Sumargæði í Reykjavík síðustu 90 árin

Fyrir nokkru reyndu hungurdiskar að telja sumardaga í Reykjavík. Í þeirri talningu kom í ljós að síðustu sumur hafa verið sérlega gæf hvað slíka daga varðar. Reyndar eru yfirburðir þeirra fram yfir fyrri sumur svo mikil að ótrúlegt má teljast. Nú er reynd önnur nálgun.

Hún fer þannig fram að litið er á fjóra veðurþætti. Þeir eru mánaðameðalhiti, mánaðarúrkoma, sólskinsstundafjöldi mánaða og úrkomudagafjöldi mánaða. Dagur er talinn úrkomudagur sé sólarhringsúrkoma einn millimetri eða meiri. Í upphafi var miðað við tímabilið 1933 til 2012 - 80 ár og hver mánaðanna júní, júlí og ágúst teknir sér.

Næst var júnímánuðum raðað frá þeim hlýjasta til þess kaldasta. Sextán hlýjustu mánuðirnir (fimmtungur úrtaksins) fengu einkunnina 1, næstu sextán 2 og þeir sextán köldustu fengu töluna fimm. Sömu aðferð var beitt á hinar breytistærðirnar þrjár, sólríkustu mánuðirnir fengu 1 í einkunn en sextán þeir lökustu töluna 5, þurrustu mánuðirnir og þeir sem fæsta áttu úrkomudagana fengu 1 í einkunn, en þeir votustu og úrkomutíðustu fengu 5. Eins og sjá má eru gæði hér metin að nútímahætti. Landbúnaður vill frekar að júní sé tiltölulega úrkomusamur en hlýr - en síðan taki þurrviðri með hlýindum við.

Að lokum eru tölur mánaðanna þriggja ár hvert lagðar saman. Því hærri sem talan er því laklegra var sumarið.

Nú verður að upplýsa að upphaflega ætlaði ritstjórinn að búa til eins konar hrakdagatal fyrir Reykjavík - í andstöðu við sumardagatalið. Í ljós kom hins vegar að virkilegir hrakdagar reyndust fáir og furðumörg sumur án slíkra daga. Sú aðferð sem notuð var reyndist sumsé misheppnuð (og þarf ekki að upplýsa meir um hana). Þá var gripið til aðferðarinnar að ofan - hugmyndin var að leita að rigningasumrum og rigningamánuðum. Þess vegna er hærri einkunn gefin fyrir verra veður - því hærri sem talan var því lakari er mánuðurinn.

En - þegar þetta var komið á mynd varð einhvern veginn ankannanlegt að bestu sumrin skyldu skora lægst. Lokahnykkurinn varð því sá að snúa lokakvarðanum við - á myndinni hér að neðan eru það því bestu sumrin sem fá hæsta einkunn. Tímabilið var síðan lengt aftur til 1921, en sömu einkunnabil notuð.

w-blogg270613

Eitt sumar skoraði á fullkomlega neikvæðan hátt - fékk núll í einkunn, allir veðurþættir allra mánaðanna fengu 5 - fullkomna skor á hrakviðrakvarðanum, en núll í gæði. Þetta er auðvitað hið illræmda sumar 1983. Ekkert sumar á tímabilinu náði mestu hugsanlegri gæðaskor, 48, en sumarið 2009 komst næst því með 41 stig. Sumur síðustu ára skera sig úr - eins og í sumardagatalningunni - en fá smásamkeppni frá árum í kringum 1930.

Topp-tíu listinn er svona:

röðár gæðaeinkunn
12009 41
21928 40
21931 40
42010 39
42012 39
62011 38
71951 37
71957 37
72007 37
101927 36
101958 36

En minnt er á að þetta gildir fyrir Reykjavík - líklegt er að ámóta listi eigi við um landið suðvestanvert, en annar norðaustanlands. En lítum líka á botnsætin - þar ættu rigningasumrin að liggja:

röðár gæðaeinkunn
11983 0
21925 6
21984 6
41976 8
51923 9
61955 10
61975 10
61989 10
91969 11
101995 12
111937 13
121947 14
131940 15

Af frægum rigningasumrum saknar maður helst sumarsins 1972 - en á listanum eru að öðru leyti góðkunningjar veðurnörda. Þau munu þó varla mörg muna 1925 - en það sumar á nokkuð óvænta innkomu - ritstjórinn hefði heldur veðjað á að 1926 væri í hópnum.

Tveir júnímánuðir (2008 og 2012) náðu toppskor (16 stigum) í gæðum en júní 1923, 1979 og 1983 liggja á botninum. Fimm júlímánuðir eru með fullt hús gæða (1936, 1939, 1957, 1958 og 2009), júlí 1925, 1983 og 1989 eru í botni (núll stig). Enginn ágústmánuður er með 16 stig, ástæðan er sennilega sú að sól hefur lækkað á lofti og mikill hiti og mikið sólskin falla síður saman þegar liðið er á sumarið - en það hlýtur samt að koma að því. Þrír ágústmánuðir eru með 15 stig, 1931, 1960 og 2011. Þrír ágústmánuðir ná engu stigi, 1937, 1976 og auðvitað 1983.

Af uppgjöri einstakra mánaða má sjá að fullteins góðir mánuðir hafi komið á árum áður og þau síðustu, en úthald sumra áranna frá og með 2009 hefur verið mjög sérstakt.

Hvar 2013 endar vitum við ekki, en júní virðist það sem af er liggja undir meðalgæðum samkvæmt matsaðferð dagsins.

Hér er auðvitað um leik að ræða en ekki loftslagsvísindi - lesendur hafi það í huga.

Viðbót: Listi um einkunnir einstakra mánaða og sumra er í viðhengi. Þar má einnig finna samskonar mat fyrir Akureyri. Verði þeim að góðu sem vilja neyta.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 27. júní 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 76
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 1817
  • Frá upphafi: 2466938

Annað

  • Innlit í dag: 66
  • Innlit sl. viku: 1663
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband