Hitinn fyrstu fimm mánuði ársins óvenjuhár

Ekki nær hann þó meti. Í Reykjavík hafa fyrstu fimm mánuðir ársins aðeins þrisvar verið hlýrri frá því að samfelldar mælingar hófust 1871. Þetta var árin 1964 (þá var hlýjast), 1929 og 2003. Ekki er langt í næstu sæti. Svipað á við um Akureyri - þar eru sex tímabil hlýrri en nú. Við skulum líta á línurit.

w-blogg030614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hið kunnuglega hitalandslag sést vel - kuldinn fyrir 1920, hlýskeiðið sem endaði snögglega 1965, kuldaskeiðið sem fylgdi þar á eftir og að lokum hlýindin á nýrri öld. Og alltaf vekur athygli hversu jafnhlýtt er á nýju öldinni - og rífur það nýju hlýindin upp fyrir fyrra hlýskeið - sem var miklu breytilegra.  

Línurit sem gerð væru fyrir aðra staði á landinu yrðu með sama meginsvip - en þó ekki eins. Við sleppum því að líta á Akureyrarmyndina - en könnum þess í stað mynd sem sýnir mismun hita í Reykjavík og á Akureyri fyrir fimm fyrstu mánuði ársins. Gildin eru jákvæð sé hlýrra í Reykjavík.

w-blogg030614b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti kvarðinn (mismunurinn) nær yfir 5 stig - en náði yfir 10 stig á fyrri myndinni. Sveiflur eru því grófgerðari. Þessi mynd byrjar 1882 en samfellda hitaröðin frá Akureyri byrjar haustið 1881. Það hefur einu sinni gerst á tímabilinu að hlýrra hefur verið á Akureyri heldur en í Reykjavík. Það var 1984. Þá réðu vestrænir kuldar ríkjum og náðu þeir verr til Norðurlands heldur en suðvesturhluta landsins. Þetta atvik er mjög mikilvægt í veðurfarssögunni því hefði það ekki átt sér stað væri hætt við því að ámóta uppákomum í eldri (og óvissari) mælingaröðum yrði ekki trúað. En atvikið var mjög raunverulegt - árið allt var meira að segja hlýrra í Grímsey heldur en á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Munurinn milli stöðvanna var meiri fyrir 1920 heldur en síðar - en okkur veðurfarssögupælurum til sérstaks happs tók mikill munur sig upp á hafísárunum 1965 til 1971. Við getum því meðtekið fyrstu áratugi þessarar myndar með bros á vör. Þá var mun meiri hafís við Íslandsstrendur heldur en var á hlýindaskeiðinu og á síðustu árum. Við þurfum ekki að hrökkva í leiðréttingarham (sem myndi t.d. kæla Reykjavík um 0,7 stig).

En - þeir sem ekki vita þetta vilja varla trúa því að munur sem þessi geti verið á milli stöðva sem ekki eru lengra frá hvor annarri. Okkur finnst ekkert sérstaklega stutt milli Reykjavíkur og Akureyrar - en úr fjarska - heimshitafjarska - virðist þetta vera örstutt. Því telja menn sig geta með „góðum“ rökum leiðrétt „skekkjuna“. Svo er að sjá að ýmsir velmeinandi félagar í sögunni úti í löndum ákveði bara að svona mikill munur eftir tímabilum hljóti að stafa af ósamfellu í mælingum - og engu öðru.

Þá er tekið til við að leiðrétta og leiðrétta. Á að trúa Akureyri - eða á að trúa Reykjavík - það fer auðvitað eftir því hvaða stöðvar fleiri eru aðgengilegar og jafnvel því sem menn telja fyrirfram að hljóti að vera.

Jú, vafalítið er að allskonar ósamfellur sé raunverulega að finna í hitaröðum Reykjavíkur og Akureyrar - en það er óþarfi að „leiðrétta“ þær sem eiga sér fullkomlega eðlilegar skýringar í náttúrunni sjálfri.  


Meira um árstíðasveiflu meðalvindhraða

Eins og kom fram í fyrri færslu er vindhraði á landinu minnstur í júlímánuði. Úr honum dregur á vorin - en ekki jafnhratt að degi heldur en að nóttu. Að vetrarlagi ráða þrýstikerfi - lægðir og hæðir vindhraðanum að mestu leyti. Að vísu er þá mikið um hæga fallvinda þar sem loft sem kólnar yfir landinu rennur til sjávar en fallvindarnir vita ekki mikið um það hvað klukkan er.

Um hafgoluna gegnir öðru máli. Hún er áberandi mest síðdegis - víðast hvar á tímabilinu frá því kl 14 til 17, en vindur er mun minni að næturlagi. Við lítum á nokkuð flókna mynd sem á að sýna árstíðasveiflu kl. 15 að degi og kl. 3 að nóttu - og sömuleiðis mismuninn.

w-blogg010614

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lárétti ásinn sýnir daga ársins - við mánaðamót, en lóðréttu ásarnir eru tveir, báðir sýna metra á sekúndu, en sá til vinstri meðalvindhraða og á við rauðu og bláu línurnar á myndinni.  

Rauðu línurnar sýna vindinn kl. 15. Að meðaltali er hann hátt í 7 m/s þegar hann er mestur að vetri, en um 5 m/s að sumarlagi. Lágmarkið er um mánaðamótin júlí og ágúst.

Bláu línurnar sýna vindhraðann kl. 3. Hann er ámóta mikill og vindhraðinn kl. 15 í nóvember, desember, janúar og febrúar - varla er marktækur munur í mars og október, í apríl til september er hann talsvert minni.

Gráu línurnar sýna aftur á móti mismuninn - þar lítum við til kvarðans til hægri á myndinni. Þar sjáum við það sama og áður - munurinn er í kringum núll yfir háveturinn, en fer að vaxa um jafndægur og er algjörlega hafgolunni í hag allt fram að jafndægri að hausti - þá dregur úr. 

Munurinn er mestur í júní - í kringum sólstöður eins og vera ber því það eru áhrif sólarinnar sem búa hann til. Yfirborð landsins hitnar mun meira en yfirborð sjávar að sumarlagi - landið hitar síðan loftið. Yfir sjó fer sólarhitinn aðallega í uppgufun á vatni - í að búa til dulvarma. Dulvarminn skilar sér aftur þegar rakinn þéttist - en hvar það gerist er ekki gott að segja. Ef hann þéttist nærri yfirborði sjávar verður til þoka - en yfirborð hennar endurkastar sólargeislum - þannig að þeir nýtast enn verr í orkuskipti. 

Sólaráhrifin koma fram strax í mars - en þá er lítið um hafgolu. Til þess að sólarylurinn nýtist landinu þarf snjór að vera bráðnaður - annars endurkastast sólarljósið - eða fer í að bræða snjóinn og þar með undirbúa síðari daga orkunýtingu.

Atriði sem taka má eftir er að mismunur vinds dags og nætur vex hraðar á vorin heldur en að hausti. Hér kemur snjóhula trúlega við sögu - minnkar hún hraðar í lok vetrar heldur en hún vex í sumarlok? 

Sé farið í smáatriði í dægursveiflu vindátta - má strax í mars sjá votta fyrir einhverju sem kalla má hafgolu. En - fleira kemur við sögu - utan dagskrár að sinni. 


Bloggfærslur 21. júní 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 97
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 1879
  • Frá upphafi: 2485165

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 1664
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband