Næstu lægðir - gjörið svo vel

Í dag (fimmtudaginn 11. júlí) sló verulega á hitann fyrir norðan og austan - enda nálgast myndarlegur kuldapollur úr vestri. Kuldaskilin voru þó langt á undan honum sjálfum en hann fer yfir á morgun (föstudag). Er þá gert ráð fyrir skúradembum. Fyrri mynd dagsins sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og hita í honum um hádegi (föstudag).

w-blogg120713aa

Hita- og hæðarsvið er nokkuð sammiðja, vindur er hvass í kringum háloftalægðina en kuldinn fyllir vel upp í hana og kemur þar með í veg fyrir hvassan vind við sjávarmál. Það er helst að strekkings sé að vænta undan Suðurlandi frá Reykjanesi og austur úr. Bent er á textaspár Veðurstofunnar um frekari upplýsingar um það.

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, vindátt og vindhraði eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Hitinn er sýndur með litum, kvarðinn til hægri batnar mjög við stækkun. Um tuttugu stigum munar á hæsta og lægsta hita kortsins. Þegar kortið gildir er lágmarkið sem það sýnir mínus 31,2 stig - yfir Hrútafirði. Í veðurlagi sem þessu eru oftast skúrir sem dægursveifla og hlýtt land ýta undir. Skúrirnar eru þá oftast mun meiri inni í sveitum heldur en við sjávarsíðuna. Kannski heyrast einhverjar þrumur.

Þykktin, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs er ekki sýnd á þessu korti en er aðeins um 5300 metrar í miðju lægðarinnar. Það er gott að kerfið fer hratt framhjá og það um hábjartan dag.

Á laugardaginn er nýtt úrkomusvæði tekið við. Það er mjög hraðfara og háloftabylgjan sem því fylgir er veigalítil miðað við þá stóru á kortinu hér að ofan.

Við skulum því líta á sunnudagsháloftaspána.

w-blogg120713a

Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar sem fyrr, en þykkt er sýnd með rauðum strikalínum. Iða er grábleik. Föstudagslægðina má sjá langt norðaustur í hafi. Þar sýnir innsta jafnþykktarlínan 5340 metra. Laugardagslægðarinnar gætir eiginlega ekki - föstudagskerfið hefur étið hana með húð og hári.

En ný lægð nálgast úr vestri. Um hádegi á sunnudag er hún vestast á Grænlandshafi og á að fara til austurs fyrir sunnan land á mánudag. Fyrir nokkrum dögum gerðu reiknimiðstöðvar ráð fyrir því að hún myndi grípa föstudagslægðina og senda hana síðan til suðurs aftur - skammt undan Norðausturlandi. Þykktin átti samkvæmt þeim spám að fara niður í um 5270 metra í allhvössum vindi. Þannig nokkuð er ávísun á hríð langt niður á heiðar. En - við sleppum vonandi alveg við þennan möguleika.

Nú má á kortinu sjá hæð yfir Grænlandi vestanverðu - slíkt hefur lítið sést að undanförnu. Hún á þó ekki að leggja leið sína hingað heldur á að fara til norðvesturs og hjálpa til við ísbræðslu á kanadísku eyjunum í næstu viku. Ekki veitir af hjálp til þess - ef skip eiga að komast þar um í september.

Næsta lægð til okkar eftir þetta er ekki orðin til á sunnudagskortinu - og eru evrópureiknimiðstöðin og sú bandaríska ekki sammála um það hvort hún kemur strax á þriðjudag (sú síðarnefnda) eða ekki fyrr en á miðvikudag (sú fyrrnefnda). Þetta er hálfgerður grautur og óvissa greinilega mikil.

Taka má eftir því á sunnudagskortinu hér að ofan að 5640 metra jafnþykktarlínan er yfir suðurströnd Írlands. Þar hefur verið mjög hlýtt að undanförnu og helst að sjá að svo verði áfram. Það er dálítið spennandi að fylgjast með því vegna þess að stöku spárunur hafa gert ráð fyrir enn meiri þykkt á þessum slóðum - jafnvel upp undir 5700 metra. Við treystum því þó varlega.

Hitamet Írlands er orðið gamalt, 33,3 stig sem mældust þar sumarið 1887. Sumir vilja þó ekki nota þetta gamla met en miða við 32,5 stig sem met. England á hins vegar mest 38,5 stig.


Bloggfærslur 12. júlí 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 141
  • Sl. sólarhring: 188
  • Sl. viku: 1882
  • Frá upphafi: 2467003

Annað

  • Innlit í dag: 124
  • Innlit sl. viku: 1721
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 111

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband