Af suðurhveli snemma í október

Við skulum nú líta á veðurkort sem sýnir ástandið á suðurhveli jarðar um þessar mundir - á sama spátíma og norðurhvelskortið sem við litum á í síðasta pistli, mánudaginn 7. október kl.18. Spáin er úr bandaríska gfs-líkaninu.

Byrjun október á suðurhveli samsvarar nokkurn veginn aprílbyrjun hér á norðurslóðum. Vetur er enn í fullum gangi en úr þessu fer að vora.

w-blogg071013a

Lítið s er sett við suðurskautið. Syðstu angar meginlanda eru merktir á kortið. Lengdarbaugurinn 20°V er einnig merktur - sé þar haldið beint til norðurs lendum við um síðir á Íslandi. Hvíta stjarnan (sést betur sé kortið stækkað) er sett á 20. lengdarbauginn nærri 65°S (Ísland er á 65°N - hrikalega norðarlega).

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, jafnhæðarlínur eru heildregnar og þykktin er táknuð með litum, rétt eins og á norðurhvelskortunum sem við höfum oft fjallað um. Heimskautaröstin syðri ólmast í kringum kalda svæðið og ber lægðir og skilakerfi í endalausri röð til austurs. Bláa svæðið (5280 metra þykkt) nær hvergi til meginlandanna. Fjólubláa svæðið er í þessu tilviki einskorðað við hálendi Suðurskautslandsins og gæti tilvera þess verið sérvisku gfs-líkansins að kenna (ritstjórinn er þó ekki viss).

Við norðanmenn eigum erfitt með suðurhvelskort. Það stafar aðallega af því að á þeim er lægri þrýstingur til hægri við vindstefnu en ekki til vinstri við hana eins og á norðurhveli. Svigkraftur jarðar leitast við að snúa hreyfingu til vinstri syðra - en til hægri á okkar slóðum. Þetta gerir öll veðurkort heldur framandi í okkar augum.

Þetta stafar af því að vestanáttin - bæði á suður- og norðurhveli er í stefnu snúnings jarðar. - Ef við gætum horft á suðurhvelskortið frá sama stað og við venjulega horfum á norðurhvelið - en „niður“ í gegnum jörðina kæmi í ljós að vindur snýst í kringum lægðir suðurhvels rétt eins og hjá okkur - með lægri þrýsting á vinstri hlið.

En að horfa á suðurhvelið innanfrá gerir auðvitað enginn - við horfum „niður“ á suðurskautið á kortinu að ofan. Flest veðurkort af suðurhveli sýna bara hluta hringsins. Til að ná áttum verðum við fyrst að snúa þeim á haus (þannig að stefna til miðbaugs verði niður) og síðan standa með þau fyrir framan spegil til að rétta vestur og austur aftur af. Þá fellur allt í kunnuglegan farveg - lægðir og skilakerfi taka á sig norrænan svip.

En til þess að njóta korts eins og þess að ofan til fulls þarf að horfa á mörg - og á öllum árstímum. Lesendur þurfa ekki að óttast það að ferðir til suðurhvels reglubundin á þessum vettvangi. - En hollt er að horfa á eitt þeirra.


Bloggfærslur 7. október 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 121
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 1329
  • Frá upphafi: 2486238

Annað

  • Innlit í dag: 102
  • Innlit sl. viku: 1168
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband