Daglegur lágmarkshiti 2010

Í gær litum við á daglegan hámarkshita á landinu á árinu 2010. Við skiljum lágmarkshitann ekki eftir. Þar er alltaf vandamál að greina á milli láglendis og hálendis eða byggða og óbyggða.

Þegar kuldar eru miklir á vetrum er reyndar ekki mjög mikill munur á lægsta hita á hálendi og á þeim byggðum sem næst hálendisbrúninni standa. Þetta á einkum við daga þegar vindur er hægur. Þá ræður útgeislun ríkjum og myndarleg hitahvörf myndast - einkum þó yfir sléttlendi. Við þessi skilyrði geta stöðvar í tiltölulega grunnum bollum á láglendi einnig gerst býsna kaldar.

Þær stöðvar sem hærra liggja í landinu eru þó líklegri til landslágmarka að vetrarlagi. Það er vegna þess að í byrjun kuldakasta þarf kalt loft að hafa borist að úr norðri með hvössum vindi. Þá munar um 3 til 4 hundruð metra lyftingu (og þar með kælingu) sem orðin er þegar loftið kemst að hæstu byggðastöðvunum. Þær fá sem sagt 2-4 stiga forskot á stöðvar sem lægra liggja áður en útgeislunin tekur völdin. Stundum nægir þetta forskot ekki marga daga.

Þegar lygnir eftir norðanátt fer annað ferli í gang. Það loft sem kólnar leitar út frá landinu, einskonar afrennsli. Í stað þess lofts kemur loft að ofan og þegar það sígur hitnar það um 1 stig á hverja hundrað metra sem það sígur. Að því kemur að hlýja loftið nær niður á tindastöðvar eins og t.d. Þverfjall á Vestfjörðum og Gagnheiði eystra. Þar verður því hlýrra en er í uppsveitum þar sem hitahvörf ríkja.

Á sumrin er norðanáttin ekki eins köld að tiltölu, og forskot stöðva í uppsveitum verður minna heldur en að vetrarlagi. Meðan loft er vel blandað og engin hitahvörf myndast eru tindastöðvarnar langkaldastar. Þær eru því gjarnan langköldustu stöðvarnar á þeim tíma árs og ekki viljum við bera saman hita í byggð og tindum. Stöðin á Brúarjökli er síðan sértilvik - fjöllum e.t.v. um það síðar.

Í viðhenginu eru fjórir langir listar yfir daga ársins, lágmarkshita þeirra og hvaða stöðvar um er að ræða. Fyrsti listinn nær til allra sjálfvirku stöðvanna og vegagerðarstöðvarnar eru strax á eftir.

Byggðalistinn kemur þar næstur og mönnuðu stöðvarnar reka lestina. Þetta eru alls yfir 1500 línur, um 30 blaðsíður væri hann prentaður. Athugið að suma daga er sama lágmark á fleiri en einni stöð. Þessir dagar eiga fleiri en eina linu.

Lítum nú á sjálfvirku stöðvarnar eingöngu (án vegagerðarstöðvanna). Fyrsti alveg frostlausi dagurinn í fyrravor var 4. maí. Þann dag var líka sett dægurmet hámarks á landinu (um það síðar?). Næst sýnist mér hafa verið frostlaust 10. júní og upp úr því fara að koma fleiri frostlausir dagar. Frostlaust var frá 22. júlí til 19. ágúst. Síðast var frostlaust 16. október.

Hæsti lágmarkshiti ársins var 3,9 stig, staður: Brúarjökull. Það var 4. september - það var líka dagur sem á nýtt dægurhámarksmet fyrir landið.  

Í byggð komu fáeinir frostlausir dagar í fyrravetur. Í byggð var frostlaust að kalla frá miðjum júní og þar til síðast í ágúst. Sumir munu taka eftir því að tveir staðir sem varla var fyrirfram von á eru viðloðandi með lægsta hita í byggð. Þetta eru Miðfjarðarnes á Langanesströnd (við Bakkaflóa) og Ljósaland í Fáskrúðsfirði. Við nánari athugun kemur í ljós að viðkomandi daga er oftast lítill munur á þessum stöðvum og þeim næstlægstu. Mannaða stöðin í Miðfjarðarnesi styður við áreiðanleika mælinganna þar og svo er annar hitamælir í Ljósalandsstöðinni sem kvu samfylkja með aðalmælinum. Við trúum því þessum tölum þar til annað kemur í ljós, staðirnir kunna að vera mjög sérstakir. Séu þeir það er viðbúið að fjöldi ámóta staða sé víða á landinu.

Hæsti lágmarkshiti ársins á sjálfvirku byggðarstöðvunum var 7.6 stig. Það var 6. september. Staður: Siglufjörður.

Á mönnuðu stöðvunum var alveg frostlaust frá og með 30. júní til 23. ágúst. Hæsta lágmark mönnuðu stöðvanna var 8,9 stig 5. september. Staður: Grímsstaðir á Fjöllum. Óvenjulegir septemberdagar 4. til 6.

Mér þætti vænt um að frétta af villum ef lesendur koma auga á þær.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef þessir staðir eru sérstakir hvað lágmarkshita varðar geta þá ekki verið til staðir, kannski fjöldi þeirra, sem skera sig úr hvað hámarkshita varðar? Ekki finnst mér vera neinn slíkur staður álíka sérviskulegur að því leyti og Miðfjarðarnes og Fáskrúðsfjörður eru hvað kuldannn varðar nema ef vera skyldi Steinar undir Eyjafjöllum á stundum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.1.2011 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 1377
  • Frá upphafi: 2350961

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1194
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband