Dulin átök

Næstu daga verður mjög hlýtt loft á leið fyrir sunnan land, en kalt norður undan. Svo virðist sem þessara átaka verði ekki svo mjög vart hér á landi - nema hvað veðurnörd gefa þeim auðvitað gaum. - Textinn hér fyrir neðan er ekki auðveldur viðfangs - en þeir sem gefast upp á miðri leið (eða áður) geta reynt njóta litamynsturs kortanna. 

w-blogg291116a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa hann síðdegis miðvikudag 30. nóvember. Einnig má sjá úrkomu (grænir - og bláir litafletir) og hita í 850 hPa (strikalínur). Mikil hæð verður yfir Bretlandseyjum og önnur yfir Grænlandi. Lægð er suður af Grænlandi og önnur við Norður-Noreg. 

Mjög hlýtt loft kemur sunnan úr hafi og rennur til austurs skammt fyrir sunnan land, en kalt loft er á leið suður og svo suðvestur með Grænlandsströndum. Söðull er í þrýstisviðinu skammt fyrir suðvestan Ísland. - Að sögn reiknimiðstöðvarinnar sækir hlýja loftið heldur á en það kalda hörfar smám saman. 

Hitabrattinn við Ísland sést vel á næsta korti.

w-blogg291116b

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Jafnþykktarlínur eru heildregnar á kortinu, mjög þéttar yfir Íslandi. Það munar um 200 metrum á þykkt yfir norður- og suðurströndinni, 10 stigum, notum við gráður. Litirnir sýna hita í 850 hPa - þar munar 8 stigum á sömu vegalengd. 

Þykktarmunurinn, 200 metrar, gæti vakið mikinn þrýstibratta, um 25 hPa, það „ætti að“ vera mikið austan- eða norðaustanhvassviðri á landinu - en er það ekki hér. 

Nú? 

w-blogg291116c

Hér má sjá 500 hPa-spána á sama tíma. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykktin er sýnd með rauðum strikalínum. Mikill vestanstrengur er yfir Íslandi - það munar um 160 metrum á flatarhæð við norður- og suðurströndina, sem jafngildir um 20 hPa - og ef sá bratti næði til jarðar „ætti að“ geisa vestanhvassviðri á landinu - en gerir það ekki hér. 

Austanáttin sem þykktarbrattinn er að skapa nær að „eyða“ vestanátt hæðarbrattans - og rétt rúmlega það, munar um 5 hPa sem þykktarbrattinn og austanátt hans hefur betur. Ætli það sé ekki um það bil þrýstibrattinn sem er við landið - við sjávarmál? 

Landið er um 3 breiddarstig frá norðri til suðurs, þrýstibrattinn að meðaltali þá um 1,5 til 2 hPa á breiddarstig (5/3). Þrýstivindur þá 7 til 10 m/s - og raunvindur einhver helmingur af því - allt saman mjög gróft reiknað. 

Fyrir norðan land má hins vegar sjá að jafnþykktarlínur eru þéttari en jafnhæðarlínur - þar rými fyrir norðaustanstrekking - jafnvel hvassan vind - en fyrir sunnan eru jafnþykktarlínurnar gisnari en jafnhæðarlínurnar - þar nær vestanáttin til jarðar. 

Eitthvað má litlu muna. 


Bloggfærslur 28. nóvember 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 1281
  • Frá upphafi: 2351066

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1103
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband