Hversu lágt fer þrýstingurinn?

Þótt lægðir með miðjuþrýsting undir 940 hPa séu ekki mjög sjaldséðar á Atlantshafi gerist það ekki oft að þrýstingur mælist svo lágur hér á landi. - Reyndar þó í fyrravetur (7. janúar, 939,0 hPa á Gufuskálum) - en síðan þarf að fara aftur til 1999 til að finna jafnlágan sjávarmálsþrýsting á íslenskri veðurstöð. 

Lægðin sem á að fara hjá landinu austanverðu aðfaranótt miðvikudags (þess 30.des.) er efnileg - og þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöldi, 27.) gera evrópureiknimiðstöðin og harmonie-spá Veðurstofunnar ráð fyrir því að þrýstingur í lægðarmiðju fari lægst í 937 hPa - og undir 940 hPa hér á landi. Sjá má tillögu harmonie-líkansins hér að neðan.

w-blogg281215a

Fari lægðin þessa leið - og líti hún svona út - má segja að við sleppum nokkuð vel. Lægðin aðeins farin að fletjast í botninn og veðrið þar að auki verst austan við lægðarmiðjuna að þessu sinni - rétt strýkst við Austurland. - 

En varla þarf að taka fram að þetta er allt mjög ótryggt og litlu má muna til að hlutir fari ekki á verri veg - svo verður víða hvasst á heiðum - auk hálku og skafrennings víða. 

Bandaríska veðurstofan segir lægðina fara niður í 928 hPa og beint yfir landið - það er auðvitað verri gerð en þetta. En spár að vestan hafa verið heldur ótrúverðugar upp á síðkastið - eins og einhver veikindi séu viðvarandi í líkaninu hvað varðar dýpt sumra lægða - ekki aðeins í margra daga spám, en líka í þeim stuttu. Ekki skal fullyrt neitt um það hér hvort þessi sýki nær til þeirrar lægðar sem hér er fjallað um. 

Danska hirlam-líkanið segir lægðina verða 935 hPa í miðju - og fara aðeins vestar en reiknimiðstöðin stingur upp á. Breska líkanið er sammála reiknimiðstöðinni og harmonie. 

En allir þeir sem þurfa að taka mark á veðurspám fylgjast með vef Veðurstofunnar eða með upplýsingum frá öðrum „til þess bærum aðilum“ - og láta ekki (frekar en venjulega) malið í ritstjóra hungurdiska trufla sig frá alvöru málsins. 


Bloggfærslur 28. desember 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg060725a
  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 102
  • Sl. sólarhring: 135
  • Sl. viku: 1759
  • Frá upphafi: 2482982

Annað

  • Innlit í dag: 87
  • Innlit sl. viku: 1582
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband