Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Nokkuð kaldir dagar (en ekki svo)

Nú hefur kólnað nokkuð á landinu. Í dag (26. mars) fór landsmeðalhiti í fyrsta sinn í nærri þrjár vikur niður fyrir meðallag síðustu tíu ára - síðan þann 6. Líklega verða næstu 3 til 4 dagar líka undir þessu sama meðallagi. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan gildir síðdegis á mánudag (2. páskadag - 28. mars). 

w-blogg270316a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra, en meðalþykkt á þessum tíma í mars er í kringum 5250, í ljósasta bláa litnum miðjum. 

En það er samt engin sérstök grimmd í þessu korti. Mjög kalt loft er vestan Grænlands. Þótt háloftahæðin yfir Grænlandi sé ekki öflug þvælist hún fyrir aðsókn kuldaaflanna - ef til vill alveg þar til nýr skammtur af hlýju lofti að sunnan nær til okkar upp úr miðri vikunni. 

En veðurspár eru ekki alltaf réttar. 


Umskipti (leiða til hvers?)

Háþrýstisvæðið mikla sem fært hefur okkur hlýindin að undanförnu er nú að mestu niðurbrotið - og mikill lágþrýstingur kemur í staðinn. En ekki er samt alveg ljóst til hvers hann leiðir - nema hvað ríkjandi áttir verða trúlega austlægar. En verður það sjávaryljað svalloft úr vestri sem endar hér sem austanátt - eða fáum við innslag úr norðri - sem viljugir gætu þá kallað páskahret?

Lítum fyrst sem snöggvast á meðalþrýsting og þrýstivik síðustu tíu daga.

w-blogg220316aaa

Hér er hæðin í öllu sínu veldi - vestan við hana er loftið komið langt úr suðri - hefur að auki á sér hagstæða hæðarsveigju - enda hefur hiti norðaustan og austanlands verið eftir því - þótt bráðnandi snjór hafi forðað metum að mestu. 

Meðalkort næstu tíu daga (21. til 31. mars) er allt öðru vísi.

w-blogg220316aa

Hér er óvenjuöflugt lægðasvæði fyrir sunnan land - mikil neikvæð vik, -18 hPa þar sem mest er. Megnið af loftinu í lægðinni er komið úr vestri, en við sjáum þó að þrýstilínur eru þéttar úti af Norðaustur-Grænlandi en þar lúrir köld stroka úr norðri. 

Þótt þetta norðanloft sé kalt - er það samt hlýrra en að meðaltali á þessum tíma árs. Vestanloftið er hins vegar kaldara en vant er - þótt það sé hlýrra að mati hitamæla. Þetta sést vel á vikakorti 850 hPa hitans sömu daga.

w-blogg220316ac

Hlýtt (að tiltölu) fyrir norðan land - en kalt suður í hafi. Harla kunnugleg mynd að verða. En reyndar erum við hér að mæla hitavik í 850 hPa - í um 1300 metra hæð yfir sjávarmáli - norðankuldi nýtur sín betur við sjávarmál - getur laumast undir hlýindin. 

Breytingin verður ekki sérlega snögg - eða ill. Kortið hér að neðan sýnir undirbúning umskiptanna - gildir kl. 6 að morgni miðvikudags 23. mars.

w-blogg220316a

Hér er sérlega djúp lægð (miðað við árstíma), 947 hPa í miðju við Labrador - þar við ströndina er ofsaveður eða jafnvel fárviðri (sé að marka spána). Sé rýnt í kortið má sjá að frost er meira en -15 stig yfir nær öllu Nýfundnalandi - en Atlantshafið tekur á móti og þegar þetta loft verður komið norðaustur á okkar slóðir hefur það hitnað um að minnsta kosti 10 stig. 

Hlýja sóknin í austurjaðri lægðarinnar (rauða örin) er ósköp aum og rennur að mestu út í sandinn. En við Norðaustur-Grænland má einnig sjá -15 og -20 stiga jafnhitalínurnar (í 850 hPa). Sumar spár gera ráð fyrir því að eitthvað af þeim kulda komist hingað til lands um helgina - eða upp úr henni - en aðrar gera ráð fyrir því að Atlantshafsloftið haldi öllum völdum alla tíu dagana og að „hlý“ norðaustanátt haldi áfram að vera hlutskipti okkar  - eins og tíðast í vetur. - Höldum þó gæsalöppunum á hreinu - norðaustanátt er (næstum) aldrei hlý - aðeins hlý að tiltölu. 

En ekki verður langt í norðaustanstrenginn - vindakortið hér að neðan gildir sólarhring síðar en það fyrra.

w-blogg220316b

Hér sýna hvítu örvarnar kalda loftið - sú úr norðri strýkst við Vestfirði - en sú úr suðvestri fer að mestu hjá fyrir sunnan land. 


Kjarr á gömlu korti

Við rýnum nú í kort sem kennt er við Björn Gunnlaugsson og Hið íslenska bókmenntafélag. Um Björn má meðal annars lesa á Vísindavef HÍ og er þar vísað í ítarlegri heimildir. Kortið kom í (að minnsta kosti) tveimur útgáfum - sú fyrri, 1844, í mælikvarðanum 1:480 þúsund, samanstóð af fjórum blöðum. Myndin hér að neðan er kippt úr blaði sem ber titilinn „Suðvestr-fjórðungr“. 

Á kortinu eru aðskiljanleg merki - við horfum einkum á eitt þeirra, „skógr eða hrís“. Sýnist í fljótu bragði vera svartar skemmdir á kortinu - en kannski er í frumprenti eitthvað grænt innan um sortann. 

Það er forvitnilegt (finnst ritstjóranum) að athuga hvar Björn hefur séð (eða frétt af) skógi eða hrísi. Svo virðist sem sitthvað hafi farið fram hjá honum (eins og eðlilegt má teljast) - en merkið er einnig sett á fáeina staði þar sem lítt sér til kjarrs nú. Hrís getur hins vegar leynst nema beinlínis sé farið fótgangandi um svæðið í könnunarskyni. 

Við lítum eingöngu á Borgarfjörð, en látum áhugasama lesendur um aðra landshluta. Kortið skýrist nokkuð sé það stækkað. 

w-blogg200316a

Kjarr er víða í Borgarfirði - og var víða á fjórða áratug 19. aldar. Víða sér til svörtu kjarrflekkjanna á kortinu. Kunnugir taka eftir því að fjarlægðir milli staða eru sums staðar nokkuð brenglaðar - enga gps-punkta að hafa. 

Ritstjórinn hefur horft á öll (eða langflest) kjarrmerkin og getur staðfest að þau eru alveg raunveruleg - hefðu þó mátt vera lítillega fleiri - við sleppum upptalningu.

Þrír blettir (og ein eyða) vekja þó athygli ritstjórans og benda tölumerktar örvar á þá. Sá sem merktur er með tölustafnum 1 er í Hvítársíðu. Þar hélt hann að væri alveg kjarrlaust inn að Bjarnastöðum. Kannski finnst þar þó enn hrís í móum eða kjarr í giljum sé vel leitað - eða hefur orðið eyðing síðan 1830? Hvenær þá? 

Önnur örin (tölustafur 2) bendir á kjarrlausa norðurhlíð Skorradals - að minnsta kosti frá Hvammi og inn fyrir Fitjar - þetta er hugsanlega alveg rétt - þótt manni þyki það ótrúlegt í þeim þétta skógi sem þarna er í dag. Aftur á móti er Skorradalurinn að öðru leyti allur útataður í kjarrmerkjum á kortinu - og langt inn í dalbotn. Jú, mjög víða er kjarr í dalnum í dag - en hefur líka víða látið á sjá - tökum við kortið bókstaflega. 

Við tölustafinn 3 er bent á kjarrmerki ofan við Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd - kjarr er og hefur verið þar vestan við - en náði það austar snemma á 19. öld eða er ónákvæmni kortsins um að kenna? 

Fjórða örin bendir á Skógarkotsland undir Tungukolli sunnan Borgarfjarðar. Eftir nokkurra áratuga friðun og einhverja plöntun er þar nú að koma upp kjarr á blettum, en annars var allt kjarr austan Seleyrargilja uppnagað. Enn hefur verið kjarr þarna á tíma Björns - og nafnið Skógarkot bendir líka til kjarrgróðurs. Á kortinu sýnist Hafnarskógur utar með fjallinu líka vera efnismeiri en við hin síðari tíma vitni viljum kannast við - en kortið er ekki nákvæmt.

Í fyrra bindi minningabókar Þorvaldar Thoroddsen segir orðrétt í frásögn af ferðalagi í Borgarfjörð í júlí 1871 (s.110 til 111): „Þá var enn nokkuð eftir af Hafnarskógi, hann var ekki hár, en nokkuð víðáttumikill, einstöku hríslur voru samt allstórar, og víða voru stórar skellur af uppblásnum holtum.“ Orðalagið „enn nokkuð eftir“ bendir til þess að Þorvaldur hafi síðar séð að skóginum hafði hrakað. 

Allvíða vantar kjarr á kortið á Mýrum í Borgar-, Álftanes- og Hraunhreppum - á staði þar sem örugglega var kjarr á öndverðri 19. öld. Til dæmis er ekkert kjarrmerki í námunda við Staðarhraun. Svo er hið dularfulla bæjarnafn Rauðabjarnarstaðir upp með Gufuá. Bærinn er nefndur í Landnámu - en veit einhver hvar hann var? Kannski er það Staður? 

Við tökum eftir Okjökli - sem sagður er býsna stór - og jökull er settur á Skjaldbreið sömuleiðis (sem kvu aldrei hafa verið - nema hugsanlega í gígnum). 

En landeyðing var ekki jafnlangt gengin á fyrri hluta 19. aldar og síðar varð. Vitnum aftur í Þorvald (sama bók blaðsíða 55), og vitnað í ferð sem hann fór 9 ára gamall (1864): Eg man að við áðum á Svínadal í Kjós, áður en við lögðum á Svínaskarð, þar var þá fagurt kjarr og hið mesta blómskraut af blágresi, fjallafíflum, lokasjóðsbræðrum o.fl., svo mjer þótti þar yndislegt að vera. Síðar hef eg mjög oft komið á sömu stöðvar og sjeð meiri og meiri afturför á gróðrinum, unz hann var að mestu uppurinn; líklega er þetta aukinni fjárbeit að kenna.“ - Svo mörg voru þau orð.


Hlý vika - en hitasveiflur eru miklar í mars

Síðasta vika hefur verið hlý á landinu miðað við árstíma - en samt verður enn að teljast vetur. Það er fyrst 1. apríl að meðalhiti fer að skríða upp á við, fyrst suðvestanlands. Við skulum til gamans bera saman meðalhita daganna 11. til 17. mars ár hvert langt aftur í tímann og sjá með eigin augum hversu misjafn hitinn getur verið á þessum árstíma.

Aðgengi að daglegum upplýsingum er þó takmarkað langt aftur í tímann - og þar að auki getur verið nokkuð vafasamt að reikna meðalhita einstakra daga út frá þeim takmörkuðu mælingum sem við þó höfum. Gerum það samt fyrir Stykkishólm - þar sem við eigum nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um þessa tilteknu marsdaga allt aftur til 1846 - og Reykjavík - þar sem samanburður er öllu erfiðari (mælingar ekki eins staðlaðar framan af) auk gata í mæliröðinni fyrir 1870 - og ritstjórinn hefur enn ekki giskað á daglegan hita þar á árunum 1904 til 1906. 

Stykkishólmsmyndin fyrst.

w-blogg180316a

Af myndinni má ráða að sjaldan hefur verið jafnhlýtt á þessum tíma í mars og nú (4,7 stig) - en talsvert vantar þó upp á að hæstu hæðum hafi verið náð - hlýjast var 1929, 7,5 stig (hreint ótrúlegt). Árið eftir 1930 var meðalhitinn í sömu viku hins vegar -6,1 stig og hefur ekki verið lægri síðan. Við sjáum að engu er að treysta - það munar hátt í 14 stigum milli áranna. Þó hlýtt hafi verið nú vitum við ekkert um næsta ár. - En enn kaldari 11. til 17. mars má þó finna á 19. öld í Stykkishólmi, lægsta talan er -11,1 stig, 1876. 

Reykjavíkurmyndina látum við ná aftur til 1780 - (en eyða er frá 1786 til 1829). Eyður eru í ferilinn frá 1855 til 1857, 1860 til 1869 og 1904 til 1906. 

w-blogg180316b

Meðalhiti nú var 5,1 stig og þarf að leita aftur til 1973 til að finna þessa viku jafnhlýja. Í Reykjavík var hún hlýjust 1964, 6,9 stig, en 6,7 stig bæði 1929 og 1880 - og 6,6 stig 1850 (ekki mjög áreiðanlegt). 

Í Reykjavík var sveiflan á milli 1929 og 1930 13,2 stig - meðalhiti vikunnar síðara árið var -6,5 stig. Kaldast var 1876 - eins og í Stykkishólmi, -9,3 stig. 


Illviðrafjöldi - erfið tímaröð

Breytingar á illviðra- eða stormatíðni er eitt þeirra atriða sem mikið er í veðurfarsumræðunni. Í reynd er mjög erfitt að búa til áreiðanlegar tímarraðir sem sýna breytileika þessa veðurþáttar. Ritstjóri hungurdiska reynir mikið - og telur sig svosem hafa náð nokkrum árangri nokkra áratugi aftur í tímann - en þegar lengra er sótt verður ísinn mjög háll og erfiður yfirferðar. 

En við lítum til gamans á eina tilraunina. Taldir eru saman þeir dagar á ári þegar vindhraði hefur náð stormstyrk (meir en 20 m/s) á fjórðungi veðurstöðva eða meira. Þessi röð er nú í hættu vegna fækkunar mannaðra stöðva - en mjög góð von er þó til þess að splæsa megi hana saman við samsvarandi röð sem fæst úr sjálfvirku mælingunum (sem eru þrátt fyrir allt áreiðanlegri) - líta má á þann samanburð síðar (leyfi þrek ritstjórans það). 

En hér er mynd. Hún nær allt aftur til 1912. Taka verður fram að ekki er hægt að bera tölur fyrri hluta tímabilsins og þess síðari saman á jafnréttisgrundvelli.

stormdagafj_1912-2015a

En við setjum þetta samt svona upp okkur til skemmtunar. Góð vissa er fyrir því að sveiflurnar frá því um 1960 séu raunverulegar - lágmarkið þá er raunverulegt. Lágmarkið á þessari öld er það líka. Síðustu tvö árin hafa aftur á móti verið fremur illviðrasöm - en ná samt ekki hámarkinu mikla í kringum 1990. 

Trúlega eru dagarnir vantaldir fyrir 1955. Mikil skil eru í gögnum árið 1949. Fyrir þann tíma (bláu súlurnar) er trúlegt að margfalda þurfi dagafjöldann með tveimur til að raunhæfur samanburður fáist - og fyrir 1925 er mjög lítið á tölurnar að treysta. En við sjáum þó töluverðar sveiflur á þessu fyrra tímabili. Við höfum þó á þessu stigi enga hugmynd um hvort margföldunarstuðullinn er 2 - eða eitthvað annað. 

Það er ekki að sjá að beinlínis sé samband á milli illviðrafjölda og hita - en á áreiðanlega hluta línuritsins eru rólegustu tímabilin jafnframt þau hlýjustu. Aftur á móti er eitthvað samband á milli illviðratíðninnar og loftþrýstings - því lægri sem loftþrýstingurinn er því fleiri eru illviðrin (að jafnaði) - sömuleiðis fylgjast ársmeðalvindhraði, þrýstióróavísir og illviðratíðni líka allvel að - á áreiðanlega tímabilinu. 

Um þrýstióróa, meðalvindhraða og samband þeirra var fjallað í pistli 26. janúar síðastliðinn og öðrum daginn eftir - óróavísirinn fiskar þó sum illviðri betur en önnur - rétt eins og veiðarfæra er vísa. Það mál látum við liggja á milli hluta - eða bíða betri tíma. 

En í raun bendir ekkert til þess að hnattræn hlýnun hafi hingað til haft áhrif á stormatíðni hér á landi - en haldið verður áfram að rannsaka málið - kannski þangað til menn komast að því að allt er í voða. 


Hófleg nördaspenna - öðrum nákvæmlega sama

Svo virðist sem hlýindin haldi í aðalatriðum áfram næstu daga (skrifað á mánudagskvöldi 14. mars). Þrýstifar og vindátt setja ákveðna spennu í stöðuna - það er t.d. ekki oft sem raunverulegur möguleiki er á meir en 10 stiga hita í Reykjavík í marsmánuði. Kannski er þetta óþarfa bjartsýni - og hitamet marsmánaðar varla í hættu í höfuðborginni - enda bara miður mánuður. 

Myndin sýnir hvaða dagur marsmánaðar á mánaðarhitamet allra veðurstöðva.

Hvaða dag mánaðarins hefur hiti orðið hæstur í mars allar veðurstöðvar

Lárétti ásinn sýnir mánaðardag, en sá lóðrétti hlutfallstölu dagsins - aðeins rúm 2 prósent stöðva eiga mánaðarmet þann 1., en um 12 prósent þann 24. Líkur á að dagur fyrir miðjan mánuð eigi metið eru aðeins um 13 prósent samtals. Líkurnar aukast síðan - langflest marsmetin eru sett síðustu 8 dagana. - Af einhverjum ástæðum er sá 30. heldur rýr í roðinu. 

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í mars er 20,5 stig, á Kvískerjum þann 29. árið 2012. Reykjavíkurmetið er 14,2 stig - sett þann 27. árið 1948 og Akureyrarmetið (16,0 stig) sett þann sama dag sama ár. Kraftaverkadagur. Staðan næstu daga er ekki óáþekk og var þá. Mikið háþrýstisvæði yfir Norðursjó teygir sig í átt til Íslands - en lægð suður af Grænlandi - nægilega langt í burtu til þess að hæðarsveigur sé á þrýstisviðinu - en nægilega öflug til að gera suðsuðaustanáttina nægilega öfluga til að hreinsa útgeislunarhitahvarfahroða burt alls staðar þar sem vindur stendur af landi - sjávarloftið áveðurs ræður enginn háloftahiti við. 

Nördin krossleggja fingur í bón um óskastund - en öðrum er auðvitað nákvæmlega sama. 


Hefði hlaupársdagur ekki ...

Hefði hlaupársdagur ekki skotist inn í dagatalið - hefði í dag verið 14. mars. Þann dag í fyrra gekk sunnan fárviðri yfir landið - hárastarveður á mállýsku ritstjóra hungurdiska. Veðrið í dag (ekki alveg jafnútbreitt og í fyrra) var líka hárastarveður. Lítum á myndir - góður dagahittingur.

w-blogg140316a

Þetta er þversnið úr harmonie-líkaninu - það fylgir 23 gráðum vesturlengdar (sjá kortið í horninu) - norður er til hægri á myndinni - gráu fletirnir neðst eru Snæfellsnes og Vestfirðir. Sniðið nær frá sjávarmáli upp í um 10 km hæð. Ljósbleika svæðið sýnir hvar vindur er meiri en 48 m/s, þetta er hes sem hangir niður úr heimskautaröstinni fyrir ofan og teygir sig í átt til jarðar. Við urðum fyrir hesi af þessu tagi 14. mars í fyrra. Fróðleiksfúsir gætu rifjað það upp og litið á pistil með myndum af því (þar eru líka ítarlegri skýringar).

Illviðrið í gær (12. mars) var annarrar ættar - hraðfara lágröst á leið hjá. Lágrastarveðrin eru fjölbreyttari ætt - og bakgrunnur þeirra nokkuð misjafn. Lágröstin er ekki eins öflug og sú hærri - en vindur niður undir jörð var þó ekki mikið minni.

w-blogg140316b

Þetta er sama snið - en kl.13 í gær (12. mars). Hér er vindhámarkið ekki efst í sniðinu heldur niðri í 850 hPa (um 1300 m). Gott dæmi um misjafnt veðraeðli.

En ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á hitabylgju dagsins. Hiti fór í 17,6 stig á Siglufirði nú í kvöld og í 10 stig eða meira á 48 stöðvum í byggð (af 107). Siglufjarðarhitinn er landsdægurmet og reyndar hæsti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á landinu fyrstu 26 daga marsmánaðar. Þetta er annað landsdægurmetið í mánuðinum - sem þó hefur ekki verið neitt sérlega hlýr, er nú 0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára í Reykjavík, en -0,4 undir því á Akureyri.

Þykktin var í kvöld í hæstu hæðum - nærri því hæsta sem vitað er um hér við land í mars.Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gilti kl.18 í kvöld.

w-blogg140316c

Á kortinu er þykktin yfir Norðurlandi meiri en 5520 metrar (þætti gott sumargildi). Í fljótu bragði finnst aðeins ein jafnhá tala í endurgreiningum - 18. mars 1979 (kuldaárið mikla) - í vestanlofti sem komið var yfir Grænland.  

Þetta er harla óvenjulegt. 


Milli lægða (eitt andartak)

Varla það. Hitamyndin hér að neðan er tekin rétt fyrir kl. 21 á laugardagskvöldi (12. mars). Lægðarsveipur laugardagsillviðrisins er rétt kominn norður af Vestfjörðum - en næsti blikubakki bankar á undan Suðurlandi - og kominn yfir þegar þessi pistill birtist.

w-blogg130316a

Örvar benda hér sitt á hvað (stækkið myndina til að sjá eitthvað betur til). Skemmtilegt kjölfar við Færeyjar (undir hvítustu háskýjunum), Holuhraun hið nýja (mun dekkra - hlýrra - en umhverfið). Gríðarlegar bylgjur og sennilega bylgjubrot við Strandir (þar var ofsaveður um það leyti sem myndin sýnir). Lægðarmiðju má kannski finna á Grænlandssundi - eiginlega orðin að klessu í látunum (önnur miðja - heillegri vestast á myndinni). Éljabönd - samsíða vindátt (vestasta örin) - áhrif frá næstu lægð eru að skipa fylkingum. Og síðan fremsta band nýja blikuskjaldarins rétt undan Suðvesturlandi - þar ryðst háloftavestanröstin til norðurs með látum. 


Skæðar lægðir?

Eftir frekar rólegt tímabil virðist órói framundan - að minnsta kosti í fáeina daga. Þegar þetta er skrifað er landsynningsstrengur á leið yfir landið - ekki svo mjög skæður en stormur samt á nokkrum stöðvum. Síðan snýst vindur á hefðbundinn hátt til suðurs og suðvesturs og svo virðist sem sá útsynningur eigi að verða nokkuð stríður - en ekki hefur mikið borið á útsynningi í vetur. 

Kortið gildir kl.6 á föstudagsmorgun og sýnir útsynninginn nokkurn veginn í hámarki - eða rétt að byrja að ganga niður.

w-blogg100316a

Ef trúa má hitatölunum verða él - en ekki skúrir - og gæti orðið blint í éljunum og nokkuð samfellt kóf á heiðavegum. En það hlýnar fljótt aftur því lægðin sem á kortinu er austur af Nýfundnalandi er á hraðferð í átt til landsins. Henni fylgir landsynningsveður á aðfaranótt laugardags. Aðaláhyggjuefnið er þó vestanáttin í kjölfarið. - En við sjáum hvað setur.

Svo er enn ein lægð í uppsiglingu - í hana sést alveg við jaðar kortsins neðst í vinstra horni. Reiknimiðstöðvar eru ósammála um afl hennar - en á þessu stigi málsins virðist hún varasöm - kemur á sunnudag eða sunnudagskvöld.


Sunnanátt næstu vikuna

Nú er spáð ríkjandi sunnanátt næstu vikuna - reyndar eiga að skiptast á mikil hlýindi af hásuðri og suðaustri og öllu svalari suðvestanátt - útsynningur. En hitavikin sem evrópureiknimiðstöðin sýnir okkur eru mikil.

w-blogg090316a

Lægðum er spáð fyrir vestan land. Að sögn verða sumar þeirra krappar og munum valda töluverðum vindi. Mikil hæð er yfir Norðursjó. Þær spár sem ná hvað lengst gefa í skyn að hún gæti þokast nær okkur þegar á líður - þá með hægari vindi - en áframhaldandi hlýju. 

Litirnir sýna hitavik í 850 hPa - kannski verða þau heldur minni í mannheimum - alla vega áveðurs á landinu þar sem loft að ofan blandast síður niður - nyrðra fer mikill varmi í að bræða snjó þannig að hárra hitatalna er helst að vænta þar sem snjór er lítill (óvíða), alveg niður við sjó eða rétt hjá háum fjöllum. 

En einhver él sýna sig sjálfsagt í útsynningi suma dagana. Nú er spurning hversu mikið fer af vetrarklakanum á láglendi.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 974
  • Frá upphafi: 2341348

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 892
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband