Hæstu hámörk - nördin undirbúa sumarið

Við lítum nú á lista yfir hæsta hita sem mælst hefur á (nærri því) öllum veðurstöðvum. Listinn er ógurlegur hrærigrautur lifandi og dauðra stöðva, mannaðra og sjálfvirkra, sem athugað hafa mislengi. Sumar meira en eina öld, en aðrar hafa varla náð árinu. Metingur um sjálfa hámarkstöluna er því  tilgangslítill. Heppilegast er að gera lista af þessu tagi áður en hlýna fer að ráði að vori - til að eiga til samanburðar - áður en ný met fara að skila sér. Jú, það er nánast víst að fjöldi meta fellur á sumri komanda - hvort sem það verður hlýtt eða kalt.

Listinn er allur í viðhenginu. Við skulum gefa gaum útgildunum á dagatalinu, á hvaða stöðvum hefur hiti orðið hæstur í maí eða september - eru þær einhverjar?

Það er ein stöð sem á sinn hæsta hita í maí - Hellissandur á Snæfellsnesi. Þar var athugað á tímabilinu 1934 til 1970, en hámarksmælir var ekki á staðnum fyrr en 1958. Þetta eru því ekki nema þrettán sumur sem liggja undir. - En á þessu tímabili mældist hæsti hitinn þann 12. maí 1960 klukkan 18, 18,7 stig. Það er hægt að trúa þessu því einmitt þessa daga 1960 standa fjöldamörg hitamet maímánaðar, t.d. Reykjavíkurmetið 20,6 stig sem mældist þann 14. kl. 18. Ströndin við ysta hluta Snæfellsness er ekki tuttugustigavæn, en þó komst hiti í 20 stig á mönnuðu stöðinni á Gufuskálum og síðan sjálfvirku stöðinni líka (sjá listann í viðhenginu).

Þann 2. júní 2007 fór hiti í 19,9 stig á Bjargtöngum og er það mesta sem þar hefur mælst. Þar sem mjög hlýtt var víðar á svipuðum slóðum er rétt að trúa þessari tölu.

Næstu fjögur snemmbæru hámörkin á listanum eru sett 9. júní. Þá virðist sumarið vera komið. Stöðvarnar eru Hjarðarnes í Hornafirði (1988, 23,7 stig) og sjálfvirku stöðvarnar við Patreksfjarðarhöfn, á Súðavík og í Gilsfirði. Allar settu sín met 9. júní 2002. Nördin muna þann góða dag vel. Dagurinn eftir, sá 10. 2002 var líka hlýjastur á fjórum stöðvum vestra, Breiðavík, Kvígindisdal og Þingmannaheiði - og aftur í Súðavík. Þar er ekki hægt að gefa öðrum deginum vinninginn umfram hinn. Þann 9. var hámarkshitinn mældur kl. 15 en þann 10. kl. 19.

Yfir á hinn endann. Það eru tvær stöðvar sem eiga sitt hámark í september, Dalatangi og Gufuskálar (mannaða stöðin). Dalatangahámarkið er orðið gamalt, frá 12. september 1949, 26,0 stig. Þetta er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í september. Við viljum samt meira.

Hæstur mældist hitinn á Gufuskálum 5. september 1984 (við lok rigningasumarsins mikla). Merkilegir þessir tveir septemberdagar.

Þann 2. september 2010 fór hiti á Seljalandsdal við Ísafjörð í 22,3 stig. Mjög hlýtt var á landinu þennan dag og talan gæti þess vegna verið rétt. En hafa verður þó í huga að Seljalandsdalsstöðin er ein af svonefndum hlíðastöðvum landsins en þar eru mæliaðstæður nokkuð frá því að vera eins og staðlar segja til um. Tölur frá þessum stöðvum eru því varla sambærilegar við aðrar.

Lítið er um hæstu hámörk önnur eftir 20. ágúst. Þau eru aðeins þrjú: Siglunes 27. ágúst 1976 (24,0 stig), Skriðuland  í Kolbeinsdal í Skagafirði 23. ágúst 1955 (21,9 stig) og Sandur í Aðaldal 22. ágúst 1947 (27,2 stig).

En lítið á listann í viðhenginu - þar er margt að sjá. Rétt að geta þess að leit að eldri metum stendur enn yfir og trúlega munu slík e.t.v. bætast við síðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1836
  • Frá upphafi: 2350572

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1639
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband