Austanáttarvika?

Nú er kuldinn að hverfa aftur norður í haf og angrar okkur vonandi ekki aftur alveg á næstunni. Ekki er nú samt útlit fyrir hlýindi næstu daga. Landið verður í hægri austanátt - sem verður heldur sterkari við jörð en í háloftunum - að sögn reiknimiðstöðva. Kortið að neðan nær yfir mestallt norðurhvel norðan við 30. breiddarstig, Ísland er rétt ofan við miðja mynd.

w-blogg040814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn en hann blæs samsíða línunum með lægðir á vinstri hönd. Þykktin er sýnd með litum, kvarðinn batnar við stækkun. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Grænir (og bláir) litir eru kaldari en þeir gulu og brúnu. Ísland er rétt á mörkum gula og græna litarins - og telst það viðundandi á þessum árstíma - en ekki meira en það. 

Mikil háloftalægð er suðvestur í hafi og beinir til okkar austlægum áttum. Enn fáum við ekki frið fyrir lægðarbeygjunni - þess vegna er varlegt að gera ráð fyrir alveg þurru veðri. Úrkomusvæði koma hvert á fætur öðru suðaustan- og austanað, flest eru þó veigalítil - ef trúa má reiknimiðstöðinni.

Mikil hlýindi eru enn yfir Norðurlöndum - þar er þykktin á kortinu yfir 5640 metrum - svo mikla þykkt sjáum við næstum aldrei hér við land (en vonumst samt eftir henni á hverju sumri). Enn er verið að slá hitamet í Eystrasaltslöndum og séu spár réttar gætu fleiri met fallið bæði þar og í Skandinavíu. 

Kuldapollarnir yfir Norðuríshafi eru öflugir - en fyrirferðarlitlir og enn mun bráðnun halda áfram. Sólarylurinn verður veigaminni með hverjum deginum - svo fer að lokum að ísinn hættir að bráðna nema þar sem vindur flæmir hann út í hlýrri sjó - sem náð hefur að vera auður um einhverja hríð.  


Bloggfærslur 4. ágúst 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 129
  • Sl. sólarhring: 163
  • Sl. viku: 2039
  • Frá upphafi: 2485038

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 1813
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband