Barmafulla lægðardragið

Í pistli gærdagsins var minnst á lægðardrag sem kemur við sögu hér á landi um helgina. Hver saga þess þá verður er ekki vitað - en við skulum samt velta okkur aðeins upp úr hugsanlegum möguleikum.

En fyrst þarf að afgreiða næstu lægð - en hún myndast á Grænlandshafi síðdegis á morgun eða annað kvöld (fimmtudag). Kortið gildir kl. 21 en þá er lægðin rétt að verða til (ef trúa má reikningum). Hér hefur dönsk útgáfa samevrópska reiknilíkansins hirlam orðið fyrir valinu.

w-blogg280213a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), úrkomu (litafletir) og hita í 850 hPa-fletinum (strikalínur). Hæðin við Bretlandseyjar sem hefur beint til okkar hlýindunum undanfarna daga er enn á sínum stað og við sömu iðju. Í vesturjaðri hennar liggur mjög hlýr loftstraumur sunnan úr höfum og sveigir hann til Íslands þegar kortið gildir.

Við Norðaustur-Grænland liggur kalda loftið í leyni og einnig er kalt loft vestan Grænlands að þokast til austurs. Lægðin nýmyndaða er þarna að snarast út úr hitaskilum - en flestar lægðarbylgjur tengjast kuldaskilum. Þessi myndunarmáti er sérlega varasamur fyrir það að svona lægðir geta gert nánast hvað sem er - en oftast gera þær ekki neitt.  

Þegar sagt er að þær geti gert nánast hvað sem er er raunverulega átt við það. Þær geta dýpkað ógurlega, skotist fram á ofsahraða - eða hreyfst afturábak - til suðvesturs - þegar úrkomusvæði og skil virðast eiga að skila þeim í venjulega norðausturátt. Eða þá allt þar á milli.

En tölvuspárnar hafa náð mun betri tökum á þessum lægðum heldur en mögulegt var að ná á árum áður - því er hægt að taka þeim með ró.

Lægðin sem er að myndast á kortinu að ofan fer eðlilega leið - hratt til norðausturs, síðan austur og austsuðaustur. Hún dýpkar ekki að ráði fyrr en hún er komin framhjá Íslandi og veldur ekki vanda hér. Á sólarhring er dýpkunin 26 hPa - telst því sprengilægð að amerískum hætti. Ofsaveður verður vestan lægðarmiðjuna klukkan 21 á föstudagskvöld þegar kortið að neðan gildir - en langt frá Íslandi.

w-blogg280213b

Á þessu korti á sérstaklega að taka eftir hæðunum tveimur. Önnur þeirra er hæðin við Bretlandseyjar, 1035 hPa í hæðarmiðju. Þetta er hlý hæð og loft streymir í stórum dráttum í kringum hana sammiðja upp í gegnum allt veðrahvolfið.

Hin hæðin er við Norður-Labrador, 1048 hPa í miðju. Hún er köld sem kallað er. Bláa örin vestan Grænlands sýnir vindstefnu í efri hluta veðrahvolfs. Þar er suðvestanátt - í öfuga stefnu við norðaustanáttina sem hæðin við sjávarmál stýrir. Ofan hæðarinnar er háloftalægð - eða öllu heldur lægðardrag suður úr kuldapollinum Stóra-Bola. Þetta lægðardrag er meir en barmafullt af köldu lofti og flæðir yfir barmana. Háloftalægðardrag sem er nákvæmlega fullt af köldu lofti sýnir sig sem marflatt þrýstisvið við sjávarmál, sé það ekki fullt birtist þar lægð.

En hér er hæð undir lægðardraginu, það er fullt af köldu lofti - nokkuð einfaldað má segja að það flæði úr því til allra átta - þar er hæð.

Gríðarlegur hitamunur er á milli hæðanna tveggja. Hann kemur vel fram á kortinu að neðan en þar má sjá ástandið í 500 hPa á sama tíma og á kortinu að ofan (klukkan 21 á föstudagskvöld 1. mars).

w-blogg280213c

Hér sést gríðarlegur vindstrengur yfir Grænlandi og hneppi af jafnþykktarlínum (rauðar, strikaðar) á sama stað. Þykktin í miðju Stóra-Bola er um 4780 metrar - rétt ofan „ísaldarþykktar“. Yfir Íslandi suðaustanverðu má sjá 5400 metra jafnþykktarlínuna (aðeins 60 metra neðan við hefðbundna sumarþykkt hér á landi). Munurinn er 620 metrar - gróflega um 30°C. Lægðardragið suður af miðju kuldapollsins hreyfist til austurs og „verpir eggi“ - lægðardragið teygir sig til suðurs og þar myndast ný háloftalægð.  

Nú er því spáð að önnur lægð myndist á Grænlandshafi á laugardag - á svipaðan hátt og sú fyrri, með góðum vilja má setja hitaskil í úrkomusvæðið mjóa syðst á Grænlandshafi. Um þessa lægð er ekki enn samkomulag nema hvað að hún á að myndast á laugardag. Evrópureiknimiðstöðin er nú á því að hún dýpki nokkurn veginn þar sem hún myndast vestur af Íslandi. Ofsaveður verði á Grænlandssundi síðdegis á sunnudag og stormur nái inn á Vestfirði þá um kvöldið eða á mánudag. Síðan á lægðin að bakka til suðvesturs, föst í bandi háloftalægðarinnar. Þegar hún fjarlægist jafnar staðan sig og hugsanlega kemur hlýja loftið aftur.

Ameríska spáin nú í kvöld (miðvikudag) býr líka til lægð á sama stað en hún á að þokast til suðausturs. Það þýðir að vindstrengurinn nær yfir allt Ísland á mánudag en jafnast heldur, en meira af köldu lofti kemur að norðan og er þessi kvöldgerð amerísku spárinnar heldur ólíkleg - því hún gerir ráð fyrir norðanhvassviðri, éljagangi og 8 til 9 stiga frosti í Reykjavík á mánudagskvöld - heldur ólíklegt nema hvað?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 206
  • Sl. sólarhring: 334
  • Sl. viku: 2031
  • Frá upphafi: 2350767

Annað

  • Innlit í dag: 189
  • Innlit sl. viku: 1817
  • Gestir í dag: 185
  • IP-tölur í dag: 185

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband