Hlýjar suðvestanáttir ríkjandi næstu vikuna?

Heldur daufleg var helgin á Suðvesturlandi í sunnanátt og sudda - en mun betri á landinu norðan- og austanverðu. Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar verður svipað uppi á teningnum næstu viku til tíu daga. 

w-blogg080914a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga [7. til 17. september] og strikalínurnar meðalþykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvik eru sýnd í lit. Við Austurland er mesta vikið 102 metrar. Það þýðir að hiti verður um 5 stigum ofan meðallags - reikni líkanið rétt. Þetta er stórt vik - fyrir svona langt tímabil.

Hér hefur oftlega verið bent á að mjög hlý þykktarvik skila sér illa til jarðar og þannig fer væntanlega aftur nú. Á móti kemur að nokkuð hvasst verður í lofti og við slík skilyrði er hitinn líklegri að ná sér niður þar sem vindur stendur af háum fjöllum. 

Spáin er mun óvissari fyrir síðari fimm dagana heldur en þá fyrstu. Hámark fyrri hluta hlýindanna verður náð á þriðjudaginn (sé eitthvað að marka spána yfirleitt). Þá er því spáð að mættishiti í 850 hPa komist yfir 22 stig yfir Austurlandi. Sól er farin að lækka á lofti og minnka við það líkur á mjög háum tölum. Til þess að þriðjudagurinn sýni okkur hæsta hita ársins þarf landshámarkshiti að komast yfir 23,3 stig. Til þess er ekki mikil von - en samt ekki alveg vonlaust. 

Talan á kortinu yfir Suðvesturlandi er +55 - það segir að hiti sé +2,5 stigum ofan meðallags septembermánaða áranna 1981 til 2010. Meðalhiti í september í Reykjavík þetta sama tímabil er 8,0 stig. Að hiti þar verði að meðaltali ofan 10 stiga þessa tíu daga er hugsanlegt - en fremur ólíklegt. 

Hlýindin eru tengd fyrirstöðuhrygg yfir Bretlandseyjum og Skandinavíu og hann er aftur studdur af afskorinni lægð austan Asóreyja. Kulda er spáð yfir Baffinslandi, fjórum stigum undir meðallagi.

Höfum í huga að þetta kort sýnir tíu daga meðaltal - mikið getur vikið frá meðallaginu einstaka daga - jafnvel þó spáin sé rétt.  


Bloggfærslur 8. september 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 83
  • Sl. sólarhring: 234
  • Sl. viku: 1993
  • Frá upphafi: 2484992

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 1779
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband