Kalt loft úr vestri (nær alla leið)

Það hefur gerst nokkrum sinnum á undanförnum tveimur mánuðum að kalt loft úr vestri hefur nálgast landið - komist rétt með herkjum inn á og yfir það - en hörfað jafnharðan fyrir austanáttinni. Nú virðist sóknarþunginn loksins ætla að verða meiri.

Við fáum nú yfir okkur nokkra éljagarða úr suðvestri og bjartara veður með smærri éljum á milli. Spár greinir hins vegar nokkuð á um það hversu mikil úrkoma fylgir og hversu mikið af henni verður í föstu formi á láglendi. Talað er um 50 til 90 mm á höfuðborgarsvæðinu næstu 6 til 7 daga. Það verður að teljast harla ólíklegt að allt þetta magn falli allt sem snjór - enda eins gott. En einhver slabbleiðindi eru líklegust. Það er svo vonandi að ekki frjósi að ráði upp úr slíku. En það ætti að bæta í snjóinn á skíðasvæðum suðvestanlands.

En við skulum líta á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á miðvikudag (5. mars).

w-blogg040314a 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar (tölur í dekametrum) en þykktin er sýnd með litum (kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað). Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra og skipt er um lit á 60 metra bili. Miðja háloftalægðarinnar miklu er við Suður-Grænland en kuldinn henni tengdur er þar nokkuð fyrir suðvestan og vestan og hann streymir til austurs út á Atlantshaf sem hitar loftið baki brotnu upp undir eða upp fyrir frostmark þegar hingað er komið.

Þetta er harla óþægileg staða - uppskrif að illviðrum - en einhvern veginn liggur öllum lægðavísum svo mikið á að komast til Íslands að nær ekkert skipulag er þar á. Vísarnir dreifast á smálægðir og lægðadrög sem fara eiga yfir landið hvert á fætur öðru.

En það er samt eins gott að fylgjast vel með. Jafnhæðarlínurnar suðvestur af landinu á kortinu eru gríðarþéttar og vel gæti einhver smálægðin náð að draga niður eitthvað af háloftavindinum.

Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar á fyrsta lægðarbylgjan sem nær í hlýtt loft sér til fóðurs ekki að ganga yfir fyrr en á sunnudaginn - og á þá að fara til norðausturs fyrir suðaustan land. Eitthvað kunnuglegt það.

Bandaríska veðurstofan finnur (nú í nýjustu spárununni) sunnudagslægðina hins vegar ekki - en gerir þess í stað meira úr lægðardragi sem á að fara hjá á miðvikudag - um það leyti sem kortið hér að ofan gildir. Reiknimiðstöðin gerir þar minna úr - eitthvað smátt sem fer til norðausturs milli Íslands og Færeyja án teljandi beinna áhrifa hér á landi.

Alla vega er von á heldur meiri tilbreytingu í veðri næstu daga en verið hefur að undanförnu. Eftir helgi er allt galopið - rennsli í sama far og áður - æsilegri lægðagangur eða jafnvel fyrirstöðumyndun sunnan við land og alvöru vestanátt.


Bloggfærslur 4. mars 2014

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725a
  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 197
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 1845
  • Frá upphafi: 2485502

Annað

  • Innlit í dag: 180
  • Innlit sl. viku: 1636
  • Gestir í dag: 169
  • IP-tölur í dag: 166

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband