Molar um nokkur maímet (stagl)

Við lítum hér á nokkur maímet.

Mánaðarmeðalloftþrýstimetin eru orðin ansi gömul - ef trúa skal. Maí 1875 á lægsta meðalþrýstinginn. Ekki hefur rignt meira í maí í Stykkishólmi síðan. Í hnotskurnarlista mínum segir: Sæmileg tíð fram undir miðjan mánuð,en síðan hrakviðri og rigningar, snjóahret nyrðra. Jæja.

Hæstur varð meðalþrýstingurinn í maí 1840. Þetta ár var einkennilega blandað, ýmist í ökkla eða eyra. Af maí sjálfum fara ekki miklar fréttir nema að hiti og úrkoma voru ekki langt frá meðallagi í Reykjavík.

Mér kemur sjálfum á óvart þegar reikningar mínir sýna að maí 1971 sé sá úrkomusamasti á landinu í heild (miðað er við tímann frá og með 1924), 60% allra mælidaga (allra stöðva) voru úrkomudagar. Þá segir í hnotskurn minni: Hagstæð tíð um land allt. Það er einmitt þannig sem menn vilja hafa það á vorin, raka með sæmilegum hlýindum. Maí 2004 telst hins vegar sá úrkomusamasti á Norðausturlandi, þá segir: Fremur kalt framan af, en síðasta vikan var óvenju hlý um mikinn hluta landsins. Sólarlítið var norðanlands.

Maí 1991 er talinn sá úrkomusamasti á Vesturlandi. Hagstæð tíð, en óvenju úrkomusöm um mikinn hluta landsins. Nokkuð þungbúið sv-lands. Hlýtt. Á Suðurlandi hefur maí 1970 vinninginn sem sá úrkomusamasti. Þá er tíð talin óhagstæð, nema austan- og suðaustanlands.

Maí 1931 er talinn sá þurrasti á landinu. Hægviðrasamt, en óvenju þurrt og fór gróðri lítið fram. Sennilega hefðu nútímamenn verið ánægðir með þetta. Úrkoma mældist engin á veðurstöðvunum á Hvanneyri, Hesteyri, Akureyri og í Grímsey (hvernig er með þessar eyrar)? Sami mánuður er talinn þurrastur á Vesturlandi, en á Norðausturlandi er maí 1933 talinn þurrari og á Suðurlandi er maí 1958 talinn þurrastur. Man einhver eftir því?

Mesta 24-stunda úrkoma sem mælst hefur var í mæli á Kvískerjum í Öræfum þann 16. 1973 og þar er sömuleiðis mesta mánaðarúrkoman í maí, 538,4 mm, 1978.

Lægsti loftþrýstingur í maí mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 13. árið 1956, 967,3 hPa. Það er merkilegt að lægsti þrýstingur í júní er mun lægri en þetta og bendir til þess að einhvern tíma í framtíðinni bíður lægð óþreyjufull eftir því að komast að með sín 960 hPa eða minna. Hvenær henni verður hleypt að vitum við ekki.

Óvenjulega umhleypingasamt var í maí 1956 og gengu fáeinar mjög krappar lægðir yfir landið. Í tilraun til að setja maíhvassviðri í topptíuveðra lista er vestanveðrið 27. og 28. maí það versta, en norðanveðrið þann 15. 1956 lendir í 2., 3. eða 5. sæti síðustu 60 ára - eftir því hvernig talið er. Það er ekki alveg auðvelt að búa til lista um illviðri sem allir geta sameinast um.

Hæsti þrýstingur sem við vitum um í maí er 1045,0 hPa þann 18. 1894. Lítum að lokum á kort úr tuttugustualdarendurgreiningunni:

w-blogg110511

Veðurkort um hádegi 18. maí 1894. Þá mældist þrýstingur hærri en fyrr eða síðar í maí hér á landi. Tölurnar eru hæð 1000 hPa-flatarins í dekametrum, en hvert hPa samsvarar 0,8 dekametrum. Sá hringur sem merktur er 360 er 1045 hPa jafnþrýstilínan.

Við sjáum að greiningin virðist ofreikna þrýstinginn lítillega. Ég sé ekki á myndinni hvort litli hringurinn yfir Norðausturlandi er 1050 hPa línan eða 1045 hPa. En þetta er gríðarlegt háþrýstisvæði enda segir um mánuðinn í hnotskurnartextanum: Þurrviðrasamt, svo háði gróðri, úrkoma mældist 9 mm í Stykkishólmi, 15 í Reykjavík og 18 á Teigarhorni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fyrst þú spyrð, þá man ég alveg sérlega vel eftir maí 1958. Þá var alltaf sól en kalt (að því er mér varð ljóst löngu seinna). Ég var að koma úr fotbolta af Landakotstúni um kl 2 e.h. þ, 5. þegar ég sá eldtungur út um glugga á Bárugötu 13  þar sem Úlfar Þórðarson augnlæknir bjó. Rétt á eftir kom slökkviliðið. Fólk fór að bera út húsgögn. Nokkur seinna, þ. 17. og þá var rigning, lenti strætó og jeppi í hörðum árekstri á horni Vesturgötu og Ægisgötu og jeppinn hentist á hornhúsið svo kom dæld í bárujárnið. Húsið var nokkrum metrum frá þar sem ég átti heima á esturgötu. Nora Brocksted var að halda tónleika í Reykajvík. Í Tjarnarbíói var verið að sýna myndina Die Madels von Immenhof sem var um tvær hestastelpur og voru hestarnir íslenskir. Klímaxinn var þegar kviknaði í hesthúsinu. Ég sá myndina oft því ég varð svo skotinn í annarri stelpunni sem var Heidi Bruhl sem seinna varð þekkt leikkona en er nú dáin. Liberace var í Austurbæjarbíói. Enginn vissi þá að hann væri hommi og myndi deyja úr eyðni. Botvinnik endurheimti heimsmeistaratitilinn í skák af Smysslov. De Gaulle fékk völdin í Frakklandi. Stórt skemmiferðarskip, Metor, kom í höfnina og ég sá það. Haukur Morthens og Jónas Jónasson stjórnuðu Lögum unga fólksins þ. 27. í síðasta sinn saman óg ég heyrði það auðvitað!  Everly Brothers voru á toppnum í USA með All I have to do is dream sem ég hlustaði á í kananum en á laugardagskvöldum kl. hálf tíu var alltaf Hit Parade með 10 vinsælustu lögunum. Elvis var kominn í herinn. KR varð Reykjavíkurmeistari í fótbolta í blálok mánaðarins með því að vinna Fram 2:1 á Melavelli.  Og ég var þar. Og síðasta daginn vann Akranes úrval úr Reykjavík 4:1. Og ég var náttúrlega lika þar. Já, ég man þetta allt eins og það hafi gerst í gær!

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.5.2011 kl. 01:15

2 identicon

http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html

Það skyldi þó ekki verða niðurstaðan að við fáum veðurmet í kulda í þessum maímánuði?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 11.5.2011 kl. 11:16

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Maí 1958 er mér minnisstæður fyrir það að þá hófst skólaganga mín. Ekki var langt að fara fyrstu árin og var ég þar í góðum höndum. Ekkert man ég af þeim atburðum sem Sigurður nefnir og Liberace varð mér ekki kunnugur fyrr en um 15 árum síðar - en Elvis var maður sem mark var takandi á og gekk á öllum plötuspilurum hvort sem þeir voru handsnúnir eða rafknúnir. Bláu HMV-plötumiðarnir vekja ætíð hlýjar minningar. Þorkell: Framtíðarspár gefa nú til kynna að kuldatíð fari í hönd eins og þú bendir á - en vonandi er lítið á þeim að byggja - allt umfram 5 daga skal taka sem gott skemmtiatriði rétt eins og spár í bolla.

Trausti Jónsson, 12.5.2011 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 93
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 1468
  • Frá upphafi: 2351052

Annað

  • Innlit í dag: 80
  • Innlit sl. viku: 1272
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband