Eftir helgina?

Eftir að stutt háloftabylgja (lægð föstudags og laugardags) hefur gengið yfir tekur mikill hæðarhryggur völdin. Honum fylgja mikil háloftahlýindi sem við fáum e.t.v. að njóta góðs af. Meta er þó vart að vænta - fyrir utan dægurmetahrinu á nýlegum veðurstöðvum. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir um hádegi á sunnudag (9. desember).

w-blogg071212

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, lituð svæði sýna hita í 500 hPa-fletinum (kvarðinn til hægri skýrist mjög við stækkun). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Meðalhiti í 500 hPa-fletinum yfir Keflavíkurflugvelli fyrsta þriðjung desembermánaðar er um -29°C. Á myndinni eru mörkin á milli grænleita svæðisins og þeirra bláu sett við -28°C. Evrópureiknimiðstöðin spáir því að hiti fari upp í um -22°C á þriðjudag - miðvikudag, sjö stig ofan við meðallag. Hæsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í desember er -15 stig, talsvert hærri heldur en nú er spáð.

Nú er spurningin hvort hæðarhryggurinn og hlýja aðstreymið verða nægilega öflug til að fyrirstöðuhæð myndist í námunda við landið. Slíkt ætti að tryggja hæglætisveður í nokkra daga hér á landi.

Fyrirstaða við Ísland er ekki vinsamleg meginlandi Evrópu - þar liggur þá venjulega pollur af köldu eða mjög köldu lofti þar sem skiptast á kuldaköst norðan úr höfum og önnur jafnvel verri ættuð frá Síberíu. Kalt er þá í illa upphituðum húsum, færð slæm á vegum í slyddu, snjókomu eða frostrigningu - og tafir á flugi í snjókomunni.

Annars getur frostrigning verið til leiðinda hér á landi í hlýjum fyrirstöðum að vetrarlagi, sérstaklega ef skiptast á heiðir og skýjaðir dagar. Yfirborð landsins kólnar óðfluga í heiðríkju og ef vindur er lítill blandast loft illa. Þegar ský dregur að í hægri hafátt getur verið frostlaust í nokkur hundruð metra hæð og súldað niður í grunna landátt með frosti. 

En spenna heldur áfram.  


Bloggfærslur 7. desember 2012

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 91
  • Sl. sólarhring: 311
  • Sl. viku: 2100
  • Frá upphafi: 2466789

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 1945
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband