Endurskipulagning

Næstu tvo daga (miðvikudag og fimmtudag 11. og 12. febrúar) virðist verða uppi smáendurskipulagning á skítkastinu yfir Norður-Atlantshafi - auðvitað til þess að það geti svo haldið áfram. 

Undanfarna daga höfum við verið í námunda við kjarna heimskautarastarinnar - fyrst í hlýindunum suðaustan hans - svo beint undir honum - og loks í dag í norðvesturjaðrinum. Gengið hefur á með snörpum éljum um landið vestanvert í allhvassri vestanátt. Skortur hefur verið á köldu lofti fyrir norðan okkur þannig að vestanátt háloftanna hefur „náð til jarðar“ - við setjum það í gæsalappir - en það er samt nokkurn veginn þannig. 

Stöðuna í dag (þriðjudag 10. febrúar) má sjá á kortinu að neðan. Það er 300 hPa kort evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18. 

w-blogg110215a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - við erum í kringum 8,5 til 9 km hæð yfir sjávarmáli (merkingin er í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða - almennt er heimskautaröstin nokkuð breið - en yfir Íslandi þrengist hún og myndar eindreginn kjarna - sumir segja skotvind - sem litirnir afmarka. Í dekkri bláa litnum er vindhraðinn meiri en 60 m/s. 

Þessi kjarni er smám saman að þokast til austnorðausturs - og út úr kortinu. Við Nýfundnaland er næsta lægðakerfi í undirbúningi - við sjáum tvo (eða þrjá) kjarna. Sá nyrsti er í lægðabeygju, en sá syðri (og lítillega öflugri) er í hæðarbeygju. 

Fyrir tíma tölvuspáa var mjög erfitt að ráða í hvað úr svona nokkru yrði - hvað gerist þegar bylgjur af mismunandi bylgjulengdum og beygjum lenda saman. En þótt þetta sé sérgrein reiknilíkananna vilja þau samt misreikna sig - meira að segja aðeins fáa daga fram í tímann. En hér að neðan má sjá líklegt framhald í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg110215b

Við erum nú komin fram á á fimmtudagsmorgunn kl. 6. Hér má sjá að mjög hefur hert á vindi í nýju lægðinni. Kjarninn orðinn fjólublár - vindhraði 90 m/s - jafnframt er bylgjan orðin býsna kröpp. Það var kennt hér á árum áður að væri rastarkjarni (vindhraðahámark) bakvið (vestan- eða norðanmegin) bylgjuna myndi hún líklega grafa sig niður sem kallað er. Þá er átt við að hún komist aldrei norður á bóginn hjálparlaust.

Sé það rétt í þessu tilviki ætti lægðin sem fylgir bylgjunni aldrei að komast til Íslands. Við myndum þá missa lægðina til austurs eða jafnvel suðausturs og fá einn eða tvo aukadaga í fríi frá skakinu. En reiknimiðstöðvar hafa skakast með þessa ákveðnu lægð fram og til baka í spánum undanfarna daga -.

Rétt er að ræða málið ekki frekar á þessum vettvangi fyrr en fullt samkomulag hefur náðst (eða þagga það í hel - eins og háttur er hérlendis - og furðu oft árangursríkt - þegar vandræði eru annars vegar). En eftir að þessi bylgja er frá virðist vera sátt um að stöðugur og ör lægðagangur haldi áfram svo langt sem séð verður. 


Bloggfærslur 11. febrúar 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 36
  • Sl. sólarhring: 209
  • Sl. viku: 1832
  • Frá upphafi: 2484712

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1645
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband