Slefar í meðaltalið - en langt í eitthvað betra

Loftið sem nú er yfir landinu rétt slefar í meðalhita júnímánaðar í neðri hluta veðrahvolfs. Þó ekki sé rétt að kvarta mikið yfir þessu langar flesta í eitthvað hlýrra - en það er vart í sjónmáli. Lítum á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á laugardag.

w-blogg140613a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar að vanda, merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar) og þykktin er sýnd með litaflötum. Því hærri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Ísland er rétt neðan við miðja mynd og má sjá lítinn gulan blett við Vesturland. Í blettinum er þykktin meiri en 5460 metrar. Meðalþykkt í júní er 5420 metrar þannig að kortið sýnir hita yfir meðallagi fyrir vestan landið en nærri honum austar.

Kuldapollurinn mikli yfir Norðuríshafi er enn býsna ískyggilegur þótt hann hafi aðeins mildast síðan við sáum hann síðast hér á hungurdiskum fyrir sex dögum. Hæðarhryggurinn sem þá var yfir okkur hefur veikst og kalda lægðin sem var fyrir sunnan land er nú komin austur til Bretlands. Við erum nærri því að vera inni í hringrásinni utan um kuldapollinn stóra - óþægilega nærri.

En séu framtíðarspár réttar mun lega okkar í hringrásinni lítið breytast næstu vikuna. Stóri kuldapollurinn á að stökkva í átt til Kanada eftir helgina og Labradorpollurinn á að fara til austurs fyrir sunnan land. Ef svona fer breytist hitafar lítið hjá okkur. Ekki má þó gleyma mætti sólarinnar á daginn þar sem hún nær að skína - en í þetta svölu lofti er alltaf mjög stutt í síðdegisskúrirnar.

Ameríska spáin er þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) enn svartsýnni, sendir Labradorpollinn nánast yfir okkur með hryssingi að vestan - og veðurblíða þá víðs fjarri.

Hvenær síðan tekst að ná í hlýrra loft að sunnan eða niðurstreymi að ofan er ekki vitað - en staðan á kortinu er ekki sérlega vænleg. Okkar megin á því nær græni liturinn alveg suður á 50. breiddargráðu, en handan norðurskauts ekki nema suður að þeirri sjötugustu - að slepptum kröppum kuldapolli við Aljúteyjar. Heildarfyrirferð grænu og bláu litanna og þar með svala loftsins minnkar mjög hægt (en gerir það samt í nærri tvo mánuði til viðbótar). Allt sem stuggar við því á einum stað verður til þess að það breiðir úr sér annars staðar.


Bloggfærslur 14. júní 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 49
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 1790
  • Frá upphafi: 2466911

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 1641
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband