Enn í kanadakulda

Aðalatriði veðurlagsins breytast lítið þessa dagana. Stórar lægðir - nú eða þá krappar ganga hratt til austurs og norðausturs um Atlantshaf - hver þeirra með sínum sérkennum, en aðalleið þeirra svipuð. Helst er þó að öllu stærri hluti kerfanna fari til austurs fyrir sunnan land næstu vikuna heldur en þá liðnu. 

w-blogg070115a

Í fljótu bragði er 10-daga spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar nánast eins og fyrir viku. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Munur er þó á kortunum. Fyrir viku var það 5160 metra jafnhæðarlínan sem lá yfir miðju Íslandi frá suðvestri til norðausturs. Nú er það 4950 metra línan sem liggur á svipuðum stað og hin gerði. Þetta er mikill munur [310 metrar] - svo er líka áberandi meiri lægðarbeygja á línunum heldur en var. Hvorugt skiptir miklu máli á þessum árstíma - fyrir ásýnd veðursins.

Jafnþykktarlínurnar eru strikaðar á kortinu. Fyrir viku var þykktin yfir miðju landinu um 5240 metrar en er hér um 5190 metrar - fellur um 50 metra milli spátímabila. Það þýðir - eitt og sér - að tíu daga spáin nú er um -2,5 stigum kaldari heldur en var þá. Litirnir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010 og er vikið yfir Íslandi nú um -50 metrar - en var innan við -10 metrar fyrir viku. Hita er því spáð neðan meðallags næstu tíu daga - að meðaltali. Loft sem komið er frá Kanada og hefur farið fyrir sunnan Grænland er alltaf mjög óstöðugt þegar hingað er komið - éljagangur viðloðandi - það er því tiltölulega hlýtt neðst - miðað við loftið ofar - og þykktin ýkir því neikvæð vik frekar en hitt. 

Enn er það gríðarlegur kuldi í Kanada [þykktarvikið er tæpir -180 metrar þar sem mest er] og vestanáttin austur af honum sem ræður mestu um ásýnd vikakortsins. 

Að þykktin falli um 50 metra þegar hæðin fellur um 310 þýðir að loftþrýstingur við sjávarmál er spáð um 260 metrum að jafngildi lægri að meðaltali heldur en í spánni fyrir viku síðan. Það reiknast sem rúmlega 32 hPa munur. Loftþrýstingi er sum sé spáð miklu lægri heldur en var fyrir viku - enda á þrýstivikið að vera meira en -25 hPa næstu tíu daga. Það verður að teljast harla óvenjulegt (en er ekki einsdæmi). 

Lægðin sem nú er við landið er dýpri en 940 hPa (við sjáum á morgun, miðvikudag, hvort þrýstingur hér á landi fer niður fyrir það). Lægð sem spáð er hingað til lands þegar líður á helgina á að verða ámóta djúp. 

Þrátt fyrir þennan lágþrýsting allan sleppum við tiltölulega vel frá þessu (enn sem komið er). Þetta risaþrýstivik veldur gríðarsterkri vestanátt á öllu svæðinu frá Kanada austur um Bretlandseyjar. Á þeirri leið geta myndast mjög krappar lægðir - sem við vonandi sleppum við - en Vestur-Evrópa er í stöðugri skotlínu. Reiknimiðstöðvar eru óskaplega reikandi varðandi þróun þessara minni lægða - ýmist er ekkert gert úr - eða þá að spáð er ofsaveðri á þeim slóðum. Hryggurinn sem verndað hefur Evrópu fyrir ásókn vestanlofsins virðist nú vera að brotna niður - og menn krossleggja fingur. 

Í janúar í fyrra var líka kuldastroka frá Kanada austur um Atlantshaf - en þá var þrýstivikið mest um 10 gráðum sunnar en nú er - og austanátt var ríkjandi hér á landi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 38
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 1413
  • Frá upphafi: 2350997

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1228
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband