Sumri fer að halla í heiðhvolfinu

Að vanda fara veðurkerfi að halla sér til hausts þegar kemur fram í miðjan ágúst. Á hverjum stað er þó mjög misjafnt hversu lengi sumarið heldur velli. Hér á landi er ágúst alloft hlýjasti sumarmánuðurinn, í Reykjavík er því þannig varið um það bil þriðja hvert ár. Aftur á móti er september örsjaldan hlýjastur og hefur það ekki gerst í höfuðborginni síðan 1877 og þá var munurinn á honum og júlí svo lítill að algjörlega ómarktækt er. En við gerum eins og í íþróttunum, látum gullið ráðast á sjónarmun.

Í kringum miðjan ágúst fer lofthjúpurinn að hefja umstöflun fyrir veturinn. Á sumrin er austanátt ríkjandi ofan við 20 km hæð við Ísland - en vestanátt á vetrum. Snúningurinn frá vestri til austurs á vorin er oftast eindregnari heldur en frá austri til vesturs á haustin. En við 30 hPa-flötinn verða umskiptin á tímabilinu 15. ágúst til 15. september hér við land.

Kortið hér að neðan er úr safni bandarísku veðurstofunnar (gfs-líkanið) og sýnir hæð og hita í 30 hPa kl. 18 síðdegis á þriðjudag (13. júlí). Jafnhæðarlínur eru heildregnar en hiti er sýndur með litum (litakvarðinn skýrist mjög sé kortið stækkað). Flöturinn er í rúmlega 24 km hæð frá jörðu.

w-blogg140813a

Sunnan við 55°N eru jafnhæðarlínurnar nokkurn veginn hringlaga, samsíða breiddarbaugunum, vindur blæs úr austri. Norðar er flatneskja ríkjandi, svæðið skiptist á milli hæðar og mjög grunnrar lægðar. Austanáttin helst lengst frameftir syðst á kortinu en mjög eindregna vestanátt gerir í kringum lægð sem dýpkar og dýpkar jafnt og þétt allt haustið.

Enn er áberandi hlýjast í kringum norðurskautið en næstu mánuði kólnar langmest þar. Um leið og vestanáttin nær sér á strik geta heiðhvolf og veðrahvolf farið að talast við.

Það er líka um miðjan ágúst sem fer að kólna á norðurslóðum. Þá kólnar að jafnaði meira nyrst heldur en sunnar og hitamunur (þykktarbratti) vex hröðum skrefum og tíðni illviðra tekur stökk upp á við. Þeir lesendur sem nenna geta rifjað upp pistil á hungurdiskum sem skrifaður var um þetta leyti í fyrra (2012). Þar er bent á 13. ágúst sem snúningsdaginn mikla þegar gangan til hausts hefst (en það má auðvitað ekki taka of bókstaflega).


Bloggfærslur 14. ágúst 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 18
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 1325
  • Frá upphafi: 2486393

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1172
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband