Bland (kannski leynist þar eitthvað af vetri)

Nú virðist kólna nokkuð og vetur gæti meira að segja sýnt sig. Háþrýstisvæðið sem fært hefur okkur hlýindin undanfarna daga er á undanhaldi og lægðir verða nærgöngular í vikunni. 

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna síðdegis á þriðjudag (20. október).

w-blogg191015a

Þá á myndarleg lægð að vera skammt fyrir suðvestan land á hraðri leið til austnorðausturs. Í kjölfar hennar fylgir skammvinn norðanátt og kannski eitthvað hvítt nyrðra. En suðvestur í hafi er önnur lægð. Sú hreyfist hratt til norðausturs og er því í framhaldinu spáð að hún fari fyrir sunnan land. - Slíkt myndi hnykkja aðeins á norðanáttinni. Yfir Labrador er síðan enn ein lægð og á hún - að sögn - að vera komin að landinu á föstudag. 

Þótt engin hlýindi fylgi lægðunum þremur - kemst veturinn þó varla heiðarlega að fyrr en þær eru allar komnar hjá - og þá er kominn laugardagur - sem er einmitt fyrsti vetrardagur íslenska tímatalsins gamla - gormánuður hefst. 

En þetta er allt í framtíðinni - spár taka mjög misdjúpt í árinni með fyrstu lægðirnar tvær. Þær gætu orðið meinlitlar - en rétt er samt að gefa þeim gaum og þeir sem hyggja á ferðalög milli landshluta - á hálendinu eða sinna sjó ættu að hafa spár Veðurstofunnar við höndina. 

Þriðja lægðin er mun óljósari í spánum - en þó er nú sem stendur furðugott samkomulag um kaldan laugardag. 

En lítum líka á norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar á sama tíma (þriðjudag kl.18).

w-blogg191015b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í fletinum. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mikill þykktarbratti er við Ísland, stutt á milli bláu og gulu litanna. 

Lægðin sem verður suðvestur í hafi á þriðjudaginn sést hér sem skarpt lægðardrag nokkuð austur af Nýfundnalandi - með mjög hlýtt loft innanborðs - en það hlýjasta á að fara alveg fyrir sunnan land. Þriðja lægðin - sú yfir Labrador er allt öðru vísu - breið og mikil - og hægfara - og á hér eftir að ná í hlýtt loft sér til styrktar - aðalspurning síðari hluta vikurnar er sú hvort hún nær í eitthvað yfirleitt. Í kjölfar hennar kemur e.t.v. lægðardrag sem á kortinu er við Norðvestur-Grænland. Þar er blái liturinn orðinn ansi dökkur - þykktin komin niður fyrir 4980 metra - það er alvöruvetur. 

Það er þetta lægðardrag sem reikniniðstöðvar draga suður á Grænlandshaf á laugardaginn - en ef af slíku yrði hefur það hlýnað um 150 til 200 metra á leiðinni - en verður samt það kalt að getur talist til vetrarins. 

Það er auðvitað óttalegt hringl í spánum svona marga daga fram í tímann þannig að kuldinn getur varla talist fullvís. 

En vikan verður blönduð - snjór sést í fjöllum og á stöku stað á láglendi um skamma hríð í vikunni - tíðni næturfrosta vex. - Æ. 


Bloggfærslur 19. október 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 68
  • Sl. sólarhring: 369
  • Sl. viku: 1777
  • Frá upphafi: 2484039

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 1586
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband