Af stöðu veðurkerfa - einhver bót?

Illviðri helgarinnar er að mestu gengið hjá. Kuldapollurinn skilaði myndarlegum skúrum (og jafnvel þrumum) yfir Suðurlandi í dag - og enn rignir norðaustanlands í tengslum við leifar kerfisins. Nú er spurning hvað gerist næst. Til að velta vöngum yfir því lítum við á spá hirlam-líkansins um sjávarmálsþrýsting og úrkomu kl. 21 á þriðjudagskvöld (8. júlí). 

w-blogg080714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, úrkoma er sýnd í grænu og bláu og sömuleiðis má sjá jafnhitalínur 850 hPa-flatarins strikaðar. Myndin batnar talsvert við stækkun.

Inn á kortið hafa verið settar þrjár tölur - við þau veðurkerfi sem við sögu koma næstu daga. Hjá tölunni 1 geta menn sett hitaskil sem liggja frá Norðursjó norður til Jan Mayen. Þarna er stutt á milli jafnhitalínanna +5 og +10 í 850 hPa. Óskin er sú að fá +10-línuna hingað til lands. Það er sennilega óhófleg bjartsýni. Í dag var hiti nærri frostmarki í þessari hæð hér yfir landinu. 

Skilin hreyfast lítið - aðeins þó til vesturs. Austan þeirra er eðalhiti - fór í 30 stig á nokkrum stöðvum í Norður-Noregi í dag.

Næsta kerfi sem kemur hér við sögu er merkt sem númer 2. Þetta er úrkomusvæði sem nálgast úr suðvestri og við sleppum víst ekki við - allt í lagi með það - ekki nein aftakarigning né vindur. 

Við verðum hins vegar að bíða spennt eftir kerfi sem merkt er númer 3 (við Nýfundnaland á kortinu). Þetta er dýpkandi lægðasvæði - öllu máli skiptir hvar það dýpkar. Gerist það á réttum stað fyrir sunnan land verður það til þess að hlýja loftið við Noreg dregst til vesturs við norðurjaðar lægðarinnar (kólnar að vísu nokkuð) en myndi þá veita okkur eina 2 til 3 hlýja daga (e.t.v. ekki alveg úrkomulausa). Dýpki lægðin of snemma heldur svaltíðin áfram með sunnan- og suðvestanáttum - en geri hún það of seint fáum við strax norðaustanátt - heldur svala líka. Úrslitastundin er á föstudag - kannski að reiknimiðstöðvar gefi okkur eitthvað styrkjandi fram að þeim tíma - eða þá enn meiri vonbrigði.

Sjá má tvær myndir af skúraskýjum dagsins á vegg fjasbókarútibús hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/

Frost var -27 stig í 5 km hæð yfir Suðurlandi í dag. Í dag var úrkoma fyrstu 7 daga mánaðarins komin í 132,2 mm í Birkihlíð í Súgandafirði - þar hefur úrkoma verið mæld síðan 1997. Þess má geta að þar hefur úrkoma fyrstu sjö daga júlímánaðar mest mælst 25,4 mm (2005). Á Reykjahlíð við Mývatn þarf að fara aftur til 1969 til að finna jafnblauta júlíbyrjun og nú, til 1972 á Tjörn í Svarfaðardal og á Staðarhóli í Aðaldal. Á Hlaðhamri í Hrútafirði þarf að fara aftur til 1978 til að finna jafnblauta júlíbyrjun og nú. Heldur þurrara er að tiltölu sunnanlands - en þó eru þar nokkrar stöðvar þar sem úrkoma er komin yfir meðallag júlímánaðar alls. Þar fara Vatnsskarðshólar líklega fremstir í flokki, en þar hefur fyrsta júlívikan ekki verið jafnblaut frá 1954. Allar úrkomutölurnar eru óyfirfarnar og því með fyrirvara. 


Bloggfærslur 8. júlí 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 1795
  • Frá upphafi: 2485081

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1590
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband