Enn ein sprengilægðin (og fleiri verða þær í syrpunni)

Sprengilægð er ekki gott orð og verður að biðjast afsökunar á notkun þess í fyrirsögn - en þetta er hrá (eða lítt soðin) þýðing á enska heitinu „bomb“, sem orðasafn bandaríska veðurfræðifélagsins skilgreinir um það bil svona:

Lágþrýstisvæði (utan hitabeltis) sem dýpkar um meir en 24 hPa á einum sólarhring (meir en 1 hPa/klst að jafnaði).  Skilgreiningin kom fyrst fram opinberlega í grein sem þeir Frederic Sanders og John R. Gyakum birtu í tímaritinu Monthly Weather Review 1980 [180, s.1589 til 1606].  Greinin á að vera opin á netinu. Taka má eftir því að í illþýðanlegri fyrirsögn hennar er orðið „bomb“ haft í gæsalöppum - enda subbulegt. Það sló samt í gegn í enskumælandi löndum og víðar. 

En hvað um það. Um helgina fjölluðu hungurdiskar um kröftuga lægð sem aldeilis féll undir þessa skilgreiningu, Hún dýpkaði um 53 hPa á einum sólarhring, 40 hPa á 12 klukkustundum og 15 á þremur klukkustundum. Sömuleiðis var fjallað um nokkur einkenni lægðadýpkunar af þessu tagi. Nú er ný lægð á svipuðum slóðum - ekki alveg jafn öflug - og rétt að hamra á að minnsta kosti einu einkennisatriði.

Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðugleika veðrahvolfsins og gildir hún kl. 9 á miðvikudagsmorgni, 23. janúar.

w-blogg230113a

Ef vel er að gáð sjást útlínur Íslands efst í hægra horni kortsins og Nýfundnaland er vinstra megin við miðju þess. Hér er fleygur lágra veðrahvarfa að ganga til austurs á móts við fleyg af röku og hlýju lofti. Þetta er hin kröftuga blanda. Fjólublái liturinn sýnir svæði þar sem mættishiti veðrahvarfanna er lægri heldur en mættishiti í 850 hPa yrði - ef allur raki þess þéttist (dulvarmi loftsins losnaði). Kort þetta hefur þann kost að hér sjást bæði þessi mikilvægu atriði sprengjuuppskriftarinnar í sjónhendingu.

Lægðarmiðjan er samkvæmt spánni um 963 hPa á þessum tímapunkti en á korti sem gildir klukkan 18 er hún komin niður í 952 hPa, hefur dýpkað um 11 hPa á 9 klukkustundum - En mesta 24 klukkustundadýpkunin er samkvæmt spánni 37 hPa, vel inni á „sprengjusvæðinu“.

Gríðarlegur vindur fylgir - litlu minni en var í helgarlægðinni. Í 850 hPa má sjá 55 m/s þar sem mest er.

w-blogg230113c

Þetta kort gildir klukkan 21 á miðvikudagskvöld og sýnir það hæð 850 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Vindur er sýndur á hefðbundinn hátt með vindörvum og lituðu svæðin sýna lágskreið hitahvörf - þar á meðal skilasvæði. Lægðin grynnist nokkuð ört eftir þetta en spár benda til þess að úrkomusvæði hennar nái alveg til landsins um síðir - trúlega síðdegis á fimmtudag.

Fleiri „sprengjur“ eru að taka mið, jafnvel fleiri en ein. Ástand sem þetta er í boði kuldapollsins mikla yfir Kanada (Stóra-Bola) en hann sendir hvert kuldaskotið á fætur öðru út yfir hlýtt Atlantshafið um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki alltaf kuldapollur yfir Kanada á vetrum (þ.e. "myndun" kalds lofts) og er ekki Atlandshafið alltaf hlýtt (miðað við hann)?

Er þannig hægt að tala um það sem sérstaka ástæðu þessara sprengilægða, ekki frekar en segja að sólin sé jú á bak við þetta allt?

Hver er ástæða þess að svo ber til um þessar mundir?  

Síðasta heimskautalægð var óvenju stór og óvenju sunnarlega sem olli óvenjulega miklum snjó t.d. á Bretlandi hvað gerði hana svona óvenjulega annað en myndun kalds lofts yfir Kanada og Golfstraumurinn sem eru jú ekkert óvenjuleg fyrirbæri?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 23.1.2013 kl. 06:33

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú, það er rétt Bjarni að oftast er kuldapollur yfir Kanada á vetrum. Hins vegar er hann mjög misöflugur, misstór og liggur misjafnlega við. Lega hans og tilheyrandi lægðardrags vestur af Grænlandi ræður miklu um veðurlag hér á landi. Meira en flest annað. Sprengilægðirnar verða til úr nokkrum þáttum - myndun þeirra er greiðust þegar kuldapollurinn er austarlega - eða þá að hann er óvenju stór - eða þá að hann sendir kalt loft í mátulegum skömmtum og með mátulega löngu millibili út yfir Atlantshaf. Sólin fóðrar veðrakerfið á orku - en mjög margt annað mótar vegi orkunnar, m.a. árstíðasveiflan, afstaða meginlanda og hafs auk efnasamsetningar lofthjúpsins.

Staða sem þessi kemur upp öðru hvoru - og þá erum við stundum í leið mestu illviðranna en ekki nú alla vega ekki enn. Sprengilægðirnar lenda af krafti á okkur þegar kuldapollurinn er í fremur austlægri stöðu - jafnvel rétt vestan við Grænland. Smáatriðin skipta miklu máli jafnvel þótt hér gangi á með sumri og vetri á víxl. Ekkert ár er eins jafnvel þótt Golfstraumurinn og Kanada séu alltaf á sama stað. Ef sólin réði veðurfarinu alveg ein væri meðalhiti hér á landi um 50 stigum lægri heldur en hann er (talan 50 er ekki prentvilla). Golfstraumurinn einn og sér bjargar líka litlu í því samhengi.

Helgarlægðin djúpa og mikla var tæknilega séð ekki heimskautalægð heldur bylgjuættar. Heimskautalægðin sem myndaðist sunnan við hana var miklu grynnri og veigaminni.

Trausti Jónsson, 24.1.2013 kl. 01:48

3 identicon

Hefur ekki líka áhrif að sjórinn útaf austurströndum BNA og Kanada og til Íslands er mun heitari en í meðalári (1971-2000):

NOAA weekly-sst

Bolli (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 02:28

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú, Bolli, það munar víst um það.

Trausti Jónsson, 26.1.2013 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 203
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 2028
  • Frá upphafi: 2350764

Annað

  • Innlit í dag: 186
  • Innlit sl. viku: 1814
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband