Hiti norðanátta í apríl

Þegar auðsveipur gagnagrunnur er við höndina er með mjög lítilli fyrirhöfn að framleiða allskonar vafasamt sull sem virkar samt trúlega. Það sem hér fer á eftir er þannig. Enginn ætti að taka því sem sannleika - miskunnarlaust er sparslað í götin með ódýru efni og síðan lakkað yfir. 

Til framleiðslunnar notar ritstjórinn þrjár heimagerðar töflur - þær eru í sjálfu sér ekki sem verstar - nokkuð gott fóður einar og sér. Það er blandan sem verður til við samsetninginn sem er varasöm. 

Töflurnar eru: (i) Hiti klukkan 9 að morgni í Stykkishólmi frá 1871 til 2023. (ii) Vindátt á svæðinu kringum Ísland (skipt á 8 áttir) eins og bandaríska endurgreiningin c20v2 (1871 til 1939) og era5 endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar (1940 til 2023) segja frá. Svæðið er „ferhyrningur“ milli 60°N og 70°N og 10°V og 30°V. (iii) reiknuð meðalvigurvindátt á landinu 1949 til 2023 (allar skeytastöðvar Veðurstofunnar). 

Við veljum þá daga aprílmánaðar þegar vindáttatöflurnar segja áttina hafa verið norðvestur, norður eða norðaustur og reiknum síðan meðalmorgunhita í Stykkishólmi fyrir þá daga í hverjum aprílmánuði fyrir sig. Talnaglöggir munu nú strax átta sig á því að tíðni norðanáttardaga er afskaplega misjöfn í apríl, allt frá einum eða hugsanlega engum - upp í alla daga mánaðarins. Vægi einstakra daga verður þannig mjög misjafnt. Síðan eru vindáttatöflunar tvær ekki endilega sammála um það hvaða daga norðanátt er ríkjandi - svæðin eru til dæmis misstór. 

Það fyrsta sem við lítum á er einmitt þessi talning - samanburður á töflunum tveimur.

w-blogg160424a

Apríldagafjölda endurgreininganna má sjá á lárétta ásnum, en vigurvindgreiningu stöðvanna á þeim lóðrétta. Árin eru 1949 til 2023. Við megum taka eftir því að endurgreiningarnar eru ívið linari við að lýsa því yfir að norðanátt hafi verið ríkjandi. Norðanáttadagafjöldi er lægri í þeirri töflu heldur en hinni. En samt sjáum við að í öllum aðalatriðum er samræmið samt harla gott. Það er 1953 sem leiðir fjölda norðanáttadaga í apríl á stöðvunum - frægur kuldamánuður (kaldasti mánuður ársins 1953 reyndar - eini aprílmánuður sem náð hefur í þann titil), 22 dagar með norðanáttum. Endurgreiningin segir dagana hafa verið 18 - og nefnir fleiri mánuði með þann fjölda. 

Síðan lítum við á hitann. Við sleppum því að líta á einstök ár - dagafjöldinn er alltof misjafn til þess - en veljum sjöárakeðju - meðalhita norðanáttardaga sjö aprílmánaða í röð - þó þannig að mánuðirnir eru jafnvægir (þetta væri hægt að laga). 

w-blogg160424b

Myndin sýnir niðurstöðuna. Endurgreiningarnar ná aftur til 1871 - þannig að við getum reiknað meðaltöl aftur til þess tíma. Blái ferillinn á hér við. Aftur á móti nær stöðvataflan ekki nema aftur til 1949 og sýnir rauði ferillinn þær niðurstöður. Í öllum aðalatriðum liggja ferlarnir saman (enda oftast um sömu daga að ræða). 

Nokkrar sveiflur eru fram til 1920, en síðan hlýnar aprílnorðanáttin um meir en 4 stig. Sú dýrð stóð þó ekki lengi, fljótlega kólnaði hún aftur og var um 1950 orðin ámóta lág og meðaltal fyrri tíma. Eftir kuldana um 1950 hlýnaði aftur - en ekki lengi og hafísárin tóku við. Síðan hefur hlýnað - sérstaklega eftir 1990 og síðustu árin hefur aprílnorðanáttahitinn verið um 3 stigum ofan við það sem var á unglingsárum ritstjórans. 

En segir þetta eitthvað eitt og sér? Best er að fullyrða sem minnst um það. Nánari athugunar væri þörf - ef eitthvað ætti að segja. Ritstjórinn heldur að sér höndum en minnir þó á að hann hefur á þessum vettvangi gert ámóta greiningu fyrir vetur og sumar - og fyrir landið í heild. 

Hér og nú er þetta einkum ætlað sem skemmtiatriði í þeim kalda apríl sem nú gengur yfir (og við vitum ekki hvar lendir - eða hvort norðanáttirnar eru að sýna einhvern annan svip heldur en að undanförnu). Það tekur enga stund að spyrja gagnagrunninn spurninga af þessu tagi - séu þær rétt orðaðar svarar hann umsvifalaust. Það tók hins vegar verulegan tíma og fyrirhöfn að búa grunntöflurnar til (ekki margir sem nenna að standa í slíkri galeiðuvinnu). 


Hálfur apríl

Fyrri hluti apríl hefur verið kaldur. Meðalhiti í Reykjavík er +0,9 stig, -2,0 neðan meðallags 1991-2020 og -2,6 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Þetta er næstkaldasta aprílbyrjun það sem af er öldinni í Reykjavík, kaldara var 2006, meðalhiti þá 0,4 stig. Hlýjastur var fyrri hluti apríl í fyrra, +5,3 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 117. hlýjasta sæti (af 152). Hlýjasta aprílbyrjun þess tímabils var 1929, meðalhiti þá +6,6 stig. Kaldast var hins vegar 1876, meðalhiti -4,1 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti það sem af er mánuði -2,0 stig og hefur sjö sinnum verið lægri síðustu 89 árin (en aldrei á þessari öld).
 
Á öllu svæðinu frá Breiðafirði, norður og austur um að Austurlandi að Glettingi er þessi aprílbyrjun sú kaldasta það sem af er þessari öld, en að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðurlandi þar sem hitinn raðast í 20. hlýjasta sæti (af 24).
 
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, minnst -1,4 stig í Önundarhorni undir Eyjafjöllum, en mest -5,4 stig í Svartárkoti.
 
Úrkoma hefur verið lítil í Reykjavík, aðeins 7,4 mm, fimmtungur meðalúrkomu, en hefur samt 13 sinnum mælst minni sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 40,2 mm, ríflega tvöföld meðalúrkoma. Á Dalatanga hafa mælst 47,3 mm, rúmlega 10 prósent neðan meðallags.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 105,4 í Reykjavík, um 30 fleiri en í meðalári og hafa aðeins 10 sinnum mælst fleiri sömu daga. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 58,7.
 
Eitthvað eru spár að gefa til kynna hlýnandi veður í lok vikunnar - en hafa svo sem gert það áður.

Bloggfærslur 16. apríl 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 102
  • Sl. sólarhring: 104
  • Sl. viku: 1477
  • Frá upphafi: 2351061

Annað

  • Innlit í dag: 88
  • Innlit sl. viku: 1280
  • Gestir í dag: 84
  • IP-tölur í dag: 82

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband