Tvískiptur nútími? (söguslef 20)

Nútíma (í jarðfræðilegum skilningi tímabilið frá lokum síðasta jökulskeiðs) hefur óformlega verið skipt upp í tvö megintímabil. Annars vegar er hinn „hlýi“ fyrri hluti hans frá því fyrir um 9000 árum til 4500 ára fyrir okkar tíma og hinn kaldi hluti síðan þá. Í skrifum greinir þó mjög á um þessar tímasetningar. Fyrri hlutann köllum við „bestaskeið“ en hinn síðari „nýísöld“ en ýmis nöfn sjást á skeiðunum.

Í grein (Wanner og félaga, 2008) sem fjallað var um í síðasta slefi birtist mynd sem sýna á einkenni veðurlags þessara tveggja hluta nútíma á ýmsum stöðum í heiminum. Þarna var öllu troðið á eitt heimskort. Nýlega birtist stuttur pistill í fréttariti Pages-verkefnasamsteypunnareftir Wanner og félaga hans Stefan Brönniman þar sem myndin hafði verið tekin í sundur - í hvort tímabil fyrir sig (Pages news vol. 20. nr.1). Við skulum nú líta á íslenska endurgerð þessara mynda.

w-blogg130412a

Stækka má myndina með því að smella sig inn í hana í tvígang. Eftir myndinni miðri liggur strikalína sem markar svonefnd hvelamót (ITCZ) sem sýna hér í grófum dráttum mörkin milli „áhrifasvæða“ norður- og suðurhvels þegar sumar er á norðurhveli. Það einkum tvennt sem vekur athygli á myndinni. Í fyrsta lagi hlýindi á norðurhveli og svali á suðurhveli (nema á Indlandshafi) og í öðru lagi norðlæg lega hvelamótanna.

Hin norðlæga lega þeirra yfir Norður-Afríku er að staðfestast betur og betur - enda voru þar mikil vötn þar sem nú er þurrasteppa eða eyðimörk. Legan yfir Karabíska hafinu er svo norðlæg að það tekur á trúverðugleika. En við skulum bara trúa myndinni.

Rakinn í Mið-Asíu er líka merkilegur - en staðreynd. Ekki mun algjört samkomulag vera um hvers vegna þetta var. Við veltum okkur ekki upp úr því. Hér er orðið misserishringrás notað yfir það sem oftast er nefnt monsún. Myndin sýnir tilgátu um að hún hafi verið öflugri á þessum tíma heldur en nú. Varla eru allir sammála um það.

Norður- og Suður-Ameríka eru taldar hafa búið við meiri þurrka heldur en nú og sömuleiðis norðurströnd Ástralíu. Kalt var í austanverðu Kyrrahafi - sumir segja að El Nino hafi alveg legið í dvala. Hér á landi  var hlýtt - sem og á Grænlandi. Hvort það gildir í jöfnum mæli um sumar og vetur er ekki víst.

w-blogg130412b

Nafnið nýísöld kann að vera í sterkara lagi, en þetta er þó nokkurn veginn bein þýðing á enska orðinu neoglacial en það er í raun og veru mikið notað. Fyrst þegar farið var að nefna þetta tímabil sérstaklega - fyrir 1940 var nafnið litla-ísöld einnig notað - en nú hefur því verið stolið í annað.

Á myndinni eru hvelamótin mun sunnar en á fyrra skeiði og Sahara situr í þurrkinum. Chad-vatn er aðeins svipur hjá sjón - en hefur samt ekki alveg þornað upp. Vonandi sleppa þeir sem þar búa við þær hörmungar. Hér hafa þurr og rök svæði skipst á um búsetu frá fyrri mynd. Af einhverjum ástæðum er svalt í Suður-Afríku á báðum myndum - hvenær þar var hlýtt kemur ekki fram. Hér er El Nino talinn í þeim gír sem við þekkjum.

Heinz Wanner skrifaði fyrir rúmum áratug (með fleirum) ágæta samantektargreinum NAO-fyrirbrigðið og er það honum kært. Hann hefur því sett NAO-plús með spurningarmerki á bestaskeiðskortið en NAO mínus á nýísaldarmyndina. NAO plús þýðir mikinn lægðagang til austurs um Atlantshaf norðanvert, en syðri lægðabraut er oftast talin ríkja við NAO-mínus ástand. En við ættum að hafa í huga að NAO-vísindin eru ekkert sérstaklega langt komin.

WANNER, H., J. BEER, J. BÜTIKOFER, T.J. CROWLEY, U. CUBASCH, J. FLÜCKIGER, H.GOOSSE, M. GROSJEAN, F. JOOS, J.O. KAPLAN, M. KÜTTEL, S.A. ÜLLER, I.C.PRENTICE, O. SOLOMINA, T.F. STOCKER, P TARASOV, M. WAGNER and M. WIDMANN,2008: Mid- to Late Holocene climate change: an Overview, Quaternary Sci. Rev., 27, 1791-1828, DOI:10.1016/j.quascirev.2008.06.013.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Guðlaugsson

Mjög áhugavert.

Þetta virðist gefa í skyn að með hækkandi hita muni hvelamótin að jafnaði þokast norður og að raki muni þá t.d. aukast á Sahel-svæðinu og Sahara. Eða eru fleiri breytur að baki ástandinu á "bestaskeiði" sem réðu því?

Óskar Guðlaugsson, 13.4.2012 kl. 13:00

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er ekki á hreinu hvað hvelamótin munu gera í hlýnandi veðurfari. Hlýindin á bestaskeiði voru af öðrum uppruna heldur en hlýindi vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa yrðu. Sól var nær jörðu á sumrin (miðað við norðurhvel) heldur en nú er og er þeirri stöðu kennt um norðurfærstu hvelamótanna. Nú er sól næst jörðu þegar vetur er á norðurhveli.

Trausti Jónsson, 14.4.2012 kl. 02:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 32
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 1630
  • Frá upphafi: 2350907

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 1428
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband