Af tveimur stöðvakerfum

Nú fer mönnuðum veðurstöðvum ört fækkandi. Þetta er þróun sem á sér stað um allan heim. Sjálfvirkar athuganir taka við. Ástæður þessara breytinga eru bæði faglegar og fjárhagslegar. Sjálfvirkar stöðvar eru talsvert ódýrari í rekstri heldur en þær mönnuðu. 

Sjálfvirk stöð tekur ekkert meira fyrir athuganir á nóttu heldur en á dagvinnutíma. Sömuleiðis munar litlu hvort gerð er ein athugun á dag eða 144 eins og nú er algengast. Sumt mæla sjálfvirku stöðvarnar betur en þær mönnuðu, t.d. eru vindmælingar betri, loftþrýstimælingar eru líka betri. Miklu meiri upplýsingar en áður fást út úr hitamælingum.

Úrkomumælingar eru að sumu leyti betri - þær eru alla vega mun ítarlegri. Hins vegar munar talsverðu á sjónrænum athugunum - en skyggnis- og skýjamælingar sjálfvirkra stöðva eru batnandi og einnig gengur þeim betur og betur að greina úrkomutegund. Tækin til að mæla þessa veðurþætti eru þó enn mjög dýr og blönk þjóð hefur víst að öðru að hyggja. Snjóhulu- og snjódýptarathuganir eru mögulegar sjálfvirkt - en talsvert vantar upp á að hægt sé að reiða sig á þær eingöngu.

En breytingarnar eru samt ekki auðveldar, sérstaklega þegar fjárhagsleg sjónarmið ráða miklu. Að skeyta saman mæliraðir stöðva beggja gerða á sama stað er aldrei hægt að gera umhugsunarlaust. Æskilegt er að samanburður fari fram. Sömuleiðis verður að hafa gát þegar meðaltöl/mælingar kerfanna tveggja eru borin saman.

Samanburðarmælingar hafa verið í gangi í um 15 ár og samtenging bæði landshita- og loftþrýstiraða nú möguleg. Vindathuganir beggja kerfa er sömuleiðis hægt að tengja saman á áreiðanlegri hátt heldur en hægt er að meta samfellu gamalla vindathugana við þær yngri. Einstakar stöðvar eru hins vegar erfiðari varðandi vindinn.

Við skulum til gamans bera eitt atriði hitamælinga kerfanna saman. Taka verður fram að myndin segir ekkert um veðurfarsbreytingar. Eins og í tveimur fyrri pistlum eru gögnin sett fram sem 365 daga meðaltöl. Það er einungis gert fyrir sérvisku ritstjórans en ekki er um einhverja bókhaldsreglu að ræða.

Athugað var hver lægsti og hæsti hiti landsins var á hverjum degi. Byrjað var 1. janúar 1995 en endað 30. júní í sumar (2013). Síðan var reiknað 365 daga meðaltal landsútgildanna hvors um sig og munur raðanna tveggja reiknaður og mynd teiknuð. Mönnuðum og sjálfvirkum stöðvum var haldið aðskildum og því eru tveir ferlar á myndinni. Rétt er að taka fram að aðeins er miðað við stöðvar í byggð.

w-blogg041013

Lárétti ásinn sýnir tíma. Fyrstu gildi eiga við 31. desember 1995 en það síðasta nær til 1. júlí 2012 til 30. júní 2013. Lóðrétti ásinn sýnir mun á hæsta hámarki og lægsta lágmarki í þeim sérstaka skilningi sem greint var frá að ofan. Við köllum þetta hitaspönn til hægðarauka.

Blái ferillinn á við sjálfvirku stöðvarnar en sá rauði við þær mönnuðu. Hitaspönnin er lengst af á milli 15 og 18 stig (ársmeðaltal).

Það sem vekur athygli er að spönnin á sjálfvirku stöðvunum hefur sífellt aukist en minnkað á þeim mönnuðu. Skýringin á þessari mismunandi hegðan liggur í stöðvakerfunum. Fyrstu tvö árin voru sjálfvirku stöðvarnar mun færri heldur en þær mönnuðu. Meðan á því stóð var líklegast að bæði hámarks- og lágmarkshiti dagsins væri mældur á mannaðri stöð.

Síðan fjölgar sjálfvirku stöðvunum mjög og árið 1998 er svo komið að landsspönnin er mjög svipuð í hvoru kerfi fyrir sig. Það ástand helst út árið 2003 - en þá byrjar mönnuðu stöðvunum að fækka svo um munar og hefur fækkunin haldið áfram síðan. Sjálfvirku stöðvunum fjölgaði fram til 2007 en þá dró mjög úr fjölgun.

Frá 2004 er líklegast að hæsti og lægsti hiti landsins mælist á sjálfvirkri stöð. Auðvitað kemur fyrir að mönnuðu stöðvarnar ná hærri eða lægri tölu - en þeim tilvikum fækkar sífellt.

Næsta öruggt má telja að spannarleitni á mönnuðum stöðvum stafi nánast öll af grisjun kerfisins. Hins vegar er ástæða vaxtar spannar sjálfvirku stöðvanna frá og með 2007 meira álitamál. Þeir sem vilja geta séð raunverulega aukningu - en aðrir sjá aðeins sveiflur í kringum gildið 17,5 stig.

En er einhver leitni í hámarks- og lágmarksröðunum fjórum, hverri fyrir sig? Við látum þá ormagryfju eiga sig að sinni.


Bloggfærslur 4. október 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 119
  • Sl. sólarhring: 171
  • Sl. viku: 1327
  • Frá upphafi: 2486236

Annað

  • Innlit í dag: 100
  • Innlit sl. viku: 1166
  • Gestir í dag: 87
  • IP-tölur í dag: 86

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband