Sama áfram?

Miklir umhleypingar hafa verið ríkjandi í vetur og ekki er tilefni til að ætla að þeim sé lokið. Eftir 2 til 3 daga hlé heldur lægðaumferðin áfram. Það verður þó að segjast eins og er að þessi leiðindatíð hefur þrátt fyrir allt ekki reynst sérlega illkynjuð. En ekki er allt búið - langt er enn til sumars.  

En gangurinn er býsna mikill, lægðir bæði djúpar og tíðar. Reiknimiðstöðvar eru í stórum dráttum sammála um tvær þær næstu. Þær eiga að plaga okkur á miðvikudag og síðan á föstudag eða laugardag. 

Við lítum hins vegar á meðalspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga, spáin nær frá hádegi þess 1. og til hádegis 10. mars. 

w-blogg020315a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en jafnþykktarlínur eru strikaðar. Litirnir sýna þykktarvikin og þar með vik hita í neðri hluta veðrahvolfs frá meðaltalinu 1981 til 2010. 

Gríðarlega mikil neikvæð vik sitja yfir Labrador og teygja sig þaðan til austurs langt út á Atlantshaf og ná reyndar alveg til okkar. Vikið yfir Íslandi er í kringum -50 metrar. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs verður um -2,5 stigum undir meðallagi þessa tíu daga. Það er þó þannig að vegna uppruna loftsins - það er orðið mjög óstöðugt þegar til Íslands er komið - er líklegt að vikin í neðstu lögum verði ívið minni en þetta - en hiti samt lítillega undir meðallagi tímabilið í heild.

Það munu skiptast á snögg landsynningsveður - oftast með rigningu og skammvinnum hlýindum og svo útsynningur - býsna harður suma dagana með snjógangi og almennum leiðindum. Svo gætu fáeinir hægir norðanáttardagar skotist inn á milli. 

Sem sagt - sama áfram. 


Vetrarhitinn - til þessa

Alþjóðaveðurfræðistofnunin skilgreinir veturinn sem þrjá mánuði, desember, janúar og febrúar. Hér á landi eru vetrarmánuðirnir fjórir, ekki nokkur leið að telja marsmánuð til vorsins. Það er þó fróðlegt að líta á hver meðalhiti „alþjóðavetrarins“ er (strangt tekið „alþjóðanorðurhvelsvetrarins“) hér á landi. Það hafa hungurdiskar gert áður á sama tíma árs.

Nú er febrúar liðinn og (bráðabirgða-)tölur liggja á borðinu. Ritstjóri hungurdiska reiknar landsmeðalhita í byggð mánaðarlega sér til hugarhægðar - en ekki er víst að aðrir sem reikna fái sömu útkomu - sömuleiðis er ekki víst að nákvæmlega sama aðferð verði notuð að ári. 

Útkoman í ár er -0,9 stig. Þetta er lægsta tala síðan (alþjóða-)veturinn 1999 til 2000, en þá var meðalhitinn -1,1 stig. Það munar reyndar litlu á hitanum nú og 2002, 2004 og 2005. 

Myndin hér að neðan sýnir landsmeðalhita alþjóðavetrarins á landinu aftur á 19. öld.

w-blogg010315-althjodavetur

Lárétti ásinn sýnir árin, en sá lóðrétti hita. Takið eftir því að lárétti ásinn er slitinn í sundur á milli -6 og -8 stiga til þess að koma vetrinum 1880 til 1881 inn á blaðið. Kaldasti mánuður þess vetrar var reyndar mars - og dró hann meðaltalið enn neðar. Frostaveturinn 1917 til 1918 teygir sig niður undir slitið á kvarðanum. 

Súlurnar sýna hita einstakra vetra, en rauða línan sýnir 10 ára keðjumeðaltal. Örin bendir á 2015, töluvert kaldari en í fyrra og mun kaldari en 2013. Meðalhitinn nú er +0,3 stigum yfir meðallaginu 1961 til 1990, -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára og -0,1 stigi undir meðallaginu 1931 til 1960. 

Litla línuritið til hægri á myndinni sýnir 10-ára keðjumeðaltalið eitt og sér - á því kemur vel fram hvað mikið hefur hlýnað á tímabilinu. 

Á hlýskeiðinu 1925 til 1965 komu 15 (alþjóða-)vetur þar sem meðalhitinn var undir -1,0 stigi. Slíkur hefur ekki enn komið á nýju öldinni - kemur samt einhvern tíma á næstu árum - annars er illt í efni. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2015
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 94
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 1890
  • Frá upphafi: 2484770

Annað

  • Innlit í dag: 84
  • Innlit sl. viku: 1697
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband