Tólfhundruð útsynningsdagar (eða tæplega það)

Útsynningur - hvað er það? Hreinasta merkingin er suðvestanátt - eða frekar vindur úr öllum geiranum milli suðurs og vesturs. En þeir sem fylgjast grannt með veðri finnst þessi skilgreining of víð. Í þrengri skilningi er loft óstöðugt í útsynningi og einkennist af skúrum eða éljum, helst miklum - og með uppstyttum á milli. Suðvestanátt með súld eða suddarigningu er ekki með í menginu og ekki heldur alveg þurr suðvestanátt.

Á vetrum er útsynningur mjög hvass og sérlega hvass í éljunum. Þegar hann er öflugastur vilja él og skafbylur renna út í eitt og jafnvel gengur á með þrumum og eldingum.

Það einkennir útsynninginn að þegar hann mætir á svæðið er hann auðþekktur. Hins vegar er ekki jafnauðvelt að draga útsynningsdaga aftur í tímann út úr veðurathuganasafni á eingildan hátt. Ef veiðarfærin eru mjög nákvæm veiða þau harla fáa daga - en ef slakað er á verða dagarnir of margir. Sömuleiðis stendur útsynningur stundum aðeins hluta úr degi.

Íbúar á Norður- og Austurlandi kannast auðvitað síður við þetta veðurlag - þar er útsynningurinn oftast bjartur og klár - aftur á móti stundum vindasamur- og Öxnadalsheiðinni og fleiri fjallvegum er lítt treystandi í hvössumútsynningi.

Hér byrjar nördakafli sem stendur út pistilinn - og flestir hætta að lesa.

Í dag veiðum við úr amerísku endurgreiningunni og togum yfir allt tímabilið frá 1871 til 2012. Veiðarfærinu er beint að vindum í 500 hPa-fletinum og notuð svokölluð þriðjungagreining. Lesendur þurfa ekki að grufla í því í smáatriðum hvað það er. Gerð er krafa um að flöturinn standi frekar lágt (tæknilega í neðsta þriðjungi) en vindur sé sterkur bæði af suðri og vestri (efri þriðjungar hvors um sig). Nokkuð tillit er tekið til árstíðasveiflu vinds og hæðar.

Sterk suðvestanátt með lágum 500 hPa-fleti er uppskrift að útsynningi. Við viljum frekar lágan flöt en háan vegna þess að loft er langoftast stöðugt standi 500 hPa-flöturinn hátt. Með því að flokka þrjú atriði í þriðjunga falla allir dagar því í einn 27 veðurflokka (3x3x3). Útsynningsflokkur okkar er aðeins einn af þessum 27 og skilar 1187 dögum á tímabilinu (smásvindl er í gangi varðandi sumarið).

Þetta eru strangar kröfur - útsynningsdagarnir eru mun fleiri, því útsynningsflokkarnir eru trúlega að minnsta kosti þrír til viðbótar. En veðurnördum til ánægju er í viðhenginu listi yfir dagana 1187 og geta þeir rifjað upp minningar frá þessum dögum. Í safninu eru fáeinir dagar undir fölsku flaggi - ástandið afbrigðilegt á einhvern hátt.

Hér að neðan er hins vegar mynd sem sýnir hvernig dagarnir falla á ár.

w-blogg220313

Lóðrétti ásinn sýnir fjölda daga á ári, en sá lárétti árin frá 1873. Gildi hvers árs um sig er markað með grárri súlu, en rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal. Árið 2010 er eina árið sem nær engum útsynningsdegi, en 2011 eru þeir hins vegar flestir (20). Árin í kringum 1990 eru flest mjög útsynningsgæf með að meðaltali 10 til 13 daga á ári. Hafísárin fyrir 1970 koma fram sem lágmark með um 6 útsynningsdaga á ári að meðaltali. Almenn útsynningsfátækt 19. aldaráranna er trúlega vanmat endurgreiningarinnar.

Janúar og febrúar 2013 skiluðu ekki útsynningsdegi í safnið. Hann var einn í nóvember 2012, sá 15.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 22. mars 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 107
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 2116
  • Frá upphafi: 2466805

Annað

  • Innlit í dag: 102
  • Innlit sl. viku: 1961
  • Gestir í dag: 98
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband