Enn af hlýindum

September hefur verið hlýr til þessa - sérstaklega um landið norðan- og austanvert. Meðalhiti á Akureyri það sem af er mánuði er nú rétt um 12 stig. Þetta er fjórða hæsta tala fyrir 11 fyrstu daga mánaðarins - allt frá 1941.

Sami tími 2010 gerði best - meðalhitinn var þá 13,9 stig, 1996 var meðalhitinn þessa daga 13,1 stig og 12,5 árið 2003. Af þessum mánuðum hafði 1996 einn gott úthald - endaði í 11,4 stigum, 2003 endaði í 8,3 en 2010 var öllu skárri og lauk í 9,7 stigum. September 1941 sem á 10,3 stig fyrstu 11 dagana bætti í og endaði svo í 11,6 stigum sem er hæsta septembertalan á Akureyri til þessa. September 1939 var nærri því eins hlýr - við eigum dægurmeðaltöl þess mánaðar ekki á lager í augnablikinu. 

Næstu dagar verða hlýir - sé að marka spár evrópureiknimiðstöðvarinnar - við skulum líta á norðurhvelsspána fyrir laugardaginn 13. september kl. 18.

w-blogg120914a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur í fletinum. Þykktin er sýnd í lit - kvarðinn batnar sé myndin stækkuð - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Brúnir og gulir litir sýna góðan sumarhita - við verðum þeim megin á laugardaginn. 

Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra. Þar neðan við má búast við næturfrosti um meginhluta landsins í björtu veðri. Hér getum við talið þrjá bláa liti, sá dekksti sýnir þykkt á milli 5160 og 5100 metra. Við viljum helst engan bláan lit yfir okkur í september en sleppum varla nú frekar en venjulega. 

Fjórði blái liturinn, neðan við 5100 metra sést ekki á kortinu - en ætti að fara að blikka á okkur í mestu kuldapollunum mjög fljótlega - svo breiðir hann úr sér og fimmti blái liturinn birtist.

Gríðarleg flatneskja er yfir Vestur-Evrópu - en dálítill kuldapollur við Miðjarðarhaf. Óvenjudjúp lægð er þessa dagana við Alaska - hún fór víst niður í um 960 hPa.

Nú ætti að vera hámark fellibyljatímans á Atlantshafi - en lítið bólar á slíku - alla vega sér evrópureiknimiðstöðin ekki neitt í 10-daga spánni í dag. Reyndar fylgist fellibyljamiðstöðin í Miami með þremur bylgjum í dag - kannski verður eitthvað úr? Fellibyljir hafa sömuleiðis verið fátíðari en að meðallagi á Kyrrahafi vestanverðu - en óvenjuskæðir á því austanverðu (undan Mexíkó). 


Bloggfærslur 12. september 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 77
  • Sl. sólarhring: 230
  • Sl. viku: 1987
  • Frá upphafi: 2484986

Annað

  • Innlit í dag: 69
  • Innlit sl. viku: 1775
  • Gestir í dag: 61
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband