Umhleypingar (eða kannski umhleypingur?)

Orðið „umhleypingar“ er gamalt og gott og er notað um veðurlag. Í umhleypingum eða umhleypingatíð hleypur hann stöðugt til á áttinni. Þegar mest gengur á er hvasst af öllum áttum sama daginn. Ekki dugir samt að tala um umhleypinga þegar ein lægð fer hjá - síðan ekki söguna meir. Þær þurfa helst að vera margar hver á fætur annarri - ekkert endilega daglega - en helst tvær eða fleiri sömu vikuna. 

En - föst skilgreining er auðvitað engin. Erfitt er að spá umhleypingatíð - til að gera það heiðarlega þarf helst (- mikið helst í dag) að vera sýn viku fram í tímann - séu þeir ekki byrjaðir. Auðveldara er að spá því að umhleypingarnir haldi áfram - að minnsta kosti tvo til þrjá daga - kannski lengur. 

Þetta er gamalt og gott orð - kannski fornt meira að segja. Síður er að merking þess fari alveg á flot. 

Ekki meir um það. Svo virðist sem reiknimiðstöðvar séu að spá umhleypingum. Von er á slatta af nærgöngulum lægðum næstu vikuna - hverjar þeirra teljast haustlægðir og hverjar ekki veit ritstjórinn ekki. 

Kortið hér að neðan er af lager evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á fimmtudag, 4. september. 

w-blogg030914a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd - hún þekur mestallt norðurhvel norðan hvarfbaugs. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Vanir geta séð að þeim fer nú hægt fjölgandi - eins og gerist þegar sumri hallar. Þykktin er sýnd í lit - kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Sumar á Íslandi er lengst af á mörkum grænu og gulu litanna, þar heitir þykktin 5460 metrar. Góðir sumardagar eru oftast í gula litnum - en bláa litinn viljum við alls ekki sjá að sumarlagi. Haustlegt verður á örskotsstund ef bláir litir setjast að - þó ekki sé nema í tvo til þrjá daga. 

Bláu litirnir á kortinu eru þrír - sjá má örsmáan blett þar sem þykktin er minni en 5160 metrar rétt sunnan við (he-he) norðurskautið. 

Á fimmtudaginn verður lægðakerfið sem hefur ráðið okkur í dag (þriðjudag) komið austur af og skammær hæðarhryggur er á kortinu rétt fyrir vestan land - kannski með björtu veðri.  

Síðan segir reiknimiðstöðin að hver bylgjan á fætur annarri eigi að berast til okkar úr vestri - hver með sína lægð. Vindáttir hlaupa um - en verða að sögn þó aðallega á bilinu frá suðaustri (landsynningur) og suðvesturs (útsynningur) - og öðrum áttum bregður fyrir. Oftast verður hlýtt austanlands, geta samtímis verið umhleypingar á Vesturlandi - án þess að þeirra verði vart eystra? Það er nú það. 

En orðið - og merkingu þess ættu allir að þekkja - þeir sem vilja geta líka notað það í yfirfærðri merkingu um menn og málefni. Gjörið svo vel. 


Bloggfærslur 3. september 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 87
  • Sl. sólarhring: 232
  • Sl. viku: 1997
  • Frá upphafi: 2484996

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 1782
  • Gestir í dag: 68
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband