Venjulegri mars (heldur en janúar og febrúar)

Eftir alveg sérlega óvenjulega janúar- og febrúarmánuði, hinn lága loftþrýsting og þráláta austanáttina varð mars (2014) öllu venjulegri. Úrkoma var þó ofan meðaltals á þeim stöðvum sem yfirlit er nú þegar til um og meir en tvöföld meðalúrkoma á sumum stöðvum norðaustan- og austanlands. Hiti var yfir meðallagi um land allt, vikin voru mest austanlands, meir en 2 stig ofan meðallagsins 1961 til 1990, og einnig yfir meðallagi síðustu marsmánaða síðustu tíu ára.

Meðalvindátt var austlæg 19 daga en vestlæg 12. Norðlæg átt var 13 daga en suðlæg 18. Þessi staða mála sést vel á þrýstivikakortinu hér að neðan.

w-blogg030414a

Heildregnu línurnar sýna meðalþrýsting marsmánaðar en litirnir þrýstivikin. Þrýstingur er lægri vestur af landinu heldur en austanvið, en lágþrýstingurinn teygir sig austur um Ísland. Þrýstingur er neðan meðallags á stóru svæði. Í Reykjavík var hann 6,8 hPa undir meðallaginu 1961 til 1990, en á kortinu að ofan er miðað við 1981 til 2010.

Ástandið í háloftunum var mun nær meðallagi í mars heldur en í janúar og febrúar en samt má ráða af þykktarvikakortinu hér að neðan (litafletir) að enn hafi verið mun kaldara að tiltölu yfir Ameríku heldur en Evrópu.

w-blogg030414b

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins en strikalínur meðalþykktina. Af vikunum má greinilega sjá að hlýrra var fyrir austan land heldur en vestan. Vikin við austurströndina sýna um 40 metra - það er ekki fjarri tveimur stigum. Vik í neðri hluta veðrahvolfs og niður við jörð hafa því verið svipuð að þessu sinni. Vikið stóra yfir Evrópu er meir en fjögur stig ofan meðallags við hægri jaðar kortsins, en meir en er sex stigum undir því lengst til vinstri. Marshitinn í Noregi var langt ofan meðallags, fyrir Noreg allan var mánuðurinn þriðji hlýjasti mars sem vitað er um og víða sá allra hlýjasti í sunnanverðu landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 500
  • Frá upphafi: 2343262

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 454
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband