Stórgert veðurlag

Mjög stórgert veðurlag er nú ríkjandi á Atlantshafi og reyndar báðum megin þess líka. Næsta stóra lægð er væntanleg hingað síðdegis á þriðjudag (6. janúar) og fleiri eru á biðlista. En spár eru mjög reikandi og breytast mikið frá degi til dags, jafnvel þær stuttu. Það er því e.t.v. fulllangt að líta til hádegis á miðvikudag - umfjöllun gæti orðið úrelt strax á morgun (mánudag) - en leyfum okkur það samt.

Hvað sem óvissu líður má samt segja að þetta veðurlag muni halda áfram meðan Kanadakuldapollurinn (sem við köllum oft Stóra-Bola) er að velta sér í skotstöðu. Fram á miðvikudag á kuldinn að mjakast suður í átt til Bandaríkjanna - eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Það sýnir spá amerísku veðurstofunnar um veður á hádegi (utc = okkar tími) á miðvikudaginn.

w-blogg050615a

Kortið sýnir alla Norður-Ameríku - Kúba er neðst til hægri og Alaska efst til vinstri. Efri jaðar til hægri snertir vesturströnd Íslands. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í flatarhæð (um 5 km). Hann blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Gríðarlegur kuldi er yfir vötnunum miklu og mikil kuldastroka langt suður um miðvesturríkin. Þykktin í miðju kuldans er minni en 4800 metrar - talað er um hugsanlegt nýtt lágmarksmet í Chicago (það mun vera um -23 stig). Aftur á móti er mjög hlýtt við vesturströnd álfunnar. Þykktin yfir Suður-Kaliforníu er meiri en 5640 metrar - jöfn því sem mest verður hér á landi um hásumar og yfir Kúbu er hún meiri en 5700 metrar. Munurinn er um 900 metrar.  

Á vesturjaðri kuldans er mikið háþrýstisvæði (við yfirborð) á hraðri leið til suðurs. Spár gefa til kynna að miðjuþrýstingur í því fari yfir 1055 hPa - sem er óvenjulegt í Bandaríkjunum - helst að slíkt mælist í Alaska og Kanada. Evrópureiknimiðstöðin teygði sig meira að segja upp í 1060 hPa - möguleikinn er fyrir hendi - en heldur ótrúlegur samt. Á sama tíma á lægðin sem verður í námunda við Ísland að vera í kringum 942 hPa í miðju - vantar ekki nema 2 hPa upp á 120 hPa mun. Við trúum því þó ekki fyrr en á er tekið.

Bylgjurnar sem kuldapollurinn vekur með heimskautaröstinni sveiflast austur um haf og allt til Evrópu. Hryggur þeirrar sem angraði okkur í dag (sunnudag) fór hratt til austurs og sama gerir hryggurinn á undan miðvikudagslægðinni. Sjá má báða þessa hryggi klessta saman á Evrópukortinu hér að neðan - en það gildir á sama tíma og það efra.

w-blogg050615b

Við sjáum þar græna fleyginn fyrir austan land - og svo næsta græna fleyg á undan. Þetta eru hryggirnir tveir. Þeir virðast stranda að nokkru á gríðarlegri kaldri bylgju yfir Austur-Evrópu. Það er mjög kalt í Rússlandi miðju - en ekki eins og vestanhafs. Kuldi sem þessi er ekki óvenjulegur í Rússlandi. Aftur á móti er óvenjulegt hvað kuldinn nær langt til suðurs - rætist þetta verður mikið frost á hásléttum Tyrklands og illviðri halda áfram suður á Miðjarðarhafi austanverðu. 

Spár sem ná lengra fram í tímann gera ráð fyrir því að vestanáttin yfir Atlantshafinu muni brjótast austur um - með miklum hlýindum um miðja álfuna - en jafnframt hættu á skammvinnum ofsaveðrum undir heimskautaröstinni. Langtímaspár verið að gera mikið úr styrk rastarinnar eftir miðja vikuna og vindhraða upp fyrir 110 m/s í skotvindi (kjarna) hennar. 

Allur þessi mikli öldugangur missir smám saman hlýtt loft upp í efri hluta veðrahvolfsins og norður fyrir meginatganginn - þar myndar þetta loft hæðarhringrás, veikar hæðir og hæðarhryggi sem flækjast um næsta tilviljanakennt - og gætu um síðir hjálpað til að róa veðrið á okkar slóðum. Mikill atgangur er líka í heiðhvolfinu þessa dagana - og þar hefur hlýnað mikið frá því sem var fyrir viku - en þó ekki nóg til þess að brjóta hringrásina þar niður.  


Bloggfærslur 5. janúar 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 80
  • Sl. sólarhring: 178
  • Sl. viku: 1876
  • Frá upphafi: 2484756

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 1685
  • Gestir í dag: 68
  • IP-tölur í dag: 68

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband