Alþjóðaósondagurinn 16. september

Jú, sérstakur dagur er frátekinn á dagatalinu fyrir lofttegundina óson. Þess er minnst 16. september ár hvert að þennan dag árið 1987 var skrifað undir Montrealyfirlýsinguna svonefndu en hún inniheldur samkomulag um takmarkanir á losun ýmissa ósoneyðandi efna.

Rokið var í að gera þennan samning þegar í ljós kom að á hverju hausti var farið að gæta vaxandi ósonrýrðar á suðurhveli - mest nærri Suðurskautslandinu og yfir því síðla vetrar og að vorlagi (í ágúst til október). Illa leit út með framhaldið - en samningurinn er talinn hafa bjargað í horn - hvað sem svo síðar verður. Enn útlitið er þó talið hafa batnað síðan 1987. Hungurdiskar fjölluðu lítillega um óson í pistli í apríl 2011. Finna má umfjöllun um samninginn á vef umhverfisráðuneytisins.

En lítum af þessu tilefni á ósonkort bandarísku veðurstofunnar í dag. Við sleppum hitabeltinu, en lítum bæði á norður- og suðurhvel. Fyrst norðurhvelið.

w-blogg170913a

Ísland er rétt neðan við miðja mynd - kortið skýrist mjög við stækkun. Hér við land er hámark ósonmagns seint að vetri en lágmarkið í skammdeginu. Á þessum tíma árs (í september) fer ósonmagn hægt minnkandi á norðurhveli. Á grænum svæðum myndarinnar er meira óson heldur en á þeim bláu.

Einingarnar eru kenndar við Gordon Dobson (1889 til 1976) en hann var frömuður ósonmælinga á sinni tíð. Ein dobsoneining (DU) samsvarar 10 míkrómetra þykku lagi af ósoni væri það allt flutt niður að sjávarmáli og 0°C hita. Við sjáum (já, stækkið myndina) að talan við Austurland er 348 dobsoneiningar, þar væri ósonlagið um 3,5 mm þykkt væri það allt flutt til sjávarmálsþrýstings.

Talað er um ósonrýrð (ozone depletion) fari magnið niður fyrir 200 DU. Suðurhvelskort dagsins í dag sýnir einmitt slíka rýrð þar um slóðir.

w-blogg170913b

Suðurskautið er rétt ofan við miðja mynd. Á fjólubláa svæðinu er ósonmagnið á bilinu 125 til 150 DU. Freistandi er að tala um ósongat á dekkstu svæðum myndarinnar. Séð frá þessu sjónarhorni er það samt varla rétt því ósonmagnið yfir Suðurskautslandinu er nú um 35% af því sem það er nú austan við Ísland - en alls ekki núll.

Hið eiginlega ósongat kemur hins vegar fram í lóðréttum þversniðum af ósonmagninu. Styrkur ósons er að jafnaði langmestur í 20 til 30 km hæð. Á þeim tímabilum sem ósoneyðing er sem mest hverfur það nærri því alveg á þessu hæðarbili eða hluta þess - en eitthvað situr eftir ofan og neðan við - gat er að sjá á styrkleikaferlinum lóðrétta. Hvort rýrnunin sem sést greinilega á þessu korti er þessa eðlis - eða hvort hún deilist jafnar á hæðina veit ritstjórinn ekki - enda á hálum ís þegar að ósonmálum kemur. Ættu lesendur ekki að styðja sig alvarlega við þennan pistil en fletta upp traustari heimildum vilji þeir vita meira um óson.


Bloggfærslur 17. september 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 250
  • Sl. sólarhring: 251
  • Sl. viku: 1458
  • Frá upphafi: 2486367

Annað

  • Innlit í dag: 211
  • Innlit sl. viku: 1277
  • Gestir í dag: 183
  • IP-tölur í dag: 181

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband