Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Enn í svalanum

Kalda loftið virðist ekkert ætla að yfirgefa okkur - í augnablikinu er þó skortið á aðfærslu meiri kulda úr norðri - en það er tímabundið ástand. Kortið sýnir 500 hPa hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar síðdegis á morgun, þriðjudag 14. júlí. 

w-blogg140715a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af legu þeirra má lesa vindstefnu og styrk rétt eins og á hefðbundnum sjávarmálskortum. Lægð er skammt fyrir suðaustan land og hreyfist í hringi - hluti af henni á síðan að fara til austurs, en hinn hlutinn til suðurs. Þá verður áttin norðaustlægari, lægðarsveigjan minnkar á jafnhæðarlínunum - líklega styttir svo upp suðvestanlands. - En nyrðra heldur hafáttin áfram. 

Litirnir sýna þykktina - grænu litirnir eru svalir í júlímánuði og við viljum þá einfaldlega ekki. Sem stendur er veðrahvolfið kaldast fyrir suðaustan land - en sá litli guli litur sem er hér fyrir norðaustan land nýtur sín lítt því hlýja loftið liggur ofan á kaldara sjávarlofti - sem er það sem leggst að landinu. 

Lægðin yfir Labrador er að dæla hlýju lofti til norðurs í átt til Grænlands og styrkir þar með norðanáttina hér á landi - og yljar norðurgrænlendingum - og kannski þeim vestra líka. Það hlýja loft á aldrei að komast hingað heldur stuggar það aftur við enn kaldara lofti yfir Norðuríshafi - sparkar þar í lítinn, ljótan og snarpan kuldapoll sem hrekkur við og kemur inn á svæðið sem þetta kort sýnir á fimmtudag. Síðan vita reiknimiðstöðvar ekkert hvað hann gerir. Óskandi er að við sleppum - ef hann kemur hingað kostar það margra daga af enn meiri kuldaleiðindum. 

Stöku landshluti - sá sem nýtur vinda af landi hverju sinni fær að njóta einhverskonar sumars næstu daga - sé vindbelgingur ekki of mikil, sé lægðasveigja ekki of mikil, sé þetta og sé hitt ... þá kannski ... 


Veltimætti (mikið á morgun?)

Fyrir rúmu ári var þetta ágæta hugtak kynnt til sögunnar á hungurdiskum - en hefur ekki borið mikið á góma síðan - enda þvælið í kynningu og hefur sárasjaldan verið notað við veðurspár hér á landi. Rétt að taka fram að textinn hér að neðan er með allratormeltasta móti - og hann er engin skyldulesning - ekki einu sinni fyrir nördin. 

Í Bandaríkjunum er veltimætti á flestra borði - og smjatta bandarískir blogg- og tvítarar stöðugt á því - en nota auðvitað enska nafnið - CAPE (Convective Available Potential Engergy). Íslenska heitið er einfaldlega þýðing á því enska. 

Í stuttu máli segir veltimættið til um það hversu stórbrotin klakkamyndun getur orðið - fari hún á annað borð af stað. Hér á landi er veltimætti yfirleitt lítið - loftið er kalt og inniheldur ekki mikinn raka (jafnvel þótt rakastigið sé hátt). Veltimættið verður mest liggi mjög rakt loft undir þurru. Hér á landi verður það hvað hæst þegar rakt loft úr suðaustri berst inn undir þurrara loft úr norðaustri.

Mjög mikilvægt er að vita að mikið veltimætti þýðir ekki endilega að miklir klakkar myndist - það þarf að ýta veltunni af stað. Harmonie-spálíkan Veðurstofunnar reiknar veltimætti - og kort morgundagsins - 12. júlí - sýnir óvenjuháar tölur (miðað við Ísland). Ritstjóranum finnst því ástæða til að sýna það. 

w-blogg120715a

Kortið gildir kl.16. Jafnþrýstilínur eru heildregnar - með 2 hPa bili - harla gisnar í spánni. Litir sýna veltimættið, tölur eru allt upp í 1400 þar sem mest er - 500 þykir mikið hér á landi. Þeir sem stækka kortið geta fundið töluna 9 á bláum grunni yfir Síðufjöllum. Sú tala segir að líkanið telji 9 prósent líkur á hagli á þeim slóðum. 

Í dag - laugardag reiknaðist veltimættið miklu minna - en á að vera nærri því eins mikið á mánudag og þetta kort sýnir - að vísu á minna svæði. Líkanið spáir skúrum á víð og dreif - en ekki alls staðar.

Síðdegisskúrir hér á landi eru oftast stakar og sárasjaldgæft er að þær myndi sjálfbær, stór klakkakerfi - en það eru slík kerfi sem allir í útlöndum óttast. Klakkakerfi þurfa ekki aðeins mikið veltimætti heldur líka öflugan vindsniða - að vindur sjái kerfinu fyrir lofti af mismunandi uppruna - til að veltan geti haldið áfram lengur en eina umferð. - Hér er ekkert þannig að sjá að þessu sinni.

Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir líka veltimætti. Nú ber svo við að það reiknast ekkert sérlega mikið í spánni fyrir morgundaginn (12. júlí kl.15) reyndar nánast ekki neitt. 

w-blogg120715b

Hér sýna litir líka veltimætti, jafnþrýstilíkur eru heildregnar, en þykktin er sýnd með rauðum strikalínum. 

En hvað er það sem harmonie-líkanið sér sem reiknimiðstöðin sér ekki? 

w-blogg120715c

Þetta er þversnið (úr harmonie) sem liggur eftir línunni sem sýnd er á litla kortinu í efra hægra horni - frá Faxaflóa til vinstri yfir Suðurland og loks á haf út. Lóðrétti kvarðinn er merktur í hPa og sýnir hæð, frá jörð og upp í 250 hPa (um 10 km hæð). Spáin gildir kl.16 á morgun - sunnudag - eins og fyrsta kortið. Heildregnu línurnar sýna jafngildismættishita (í Kelvinstigum) - hversu hlýtt loftið yrði þéttist allur raki þess og það síðan dregið niður í 1000 hPa. 

Þar sem jafngildismættishitalínurnar eru gisnar er loft óstöðugt - þéttist raki þess. Þeir sem nenna að stækka myndina ættu að sjá að 306 stiga línan er í kringum 600 hPa-hæð (4 km) - en yfir Suðurlandsundirlendinu er önnur 306 stiga lína í um 900 hPa-hæð (í um 1000 metrum). Loftið sem neðst liggur er jafnvel enn hlýrra - kannski meir en 308 stig. Þetta þýðir að lyftist loftið sem neðst liggur - og fari raki þess að þéttast - á það greiða leið upp í 5 til 6 km - og ætti þá skila vænum regndembum. 

En skyldi jafngildismættishiti líkananna tveggja yfir landinu vera eitthvað misjafn á morgun? - eða er það misjafnt eðli líkananna sem veldur þessum mikla mun á mati þeirra á veltimætti dagsins? 

Falla miklar dembur - eða kemur ekki neitt? Svo vill til að ekki þarf að bíða svars lengi. 


Fórnarlömb troðnings

Þó svo sé að heyra að höfuðborgarbúar og nærsveitamenn séu nokkuð ánægðir með veðrið undanfarna daga er því ekki að neita að kalt er í veðri á landinu í heild. Reyndar var það svo að hiti var ofan meðallags síðustu tíu ára á aðeins einni veðurstöð í dag, á Patreksfirði. Á veðurstofutúni var hitinn -0.8 stigum undir meðallagi og -1,0 stigum undir því við Korpu. Kuldinn fyrir norðan er ískyggilegur, við Mývatn var hann -5,4 stigum undir meðallagi, meðalhiti sólarhringsins aðeins +4,1 stig og hámarkshiti dagsins 7,4 stig. 

Ástæða kuldans er kuldapollur sem hörfað hefur undan troðningshlýindum á norðurslóðum. Þetta sést vel á kortinu hér að neðan. Það er frá bandarísku veðurstofunni og sýnir spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi á laugardag (11. júlí).

w-blogg100715a

Norðurskautið er ekki fjarri miðju myndar, en Ísland sést neðst á henni. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins - en litir þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á heimskautaslóðum eru hlýindin þó sýnd veiði frekar en gefin - því undir liggur gjarnan þunnt lag af köldu lofti yfir ísbreiðum eða köldum sjó. 

Á landi er meiri von um hlýindi, í gær (8, júlí) mun hiti t.d. hafa farið í 20,4 stig á Norðvesturgrænlandi í byggðarkjarnanum Qaanaaq, þeim stað sem við köllum gjarnan Thule. Svo vel vildi til að danadrottning var þar í heimsókn. Vindur stóð af fjalli um tíma - en fór niður undir frostmark þegar skipti um. Tengill í frétt má finna á fjasbókarsíðunni opnu, „svækjusumar“, þar sem ritstjóri hungurdiska (og vinsamlegir hópbúar) setja stundum inn tengla á fréttir tengdar hitum og slíku í útlöndum. Ritstjórinn veit ekki hvort stigin 20,4 eru met - það kemur vonandi í ljós síðar. Spáin fyrir Thulesvæðið er hlýindaleg áfram - þykktin á kortinu er þar um 5580 metrar - það þætti okkur vænt um að fá hingað. 

En hlýindatroðningur norðurslóða ryður kalda loftinu úr heimkynnum sínum suður til okkar. Á laugardaginn er versti kuldinn þó kominn vestur fyrir land eins og sjá má á dökkgræna svæði kortsins - en mildari fölgrænn litur liggur yfir landinu. Að meðaltali eigum við þó að vera inni í þeim sandgula í júlí. Kuldinn hefur einnig hörfað til annarra átta í kringum íshafið. 

En - þótt eitthvað hlýni er samt ekki von á verulega hlýju lofti í bráð. 


Enn eitt sjávarhitakortið

Það er sannarlega verið að bera í bakkafullan vefheimalækinn með því að birta sjávarhitavikakort úr öðrum heimshlutum hér á hungurdiskum - en ritstjórinn lætur sig hafa það að þessu sinni (og vill ekki einu sinni loft því að gera það aldrei aftur).

w-blogg080715a

Gulir og brúnir litir sýna jákvæð vik - gríðarleg hlýindi eru í austanverðu Kyrrahafi. Þar er margfrægur El nino nærri miðbaug - einhver stríðnissvipur samt á drengnum - svo margir hafa svo oft orðið sér til svo mikillar skammar við elninospár að mikil varkárni einkennir alla nema þá reynslulausu (eða fífldjörfu). Við vesturströnd N-Ameríku eru jafnvel enn stærri vik - hlýr blettur sem þarlendir hafa kosið að kalla „The Blob“ (aldrei orðavant þar vestra). Orðabókin þýðir það sem „klessan“ (enginn stór stafur á íslenskum lager hungurdiska) - og vísar ef til vill til amerískra vísindahrollvekja sjötta áratugarins - [hér átti að koma kafli um hrun íslenskrar menningar - en yfirritstjórinn klippti hann út].

Á Atlantshafi er mynstrið allt annað. Mjög hlýtt er í norðurhöfum fyrir norðan Ísland og þaðan langt austur í Barents- og Karahöf. Vindur sem blæs þaðan er samt ekkert sérlega hlýr - frekar en venjulega - en væri enn kaldari ef sjórinn væri það. 

Suður í hafi er kalt - það er að segja kaldara en venjulega - blái liturinn byrjar við -2 stig. Strandsævi Evrópu eru mjög hlý og eins er nokkuð hlýtt undir Asóreyjahæðinni. Þar sunnan við - á staðvindasvæðinu er aftur óvenju kalt. Suðurvængur Asóreyjahæðarinnar hefur að sögn verið mun öflugri en venjulegast er - sjávarmálsþrýstingur í hæstu hæðum - það hefur styrkt staðvindana og blandast yfirborðssjór sem sífellt er að hlýna í sólinni jafnharðan kaldari sjó undir. Þetta vilja menn kenna fjarhrifum (teleconnection) elnino sem valdi niðurstreymi á þessum slóðum. Við viljum trúa því (enda er það góð uppástunga).  

Eins og venjulega finnst manni að þessi mynstur kortsins muni standa að eilífu - en svo verða breytingarnar furðuhraðar þegar að þeim kemur - eins og venjulega. 

Reiknilíkön reyna að spá - en þeim er í reynd oftast lítið að treysta - sum segja að El nino styrkist fram að áramótum - en málpípur annarra klóra sér í hausnum - og enn fleiri klóra sér yfir kyrrahafsklessunni - sem enginn virðist vita hvað verður um.

Í Atlantshafi er helst talið að mynstrið annað hvort haldi sér að mestu næstu mánuði - eða það dofni - frekar en að það fari að snúast við eða taka upp á öðrum kúnstum. Strandsjávarhlýindin eru að vísu veigalítil - og geta horfið á mjög stuttum tíma. 

Rétt er að taka fram að bláu svæðin nyrst og syðst á kortinu sýna hafís heimskautaslóða - en ekki hitavik. 


Heldur kalt fyrir flestra smekk

Heldur er útlitið kuldalegt næstu daga. Almennum metum er þó ekki spáð (ennþá) - . En svona er það þegar óeðlileg hlýindi þrengja sér fram bæði á meginlandi Evrópu - og það sem meira máli skiptir fyrir okkur - yfir Grænlandi norðvestanverðu. Einhvers staðar verður kalda loftið að vera. 

Kortið sýnir þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar síðdegis á miðvikudag (8.júlí) - heildregnu línurnar. Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum.

w-blogg070715a

Kuldinn er liggur af nokkrum þunga við norðausturströndina - en hefur ekki enn náð til Suðvesturlands. Við sjáum töluna -6 stig þar sem kaldast er í 850 hPa - þar sem flöturinn er í um 1460 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta er með því kaldasta sem búast má við í 850 hPa í júlí. 

Og ekki allt búið - langt í frá. Annar kuldapollur, meiri um sig, er lengra norðaustur í hafi. Hann á að fara rakleiðis til suðvesturs í stefnu á Vestfirði - reiknimiðstöðin gerir ráð fyrir því að það verði á föstudag. 

Þykktin í miðju kuldapollanna er minni en 5340 metrar - það er óþægilega nærri næturfrosti - þar sem nær að létta til og vindur er hægur. 


Mikil hæð yfir Norðuríshafi

Nú er óvenjumikil hæð yfir Norðuríshafi og teygir sig suður til Grænlands. Hún veldur norðlægri átt hér á landi næstu daga ásamt lægðasvæði yfir Skandinavíu. 

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinu á norðurslóðum á miðvikudaginn 8. júlí kl.12.

w-blogg060715a

Þrýstingur í hæðarmiðju er meiri en 1032 hPa og hringar hæðin sig um allt íshafið. Bláa örin sýnir hver kaldast er í 850 hPa-fletinum á kortinu öllu. Þessi kuldapollur er á leið í átt til landsins og eykur ekki bjartsýni um veður vikunnar.

Suðvesturland sleppur þó væntanlega vel - og sem stendur er ekki spáð teljandi illviðri með kuldanum á Norðausturlandi - en skýjað veður, með dálítilli rigningu og súld og hita vel innan við 10 stig er aldrei vinsælt á þessum tíma árs. 


Austlæg átt - en snýst hann svo í norðaustur?

Austanáttin er oftast vinsæl um landið vestanvert - en eystra er hún harla dauf á þessum tíma árs. Kortið sýnir stöðuna um hádegi á mánudag (6.júli) - að mati evrópureiknimiðstövðarinnar.

w-blogg050715a

Lægðasvæði er fyrir sunnan land og öflug hæð yfir Grænlandi. Hæðin er framlengjari út úr mjög stóru háþrýstisvæði á norðurslóðum - kannski ekki metstóru - en þó finnst veðurnördum full ástæða til að fylgjast með því. Á kortinu æpir úrkomukökkurinn yfir Svíþjóð á okkur en lægðin sú fer hratt til austurs. Sú sem er vestur af Bretlandi fylgir síðan ákveðið eftir á sömu leið.

Þessar lægðir - ásamt hæðinni yfir Grænlandi munu færa okkur norðaustanátt strax á þriðjudaginn. Hún gæti orðið köld - örin bendir á slæman kuldapoll langt norðaustur í hafi. Hann virðist stefna rakleiðis til okkar - gæti þó farið fyrir austan land (vonandi). En annar verri gæti svo fylgt í kjölfarið - en reiknimiðstöðvar eru ekki sammála um örlög hans - við vonum það besta. 


Í kvöldsólinni

Stundum sjást skemmtilegar skýjamyndir í kvöldsólinni - líka úr gervihnöttum - þetta er klippa úr modis-mynd frá kl.22:00 í kvöld (föstudag 3. júlí) - með milligöngu Veðurstofunnar:

f-modis_truecol_A_20150703_2200_crop


Flatur júnímánuður

Við lítum á meðalhæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar í júní á norðanverðu Atlantshafi auk spár um sömu stika næstu tíu daga. Það er evrópureiknimiðstöðin sem greinir og spáir.

w-blogg030715a

Mikil flatneskja er í kringum Ísland. Veik hæð hefur að meðaltali verið yfir Grænlandi en lægðardrag yfir landinu. Þykktarvikin (lituðu fletirnir) eru ekki stór. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Bláir litir sýna þykkt undir meðallagi - og þar með svæði þar sem kaldara hefur verið heldur en að meðaltali í júní 1981 til 2010. Gulu litirnir sýna þykkt yfir meðallagi - hlýrra loft en að meðallagi. 

Kalt hefur verið í Skandinavíu - eins og fréttir hafa borið með sér. Þar er neikvæða þykktarvikið meira en 50 metrar - það þýðir að hiti hefur verið um 2,5 stigum undir meðallagi í neðri hluta veðrahvolfs. Hlýjast að tiltölu hefur aftur á móti verið í Frakklandi þar sem jákvæða vikið er nærri því eins stórt, rétt tæpir 50 metrar þar sem mest er. 

Hiti hefur einnig verið ofan meðallags fyrir norðan land. - En þetta á auðvitað við allan mánuðinn - hér eru allmikil kuldaköst og jafnframt hlýir dagar faldir á bakvið meðaltölin. 

w-blogg030715b

Hér má sjá spá um meðalhæð 500 hPa-flatarins, þykktina og þykktarvikin næstu tíu daga (2. til 12. júlí). Hér er allt snarpara heldur en á fyrra kortinu. Það stafar fyrst og fremst af því að um styttra tímabil er að ræða - og líka því að veðurkerfi virðast vera nokkuð föst í sessi.

Við sjáum að hitabylgjan hörfar til austurs frá Bretlandseyjum, sunnanverð Skandinavía er í góðum málum - en gríðarkalt er nyrst í Noregi og þar fyrir austan. Mjög hlýtt verður áfram á Grænlandi - sé spáin rétt. Hlýindi í neðri hluta veðrahvolfs tryggja þó ekki að hlýtt sé í mannheimum sé snjór eða ís að bráðna - eða undir liggi mjög kaldur sjór. 

Stærstu kuldavikin suðvestur í hafi stafa ekki bara af köldum sjó - vikin eru stærri heldur en sjávarhitavik á sömu slóðum - enn er það norðvestanáttin sem heldur hitanum niðri. 

Hér á landi verður þykktin nærri meðallagi júlímánaðar næstu tíu daga - ætli það verði ekki að teljast viðundandi. En - spáin felur kannski bæði hlýja helgi - og kalda næstu viku.


Evrópuhitabylgjan á háloftakorti

Til fróðleiks lítum við á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem nær yfir Evrópu. Það er of snemmt að tala um einhver met. Breskir fjölmiðlar nefndu þó nýtt hitamet fyrir júlímánuð þar í landi. En sú tala var frá Heathrow-flugvelli og e.t.v. ástæða til að taka hámarksmælingum þar með nokkurri varúð - malbik á alla vegu og varla staðalaðstæður til hitamælinga. Hvað breska veðurstofan gerir í málinu - ?

w-blogg020715a

Kortið er frá því síðdegis í dag, miðvikudag 1.júlí 2015 kl.18 og sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin er sýnd með litum, kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð. 

Við sjáum tungu af afskaplega hlýju lofti teygja sig til norðurs frá Norður-Afríku allt til Noregs. Þykktin yfir Englandi austanverðu er meiri en 5700 metrar - ekki algengt, hún er svo enn meiri yfir Frakklandi, þar er blettur með gildum yfir 5760 metrum. 

Mættishiti í 850 hPa fór upp í 35 stig yfir Englandi nú síðdegis - er það örugglega nærri meti. 

Eins og sjá má eru háloftavindar að bera þetta hlýja loft til sunnanverðrar Skandinavíu - en jafnframt veltur það til austurs og suðausturs þannig að 5700 metrarnir rétt ná til Danmerkur annað kvöld eða aðra nótt - og svo aftur á laugardag.

Skilin yfir Bretlandi eru mjög skörp og austan við þau eru slæm þrumuveður, í kvöld sýndu menn myndir af ótrúlega stóru íshagli sem féll í Englandi - 5 til 6 cm í þvermál. Vonandi hefur það ekki verið í miklu magni. 

Við fáum ekkert af þessu hlýja lofti hingað. Þykktin hér við land rétt hangir í meðallagi árstímans og varla það. Mættishiti í 850 hPa í dag og á morgun (fimmtudag) er ekki nema 15 til 18 stig - það er harla rýrt í júlí. En önnur bylgja að sunnan fer svipaða leið um Bretland aðfaranótt föstudags og berst hluti hennar til vesturs hátt yfir höfðum okkar um helgina - hugsanlega kemst hitinn þá yfir 20 stig um landið vestanvert - með smáheppni -. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 77
  • Sl. sólarhring: 406
  • Sl. viku: 1902
  • Frá upphafi: 2350638

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1702
  • Gestir í dag: 74
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband