Mikill munur á hæsta hámarki og lægsta lágmarki dagsins (28. nóvember)

Á vef Veðurstofunnar má á hverjum degi sjá yfirlit yfir hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita sem mælst hefur á sjálfvirkum stöðvum á landinu þann dag. Sömuleiðis síðasta klukkutímann.

Skipt er um sólarhringa eftir athugun kl. 24 og byrjað að telja upp á nýtt. Athugunin kl. 24 er talin sú síðasta á sólarhringnum en ekki merkt kl. 00 þann næsta. Ástæður eru tvær - önnur er sú að athugunin kl. 24 nær strangt tekið yfir tímann 23:50 til 24:00 - en hin er sögulegs eðlis. Mikið er þrýst á að þessu verði breytt, 24 í dag verði kl. 00 á morgun - alþjóðavæðingin í öllu sínu veldi - sókn í átt til framtíðar (1 sekúnda). Sjálfsagt verðum við einn daginn búin að samþykkja þessa breytingu án þess að vita af því. Er það í stíl við reglugerðahríðina sem stöðugt stendur að utan og virðist lítið við að gera. Tugabrotakomman mun fljótlega fara sömu leið og hinn alþjóðlegi (les: ameríski) punktur taka við - okkur er sagt að skiptin séu skynsamleg - svo hlýtur því að vera. En hættum þessu fjasi og lítum á tölur.

Í dag (28. nóvember) mældist hæsti hámarkshiti dagsins við Blikdalsá (eða Blikadalsá), 10,5 stig, en lægsta lágmarkið í Möðrudal -15,7 stiga frost. Munurinn er 26,2 stig. Hæsti hiti á almennri sjálfvirkri stöð mældist 9,0 stig á Lambavatni á Rauðasandi og í Hvammi undir Eyjafjöllum, 24,7 stigum ofan við lágmarkshitann í Möðrudal.

Einhvern veginn er tilfinningin sú að þetta sé óvenju mikið. En er það svo? Talning var gerð á tilvikum sem þessum síðustu 12 árin og í ljós kom að munur á lægsta lágmarki og hæsta hámarki hefur 506 sinnum mælst meiri en 24 stig, rúmlega 40 sinnum á ári að meðaltali, tíunda hvern dag (gróflega).

Algengast er þetta að vetrinum og fram eftir vori. Það er apríl sem á flest tilvikin síðustu 12 árin, 76 talsins (rúmlega 8 sinnum á ári að jafnaði). Það hefur hins vegar aðeins einu sinni gerst í ágúst á þessu tímabili að munað hafi meira en 24 stigum á hæsta hámarki og lægsta lágmarki dagsins.

Ef til vill gefst tækifæri til þess síðar að gera betri grein fyrir árstíðasveiflu og fleiru varðandi mun á hæsta hámarki og lægsta lágmarki. Hér skal þó upplýst að munurinn var aðeins 6 sinnum minni en 12 stig og aldrei minni en 10 á tímabilinu 2001 til 2012 og 23 sinnum meiri en 32 stig. Taka skal fram að þessar tölur eru allar án heilbrigðisvottorðs. Það hefur frést frá nágrannalöndum að nú taki meiri tíma að gefa út heilbrigðisvottorð veðurathugana heldur en að vinna úr þeim að öðru leyti. - Jæja - þetta eru e.t.v. dálitlar ýkjur en samt var forstjóri norsku veðurstofunnar að kvarta í opnu bréfi á vef hennar fyrir um það bil viku eða svo. Taldi hann vottunaræði vera farið að koma niður á gæðum veðurspáa þar í landi. Excelbólgan (excelitis) lætur ekki að sér hæða en hún er hægfara, ævirkur, framsækinn sjúkdómur og virðist engin lækning vera til - því miður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hárrétt niðurstaða Trausti: "Excelbólgan (excelitis) lætur ekki að sér hæða en hún er hægfara, ævirkur, framsækinn sjúkdómur og virðist engin lækning vera til - því miður." Helstu Excelveðurfarssnillingarnir virðast eiga auðvelt með að reikna sig niður á hnatthlýnun á tímum 16 ára stöðnunar.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.11.2012 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 370
  • Sl. viku: 1845
  • Frá upphafi: 2350581

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1648
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband