Hægur niðri - á fullu uppi

Spákort hirlam-líkansins um sjávarmálsþrýsting, hita í 850 hPa og úrkomu sýnir hægan vind á föstudag (22. nóvember).

w-blogg221113a 

Langt er á milli jafnþrýstilína við Ísland. Lægðin sem er nýfarin yfir Grænland er komin langleiðina til Svalbarða og er býsna djúp, 962 hPa í miðju. Hæðin fyrir sunnan land er 1028 hPa. Munurinn á milli þrýstikerfanna er því 66 hPa - en hans gætir ekki á Íslandi einmitt þegar kortið gildir. Við gætum þakkað skjóli af Grænlandi fyrir greiðann í þetta sinn.

En á kortinu eru einnig jafnhitalínur í 850 hPa. Þær eru strikaðar á fimm stiga bili. Frostmarkslínan er höfð fjólublá á þessu korti, en sé hiti yfir frostmarki eru línurnar hafðar rauðar, en bláar sé hiti undir því. Á kortum sem sýna hita í 850 hPa er -5 stiga línan oft aðgreind frá hinum með lit eða öðrum hætti. Hún er oft notuð til að giska á hvort úrkoma hér á landi fellur sem snjór eða regn á láglendi. Ágæt þumalfingursregla fyrir þá sem reyna að túlka veðurkort á eigin spýtur.

Á kortinu liggur -5 stiga línan um landið sunnanvert, en -15 stig snerta norðausturhornið. Þetta er töluverður hitamunur - eða hitabratti eins og ritstjórinn kýs af sérvisku sinni að kalla það sem flestir kalla hitastigul. Það er til samræmis við þrýstibratta, hæðarbratta og þykktarbratta. Hitastigul notar hann hins vegar frekar þegar fjallað er hitamun lóðrétt í lofti, sjó eða jörð. Algengt er líka að nota hitafallanda - sérstaklega þegar farið er upp á við í lofthjúpnum.

En hvað um það, meir en 10 stigum munar á hita á landinu í stefnuna norður/suður. Það sést ekki af þessu korti einu og sér að hitabrattinn er hér að eyða áhrifum mikils vestanvindstrengs í háloftunum. Nú kemur að einu ef og síðan öðru: Ef hitabratti þessi næði upp í gegnum veðrahvolfið og ef enginn vindur væri í háloftunum myndi hann búa til hið versta veður - austnorðaustan storm eða rok á landinu. En - það er hægviðri.

Nú vitum við (með því að skoða fleiri kort) að hitabrattinn nær upp í gegnum veðrahvolfið - en þar er mikill vestanstrengur - austnorðaustanveðrið sem hitabrattinn er að reyna að búa til gengur upp á móti vestanstrengnum - úr verður hægviðri. Nú hafa flestir týnt þræði - og verður að hafa það. En við lítum á kort sem sýnir vestanstrenginn í 300 hPa (nærri veðrahvörfum).

w-blogg221113b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Hæðin fyrir sunnan land sýnir 9290 metra (rúma 9 km). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og lit - þar sem hann er mestur. Blái liturinn úti af Vestfjörðum táknar vind á bilinu 50 til 60 m/s. Hitabratti í neðri hluta veðrahvolfs sér til að hans gætir ekki við jörð. En hvaða bratti býr þá til vindstrenginn? Það er bratti veðrahvarfanna sjálfra og hitafar sem þeim bratta fylgir.

Hæðin fyrir sunnan land hefur tvær ámóta lægðir á hvora hönd. Þessi uppstilling er oft kölluð ómegafyrirstaða. Tölvuspárnar draga þó í efa að um raunverulega fyrirstöðu sé að ræða - heldur bara eitthvað sem virðist vera það. Alla vega á fyrirstaðan ekki að halda.


Bloggfærslur 22. nóvember 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 140
  • Sl. viku: 1214
  • Frá upphafi: 2486123

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1072
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband