Suðaustanáttin hvassa

Kortarýnin heldur áfram - erfið fyrir flesta. Í dag er fjallað um tvö 500 hPa hæðar- og þykktarkort af N-Atlantshafi. Það fyrra sýnir ástandið eins og evrópureiknimiðstöðin segir það verða á hádegi á fimmtudag.

w-blogg170113b

Eins og venjulega sýna heildregnu línurnar hæð 500 hPa flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina, líka í dekametrum. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 5400 metra jafnþykktarlínan sem er rétt sunnan við landið á norðurleið. Þetta eru mikil vetrarhlýindi. Iðan er sýnt í bleikgráu - en við látum hana ekki trufla okkur að sinni.

Vestast á kortinu (lengst til vinstri) er miðja kuldapollsins sem við köllum Stóra-Bola. Lægðin er býsna djúp, í miðju hennar eru aðeins 4670 metrar upp í 500 hPa flötinn. Mesti kuldinn (minnsta þykktin) er þar í grennd, um 4720 metrar. Vetrarlágmarkið gæti orðið lægra en það er þó ekki víst. 

Næsta mynd sýnir hins vegar spá um samspil hæðar- og þykktarflata 18 klukkustundum síðar, klukkan 6 á föstudegi (18. janúar).

w-blogg170113a

Illviðri má flokka eftir samspili þykktar- og hæðarflata. Þetta er gott dæmi um illviðri undir litlum þykktarbratta. Hér nær 5400 metra jafnþykktarlínan í hring - hún myndar hlýjan hól. Í hólnum er þkktin 5450 metrar þar sem mest er. Hlýir hólar eru mjög algengir - en í þeim er vindur oftast hægur. Hér fara hins vegar saman þéttar jafnhæðarlínur og flöt þykkt. Hvað táknar það?

Við sjáum það á síðasta kortinu, en það sýnir hæð 925 hPa-flatarins (hér í um 500 m hæð) auk vinds og hita í fletinum.

Nú - hér fylltist myndakrókur hungurdiska og skrifum því sjálfhætt. Fylgist með spám Veðurstofunnar.

 


Bloggfærslur 17. janúar 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 35
  • Sl. sólarhring: 457
  • Sl. viku: 2044
  • Frá upphafi: 2466733

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1891
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband