðari lægðinni liggur á - hún verður mun dýpri og stærri en að sögn farin að grynnast áður en hingað kemur og trúlega verður úrkoman rigning á láglendi - en ekki snjór - annað mál er á heiðum. 

Svo eru reiknimiðstöðvar óvissar um hvað tekur við af föstudagsrigningunni - því hugsanlega kemur snörp lægðarbylgja strax í kjölfarið með meira hvassviðri og enn meiri rigningu - hugsanlega - svo er ný lægð á sunnudag sem ekki er orðin til. 

En við skulum nú til tilbreytingar líta til austurs. Fyrir verður kort bandarísku veðurstofunnar sem gildir síðdegis á föstudag (13.mars).

w-blogg110315b

Ísland er ofarlega til vinstri á kortinu - í sunnanstormi og rigningu - en lægð fimmtudagsins er komin norður undir Svalbarða. Að öðru leyti eru það tvö veðurkerfi sem ríkja á kortinu - enn ein leiðindalægðin yfir Miðjarðarhafi austanverðu - en það svæði hefur verið sérstaklega ofsótt upp á síðkastið - og svo gríðarmikil hæð með miðju nærri Kirjálaeyði - 1046 hPa í miðju. Þetta er öflugri hæð en sést hefur á þessum slóðum um skeið - sumar spár hafa verið að gefa til kynna að breytinga sé að vænta víðar á norðurhveli - hvort það verður veit enginn - og ekki heldur hvað tæki við ef breytingar verða.

Illviðrið í dag skoraði hátt - stormvísitala ritstjóra hungurdiska fór í 51 prósent sem er þriðja hæsta hlutfall vetrarins - hún var 61 prósent þann 30. nóvember og 55 prósent þann 9. desember. 


Bloggfærslur 11. mars 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 204
  • Sl. viku: 1802
  • Frá upphafi: 2484682

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1619
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband