Allstríður á vestan

Í dag, 8.október er vindur á landinu allstríður á vestan. Lægð er að dýpka við landið og hreyfist hratt til austurs. Við erum nánast beint undir mikilli vindröst í háloftunum og teygist hes hennar í átt til jarðar. 

w-blogg081025a

Kortið gildir kl.18 núna síðdegis og sýnir stöðuna í 500 hPa, jafnhæðarlínur eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Með ákveðnum rétti má segja að Grænland hafi búið til lægðina sem er við Norðurland. Kalt loft kom yfir jökulinn úr vestri og austan hans kom sveigja á röstina. Við sjáum leifar kalda loftsins sem bláan blett nærri lægðarmiðjunni. Uppi í 300 hPa (um 9 km hæð) er hins vegar ámóta hlýr blettur, afleiðing niðurdráttar veðrahvarfanna. Ef við rýnum í kortið getum við séð að yfir landinu er hæðarbratti frá norðri til suðurs um 120 metrar (tvær jafnhæðarlínur). Hins vegar er sáralítill munur á þykktinni þvert yfir landið, blái bletturinn nær þvert yfir landið. Þess vegna er ekki mjög mikill munur á vindi í 5 km hæð og í fjallahæð yfir landinu. Enn neðar kemur núningur við sögu og deyfir vindinn, mun meira yfir landi heldur en sjó..

Það er lærdómsríkt að líta einnig á spákort sem gildir undir morgun á föstudaginn.

w-blogg081025b

Hér er háloftavindurinn enn meiri, hæðarmunur á milli norður- og suðurstrandar landsins er um 200 metrar, vindur í 500 hPa um 50 m/s. Þykktarbrattinn er einnig mikill, ólíkt því sem er í dag, það munar um 180 metrum á þykktinni nyrst og syðst á landinu. Þetta þýðir að ekki eru eftir nema um 20 metrar til að knýja vindinn niður undir jörð, hann er jafnvel innan við 10 m/s. Við skulum þó taka vel eftir því að jafnþykktarlínurnar þurfa mjög lítið að hnikast til til þess að rastarhesið nái niður undir mannheima, við skulum þó trúa því (í bili að minnsta kosti) að líkanið reikni þetta rétt. Svo verður að hafa í huga að fjöllin á landinu geta vakið bylgjur sem geta dregið vind niður, t.d. nærri fjöllum á Norðaustur- og Austurlandi. 

Í framhaldinu er síðan gert ráð fyrir því að vindur snúist til suðlægra átta með hlýindum.  


Smávegis af september 2025

Eins og fram hefur komið í yfirliti Veðurstofunnar var nýliðinn september fremur hlýr á landinu. Ekki var þó alveg jafnhlýtt og í mánuðunum tveimur á undan. En vel fór með veður. Þótt vindhraði fyrir mánuðinn í heild væri ekki langt frá meðallagi var illviðratíðni talsvert undir því. Illviðravísir ritstjóra hungurdiska sá lægsti í september frá 2019 og meðal þeirra lægstu á öldinni.

w-blogg061025a


Taflan hér að ofan sýnir hvernig hiti mánaðarins á spásvæðunum raðast meðal septembermánaða þeirra 25 ára sem liðin eru af þessari öld. Að tiltölu var hlýjast um landið austanvert, september þar sá fimmtihlýjasti á öldinni. Svalast að tiltölu var við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Hitinn þar samt vel ofan meðallags.

w-blogg061025b 

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Gríðarleg hlýindi voru í Skandinavíu norðanverðri, víða þar hlýjasti september allra tíma. Fyrir sunnan land virðist hins vegar hafa verið til þess að gera svalt. Ísland á mótum þessara tveggja svæða, en þó eindregið á hlýrri hliðinni. Jafnhæðarlínurnar á kortinu segja okkur að áttin hafi verið suðlæg, en einnig á hún vægan austanþátt. Það er sjaldan að háloftavindar septembermánaðar alls teljist austlægir. Það hefur aðeins gerst fjórum sinnum áður frá því að áreiðanlegar háloftaathuganir hófust árið 1949 og var austanáttin nú reyndar sjónarmun meiri en í þessum fyrri tilvikum - þó ekki marktækt. Hinir mánuðirnir fjórir eru 2017, 2011, 1992 og 1968. Fyrstnefndi mánuðurinn 2017 var eftirminnilegur fyrir úrkomu og flóð á Suðaustur- og Austurlandi, en annars var óvenjuhlýtt. Í september 2011 var einnig óvenjuúrkomusamt suðaustanlands, en í september 1992 var úrkoman mest norðaustanlands, Þá var ekki hlýtt. Elstu veðurnörd muna auðvitað september 1968, en þá var sérlega hagstæð tíð suðvestan- og vestalands, en síðri eystra.

Við þökkum BP fyrir kortagerðina að vanda.


Á miðvikudaginn

Við lítum, til gamans og fræðslu, á spákort sem gildir um hádegi á miðvikudaginn kemur, 8.október. Þetta er að vísu svo langt úti í framtíðinni að lítið vit er í því að fjalla um eiginlega veðurspá þess dags. Þó má segja að spár gera ráð fyrir því að allmikill vestanstrengur gangi yfir landið. Strengurinn á uppruna sinn í háloftunum. Dálítil kryppa á heimskautaröstinni sveigir til norðurs og yfir Suður-Grænland og þaðan austur til Íslands - og áfram.

Við að fara yfir Grænland verða til miklar flotbylgjur austan jökulsins, langt, langt upp fyrir hann. Þessar bylgjur ná að hrista veðrahvörfin svo að brot koma í þau. Raunar er nánast útilokað að reikna þessi brot nákvæmlega hvert fyrir sig, en það kemur hins vegar mjög vel fram í spám að um brotaástand er að ræða. 

w-blogg041025a

Kortið sýnir mættishita í Veðrahvörfunum. Mættishita gætum við líka kallað þrýstileiðréttan hita - því þetta er sá hiti sem væri í lofti væri það allt fært niður (eða upp) til 1000 hPa-þrýstings. Mættishiti rís (nær) allaf með hæð. Veðrahvörfin þekkjast á því að þar fer mættishitinn að stíga mun hraðar heldur en neðar (hiti hættir að falla með hæð). Það er þannig hægt að „finna“ veðrahvörfin með því að leita að þeirri hæð þar sem þessi breyting á hegðan mættishitans með hæð á sér stað. 

Litirnir á myndinni sýna mættishitann. Kann er mældur í Kelvinstigum (fyrst og fremst til að koma í veg fyrir rugling við hinn hefðbundna hita sem við mælum með hitamælum). Mjög háar tölur segja frá mjög háum veðrahvörfum - þau eru gul og brúnlituð á kortinu. Þar er loft mjög hlýtt og fyrirferðarmikið, veðrahvörfin eru hærri heldur en á blálituðu svæðunum þar sem veðrahvörfin eru miklu neðar. Þar sem snögg litaskil eru á kortinu er víðast hvar mikill vindur, veðrahvörfin eru brött. Kryppa rastarinnar sem minnst var á að ofan sést vel á kortinu. Sveigja liggur frá Labrador til norðausturs og síðan hvelfist hún austur um Grænland. Yfir Íslandi er svæði með lágum veðrahvörfum (blár litur), en stutt er í mun hærri veðrahvörf fyrir suðvestan land. Kröpp lægð er á hraðri ferð austur yfir landið. 

Bylgjubrotið, sem er ástæða þessara skrifa, kemur fram sem óreglulegir blettir milli Íslands og Grænlands. Þar bregst reiknireglan sem reynir að leita veðrahvörfin uppi - þau finnast ekki - leyst er úr því með því að setja einhverjar fastar ágiskanir inn. Þetta hefur þrátt fyrir allt þann kost að við sjáum þetta ólrólega svæði mjög vel. 

Eins og áður sagði er fullsnemmt að velta vöngum yfir veðrinu á landinu þennan dag, en spáð er nokkuð hvössum vindi af vestri. Við tökum þráðinn e.t.v. upp þegar nær dregur - ef tilefni gefst til. 


Haustórói í veðrakerfinu

Haustórói er í veðrakerfinu þessa dagana. Þótt vestanvindabeltið hafi farið létt með að „strauja“ tvo fellibylji úr suðurhöfum gefa leifar þeirra samt verulega orku norður um allt Norður-Atlantshaf. Mesta furða hvað reiknimiðstöðvum virðist hafa gengið vel að ráða við ástandið. Fellibyljirnir tveir, Humberto og Imelda, mynduðust óvenjunærri hvor öðrum jafnvel var útlit fyrir að þeir sameinuðust á einhvern veg í svokölluðum Fujiwhara-dansi, en eftir fáein dansspor gekk vestanvindurinn inn á gólfið og byljirnir fóru úr skorðum. Leifarnar hafa þó náð að mynda tvær lægðir.

Sú nyrðri er þessa stundina í óðadýpkun langt vestsuðvestur af Írlandi, var um hádegi um 993 hPa í miðju, en á að fara niður í 950 á morgun, og síðan jafnvel enn neðar aðfaranótt laugardags. Braut lægðarinnar liggur nærri norðvesturströnd Skotlands og hefur breska veðurstofan gefið út appelsínuviðvörun fyrir það svæði, býst við hinu versta. 

w-blogg021025a

Kortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna snemma á laugardagsmorgun (4.október). Þá á lægðin að verða hvað dýpst. Eins og við sjáum hefur hún áhrif á stóru svæði. Hér á landi hvessir nokkuð af norðri og gæti náð stormstyrk við Austfirði um tíma. Norðmenn búast líka við hinu versta og ritstjóranum sýnist að norska veðurstofan hafi flaggað rauðu á spásvæði allra syðst í landinu. Síðan segja spár að lægðin fari til suðausturs rétt við strönd Noregs, þá kemur væntanlega að dönum og hollendingum að taka fram litaspjöldin. Ritstjórinn hefur ekki enn séð flóðaviðvaranir á þeim slóðum, en þeim möguleika er ábyggilega velt upp. Má margfaldlega þakka fyrir það aukna öryggi sem sífellt batnandi spár hafa haft í för með sér. Á uppeldisárum ritstjórans í spánum hefði þessi staða auðveldlega getað breyst í martröð. 

Leifar fellibylsins Imeldu hafa hér einnig náð að mynda aftur allöfluga lægð - eftir að straujárnið rétti alveg úr honum í dag. Örlög þeirrar lægðar eru nokkuð óljós. Það sjáum við best á því að lægðin beinir mjög hlýju og röku lofti til norðurs (rauða örin á myndinni), en á sama tíma streymir kalt loft úr vestri inn á sama svæði. Þetta er afskaplega eitruð staða. Við verðum að treysta því að reiknimiðstöðvarnar hafi á réttu að standa - en sú er tillaga þeirra að þessir tveir loftstraumar fari nægilega mikið á mis til þess að ekkert mikið verði úr því, en allur er samt varinn góður - segir ritstjórinn. Hann er hins vegar ekki endilega í fullum tengslum við raunveruleika nútímareiknilíkana - alinn upp á rýrara fóðri - þar sem jafnvel skammtímaspár fóru illa úr skorðum. 

Svo virðist sem hlýindi úr vestri eigi að ganga inn á svæðið upp úr helginni og þrýsta að þeim kulda sem haustið er að reyna að búa til yfir norðurslóðum. Langtímaspár (sem eru auðvitað mjög óvissar) reyna að segja okkur af mjög sterkum háloftavindum um miðja vikuna og gangi þeir yfir Ísland. Rétt að fylgjast nánar með því - ef miðstöðvarnar skipta ekki um skoðun. 


Veðurstofusumarið 2025 - í hópi hlýrra sumra

Veðurstofan hefur í hundrað ár skilgreint sumarið sem tímann frá júní til september ár hvert. Sumum finnst fjórir mánuðir of langur tími - alþjóðaveðurfræðistofnunin miðar við þrjá mánuði (júní til ágúst) - en misseristímatalið gamla miðar sem kunnugt er við sex mánuði - frá fyrsta sumardegi að vori - að fyrsta vetrardegi að hausti. Veðurstofan fer bil beggja. Hungurdiskar hafa nú í nokkur ár reynt að reikna meðalhita landsins alls. Aðferðin er að vísu umdeilanleg - og aðrir reiknimeistarar myndu efalítið fá út aðrar tölur.

En ritstjórinn ber sig samt vel - og eins og oftast undanfarin ár lítur hann á þetta meðaltal og setur á mynd.

w-blogg300925a

Meðalhiti veðurstofusumarsins 2025 reiknast 9,9 stig, 1,5 stigi hærra heldur en í fyrra, 2024. Það sumar var hið kaldasta það sem af er öldinni, en sumarið í ár er meðal þeirra 7 hlýjustu á öldinni. Sé litið lengra aftur voru aðeins fjögur sumur á allri 20. öld hlýrri heldur en þetta. Við bíðum þó enn sumars sem slær út 1933 og 1939 þegar litið er til landsins alls. Sumarið 1979 sker sig úr á köldu hliðinni, þá það kaldasta allt frá 1907 að telja. 

En fyrstu níu mánuðir ársins standa sig enn betur heldur en þetta.

w-blogg300925b

Myndin sýnir meðalhita á landsvísu fyrstu 9 mánuði hvers árs. Árið í ár, 2025 er alveg við toppinn, ómarktækur munur á því og fyrstu níu mánuðum áranna 2003 og 2014. Enn sker 1979 sig mjög úr, á köldu hliðinni. Fyrstu níu mánuðir þess árs voru þeir köldustu á landsvísu síðan 1892. Þótt meðalhiti fyrstu 9 mánaða ársins sé góður vísir um ársmeðaltalið er það samt þannig að stundum verða miklar breytingar um þetta leyti árs. Árið 1979 hlýnaði t.d. að mun þannig að þótt árið í heild yrði áfram það kaldasta varð munurinn á því og öðrum árum ekki alveg jafn sláandi og hér er sýnt. Árið 1880 var þessu öfugt farið. Fyrstu 9 mánuðir þess árs voru hlýir, sérstaklega ef miðað er við ástandið almennt á síðari hluta 19. aldar. Þá urðu mikil umskipti til hins verra og við tók mjög kalt haust og einstaklega kaldur vetur. Haustin 1881 og 1882 voru líka nokkuð úr takti við það sem áður hafði verið þau árin - eins og frægt er var október 1882 hlýjasti mánuður ársins í Grímsey (það gerðist líka þar 1915). 

Hvað gerist nú í haust og vetur vitum við ekki - það verður bara að sýna sig. 

Séu myndirnar tvær bornar saman sjáum við að 10-árakeðjurnar fylgjast nokkuð að í lögun. Þar eru flestar sömu dældir og hólar. Helsta undantekningin er sú að á neðri myndinni er hlýskeiðið á tuttugustu öld lengra heldur en á þeirri efri. Sumur kólnuðu fyrr heldur en vetur og vor. 

Reiknuð leitni er minni á efri heldur en neðri mynd. Hún segir ekkert um framtíðina (frekar en venjulega). Veðurstofan birtir fljótlega yfirlit yfir stöðuna á einstökum stöðvum. 


Órói suður í höfum

Eftir sérlega rólegar þrjár vikur á fellibyljaslóðum Atlantshafs hefur dregið til tíðinda. Við lítum á gervihnattamynd sem tekin er nú síðdegis (afrituð af síðu kanadísku veðurstofunnar).

w-blogg240925a

Þetta er lituð hitamynd, yfirborð jarðar og neðstu ský eru grænleit, hæstu ský eru lituð brún, gul og rauð. Þetta litaval sýnir lægðakerfi eins og við búum við ekki sérlega vel, en aftur á móti koma háreist klakkakerfi, hitabeltisstormar, fellibyljir og annar „hvarfbaugshroði“ sérlega vel fram. Við sjáum Ísland alveg efst á myndinni, en neðsti hluti hennar nær allt suður að tíunda breiddarstigi. 

Fyrst bendum við á fellibylinn Gabrielle. Gabrielle varð til úr kerfi af því tagi sem við köllum austanbylgju, bylgjur sem berast vestur á bóginn í hitabeltinu frá Afríku. Sumar bylgjurnar fara tíðindalítið um þvert hafið allt vestur til Mið-Ameríku, en stundum verða á þeim veigamiklar umbreytingar, sérstaklega síðari hluta sumars þegar sjór er hvað hlýjastur á þessum slóðum og áður en kuldahringrás norðurhvels fer að teygja anga sína langt suður í höf. Bylgjan sem var einskonar fósturvísir Gabrielle strögglaði lengi vel og mátti vart sjá hvort einhver hringrás næði að myndast í henni eða ekki. Veikur snúningur fór af stað hvað eftir annað, en lítið varð úr. Bylgjan dó þó ekki og óx loks mjög ásmegin, varð að hitabeltisstormi og síðan fellibyl. Fellibylurinn náði hámarksstyrk um helgina og fór upp undir fjórða stig sem heitir, en var kominn það norðarlega að það gat ekki staðið lengi.

Fellibyljamiðstöðin í Miami segir að nú sé vindhraði í Gabrielle rúmlega 45 m/s (1-mínútu meðaltal) og að um hádegi á morgun verði hann kominn niður í 40 m/s. Fellibyljaaðvörun er í gildi á Asóreyjum, sú fyrsta í nokkur ár. Leifar Gabrielle eiga síðan að fara austur til Portúgal og eyðast þar um helgina. 

Það munaði sáralitlu að Gabrielle næði stefnumóti við bylgju í vestanvindabeltinu og svo virðist af myndinni að kerfið gefi einhvern raka norður í þá bylgju sem kemur fram sem óreglulegt hroðasvæði á myndinni, rétt norðan við fellibylinn. Til morguns á hroðinn að ná betra skipulagi og verða að öflugri lægð sem þá stefnir til norðurs, eiginlega beint til okkar. Vagna hins suðræna uppruna loftsins er sunnanátt lægðarinnar með rakasta móti. 

En lítum fyrst á önnur kerfi í suðurhöfum. Fellibyljamiðstöðin fylgist með austanbylgjum og setur á þær bráðabirgðanöfn megi í þeim sjá hroðakerfi sem möguleg eru talin til að verða að einhverju meira. Við sjáum eitt slíkt kerfi á myndinni, „invest 93L“. Flest virðist benda til þess að þar sé hitabeltisstormur, og jafnvel fellibylur í fæðingu. 

Rétt utan við myndina er annað kerfi, „invest 94L“ sem er ekki alveg jafnlangt gengið með. Það þykir mjög flókið að vera með tvö slík kerfi í nágrenni hvors annars á sama tíma. Gerir spár mjög erfiðar, jafnvel bara sólarhring fram í tímann. Miðnæturrennsli evrópureiknimiðstöðvarinnar býr til fellibylji úr báðum þessum kerfum. Bandaríska veðurstofan lætur fyrra kerfið hins vegar gleypa hitt. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að hafa nokkra skoðun á því hvort gerist - eða þá jafnvel eitthvað annað. En næstu nöfn í nafnaröðinni eru Humberto og Imelda. Líkur eru nokkrar á því að annað hvort kerfið fari norður í höf, en ekkert samkomulag er enn um þau mál.

Lítum að lokum á lægðina sem til okkar kemur, fylgju Gabrielle. Hefðum við fengið til okkar svona lægð fyrir t.d. 100 árum - og hefðum við vitað að fellibylur væri á sveimi rétt áður, hefði verið freistandi að segja að þetta væru leifar fellibyls. Við vitum hins vegar í þessu tilviki að svo er ekki. Eða hvað?

w-blogg240925b

Kortið gildir kl.6 að morgni föstudaga 26.september. Lægðin er þá alldjúp, um 967 hPa í miðju. Henni fylgir þó ekki sérlega mikill vindur, en samt nægilegur til þess að rétt er að fylgjast með vindaspám. Hins vegar sýnir spákortið mjög mikla úrkomu, sérstaklega yfir hálendi Mýrdals- og Vatnajökuls, hvítu blettirnir gefa til kynna meir en 30 mm/3 klst - og úrkoman stendur mun lengur heldur en það. Veðurstofan hefur því gefið út gular úrkomuviðvaranir nú þegar og vel er hugsanlegt að eitthvað verði bætt í þegar nær dregur. 

Nokkur hlýindi fylgja þessu veðri um landið norðan- og norðaustanvert, en við sem sitjum í rigningunni verðum minna vör við slíkt, verðum í þessum venjulegu 10 til 12 stigum, en það má svosem heita sæmilegt á þessum árstíma, þegar haustið er að hellast yfir okkur. 


Haustmánuður

Síðasti sumarmánuður gamla íslenska tímatalsins nefnist haustmánuður. Hann er sjaldan nefndur á nafn - kannski þykir nafnið ekki nægilega sláandi - þótt því sé ekki að neita að lítill vafi er á merkingu þess. Við upphaf haustmánaðar eru þrjátíu dagar til fyrsta vetrardags og hefst hann ætíð á fimmtudegi, í ár (2025) er það fimmtudagurinn 25.september. 

Við lítum nú á meðalhita haustmánaðar í Reykjavík. Á viðmiðunartímabilinu 1991 til 2020 er hann 5,8 stig, síðustu tíu árin 6,0 stig. Á uppeldisviðmiðunarskeiði ritstjóra hungurdiska (1961 til 1990) var hann 5,2 stig og á „hlýja viðmiðunartímabilinu“ 1961 til 1990 var hann 5,9 stig. Síðustu 30 ár 19. aldar var hann ekki nema 4,3 stig. Þetta þýðir að við getum talað um leitni hitans. Hún reiknast +0,8 stig á öld - töluvert, en hefur lítið í breytileikann frá ári til árs að segja. 

w-blogg220925a

Kaldastur var haustmánuður árið 1981 - vel í minni ritstjórans og fleiri. Það var einnig óvenjukalt á haustmánuði árið áður, 1980. Var í báðum tilvikum búist við hinu versta því einnig var mjög kalt á haustmánuði bæði 1917 og 1873, miklir frostavetur fóru þá í hönd. En lítið varð úr. Haustmánuður í fyrra, 2024, var einnig óvenjukaldur miðað við það sem verið hefur síðustu áratugi. Þó var umtalsvert hlýrra heldur en í þessum köldu mánuðum sem við nefndum - og ekki varð veturinn kaldur. 

Hlýjastur varð haustmánuður árið 1959 - einnig nokkuð minnisstætt ritstjóranum þótt ekki hafi hann þá verið búinn að „fullnorma“ væntingar til mánaðarins. Slíkt tekur langan tíma þegar tölur eru ekki við höndina. Haustmánuður 1958 og 1965 voru líka hlýir og í minninu er auðvitað haustmánuðurinn hlýi árið 2016. 

Haustið (október til nóvember) hefur þá sérstöðu meðal árstíðanna fjögurra að hlýskeið og kuldaskeið þess eru ekki eins samstíga eins og dansleikur vetrar, sumars og vors. Sumarið var að vísu, rétt eins og haustið, nokkuð lengi að taka við sér í upphafi tuttugustualdarhlýskeiðsins mikla, og það entist betur í hlýindunum heldur en sumarið, toppaði ekki fyrr en mestu sumarhlýindunum var í raun lokið. Hlýskeiðið á þessari öld sker sig líka minna úr heildinni heldur en algengt er í öðrum mánuðum. 

Við vitum ekki - frekar en venjulega - hvernig haustmánuður 2025 kemur til með að standa sig.


Fyrstu 20 dagar septembermánaðar 2025

Eftir til þess að gera svala viku er hiti á landinu ekki svo fjarri meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga mánaðarins er 9,3 stig, +0,2 stig ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +0,1 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 15. hlýjasta sæti (af 25) meðal sömu almanaksdaga á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2006 og 2010, meðalhiti þá 10,9 stig, en kaldastir 7,2 stig árið 2013. Á langa listanum raðast hiti nú í 44. hlýjasta sæti (af 152). Hlýjast var 1939, meðalhiti þá 12,0 stig, en kaldastir voru sömu dagar árið 1979, meðalhiti þá 5,3 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú 8,6 stig, -0.1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020 en -0,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, hiti þar raðast í 11.hlýjasta sæti á öldinni (af 25), en kaldast við Breiðafjörð og á Vestfjörðum þar sem hitinn raðast í 17. hlýjasta sætið.

Jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár er mest á Setri þar hefur hiti verið +0,8 stigum ofan meðallags, og +0,7 stig á Höfn í Hornafirði. Kaldast, að tiltölu, hefur verið á Hornbjargsvita þar er hiti -1,9 stig neðan meðallags.

Í Reykjavík hefur úrkoman mælst 55,7 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 113,5 mm og er það meira en þreföld meðalúrkoma. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 353,7 mm, um þreföld meðalúrkoma og hefur aldrei mælst meiri sömu daga.

Sólskinsstundir hafa mælst 119,3 í Reykjavík, 37 fleiri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 40,9, 24 færri en í meðalári.

Þótt loftþrýstingur hafi verið fremur hár síðustu dagana er meðaltal fyrstu 20 dagana í lægra lagi, 1000,2 hPa í Reykjavík og í 177. sæti af 204.


Fáeinar kaldar nætur

Nú stefnir í fáeinar svalar nætur á landinu og líklega frýs nokkuð víða. En svo virðist sem þetta líði mjög fljótt hjá og ekki fylgi nein veðurharka. Þess vegna er ekki hægt að tala um hret.

w-blogg170925a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi á föstudag, 19.september. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindörvar sýna vindstyrk og stefnu og hiti er gefinn til kynna í litum. Kuldinn tengist kuldapolli sem er á ákveðinni leið til suðsuðausturs nokkuð fyrir austan land. Við sleppum því nokkuð vel - veðrið yrði talsvert verra færi pollurinn beint yfir landið. Strax á eftir hlýnar aftur að mun.

Hitinn í miðjum pollinum er sagður -36 stig. Færi slíkur kuldapollur beint yfir Keflavíkurflugvöll væri hann við það að teljast óvenjulegur fyrir september. Svona lágar tölur eru algengari norðan og norðaustan við land heldur en yfir Suðvesturlandi. Lægsti hiti sem við vitum um yfir Keflavík í september er -39 stig, mældist þann 29. árið 1969, í eftirminnilegum hríðarbyl á suðvestanverðu landinu. Fyrir nokkrum árum, þann 23. september árið 2020 mældist -37 stiga hiti í 500 hPa yfir Keflavík. 

Það er kannski hollt að líta á kortið þann kalda dag til samanburðar. 

w-blogg170925b

Við sjáum að sá kuldi sem spáð er nú er harla veigalítill miðað við þetta. Veðrið var hins vegar ekki svo slæmt. Í kjölfarið fór frostið þó í -9,5 stig á Þingvöllum aðfaranótt 25. Það er lægsti hiti sem við vitum um í byggðum landsins þann dag. [Að vísu eru dægurmet dagana í kring enn lægri, sett í eldri kuldaköstum. 

 


Hálfur september 2025

Hálfur september 2025. Fremur hlýtt hefur verið í veðri, nokkuð úrkomusamt þó, sérstaklega á Norðaustur- og Austurlandi. Meðalhiti í Reykjavík er 10,5 stig, +1,2 stigum ofan meðallags bæði 1991 til 2020 sem og síðustu tíu ára. Raðast Reykjavíkurhitinn í 6. hlýjasta sæti aldarinnar (af 25). Hlýjastir voru þessir sömu almanaksdagar 2010, meðalhiti þá 12,2 stig. Kaldastir voru þeir í fyrra, meðalhiti 7,6 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 16. hlýjasta sæti (af 151). Kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1992, meðalhiti 5,6 stig.

Á Akureyri er meðalhitinn nú 10,0 stig og er það +0,9 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +0,7 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.

Nokkur munur er á meðalhita eftir landshlutum. Kaldast hefur verið á Vestfjörðum þar sem hitinn raðast í 15. hlýjasta sæti aldarinnar, en hlýjast aftur á móti á Suðausturlandi þar sem þetta er þriðjihlýjasti fyrri hluti september á öldinni.

Að tiltölu hefur verið hlýjast við Setur, +2,3 stig ofan meðallag síðustu tíu ára, en kaldast á Hornbjargsvita þar sem hiti hefur verið -1,4 stig neðan meðallags.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 55,7 mm og er það þriðjungi meira heldur en að meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 110,8 mm og 329,4 á Dalatanga, þar hefur aldrei mælst jafnmikil úrkoma sömu daga (mælingar hófust 1938).

Sólskinsstundir hafa mælst 68,8 í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 33,5, 17 færri en í meðalári.

Loftþrýstingur hefur verið sérlega lágur þennan fyrri hluta september og hefur aðeins fjórum sinnum verið lægri sömu daga síðustu 202 ár, síðast 1999, þar áður 1950.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg081025b
  • w-blogg081025a
  • w-blogg061025b
  • w-blogg061025a
  • w-blogg041025a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 207
  • Sl. sólarhring: 253
  • Sl. viku: 2041
  • Frá upphafi: 2504161

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 1839
  • Gestir í dag: 170
  • IP-tölur í dag: 170

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband