Dulin átök

Næstu daga verður mjög hlýtt loft á leið fyrir sunnan land, en kalt norður undan. Svo virðist sem þessara átaka verði ekki svo mjög vart hér á landi - nema hvað veðurnörd gefa þeim auðvitað gaum. - Textinn hér fyrir neðan er ekki auðveldur viðfangs - en þeir sem gefast upp á miðri leið (eða áður) geta reynt njóta litamynsturs kortanna. 

w-blogg291116a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa hann síðdegis miðvikudag 30. nóvember. Einnig má sjá úrkomu (grænir - og bláir litafletir) og hita í 850 hPa (strikalínur). Mikil hæð verður yfir Bretlandseyjum og önnur yfir Grænlandi. Lægð er suður af Grænlandi og önnur við Norður-Noreg. 

Mjög hlýtt loft kemur sunnan úr hafi og rennur til austurs skammt fyrir sunnan land, en kalt loft er á leið suður og svo suðvestur með Grænlandsströndum. Söðull er í þrýstisviðinu skammt fyrir suðvestan Ísland. - Að sögn reiknimiðstöðvarinnar sækir hlýja loftið heldur á en það kalda hörfar smám saman. 

Hitabrattinn við Ísland sést vel á næsta korti.

w-blogg291116b

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Jafnþykktarlínur eru heildregnar á kortinu, mjög þéttar yfir Íslandi. Það munar um 200 metrum á þykkt yfir norður- og suðurströndinni, 10 stigum, notum við gráður. Litirnir sýna hita í 850 hPa - þar munar 8 stigum á sömu vegalengd. 

Þykktarmunurinn, 200 metrar, gæti vakið mikinn þrýstibratta, um 25 hPa, það „ætti að“ vera mikið austan- eða norðaustanhvassviðri á landinu - en er það ekki hér. 

Nú? 

w-blogg291116c

Hér má sjá 500 hPa-spána á sama tíma. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykktin er sýnd með rauðum strikalínum. Mikill vestanstrengur er yfir Íslandi - það munar um 160 metrum á flatarhæð við norður- og suðurströndina, sem jafngildir um 20 hPa - og ef sá bratti næði til jarðar „ætti að“ geisa vestanhvassviðri á landinu - en gerir það ekki hér. 

Austanáttin sem þykktarbrattinn er að skapa nær að „eyða“ vestanátt hæðarbrattans - og rétt rúmlega það, munar um 5 hPa sem þykktarbrattinn og austanátt hans hefur betur. Ætli það sé ekki um það bil þrýstibrattinn sem er við landið - við sjávarmál? 

Landið er um 3 breiddarstig frá norðri til suðurs, þrýstibrattinn að meðaltali þá um 1,5 til 2 hPa á breiddarstig (5/3). Þrýstivindur þá 7 til 10 m/s - og raunvindur einhver helmingur af því - allt saman mjög gróft reiknað. 

Fyrir norðan land má hins vegar sjá að jafnþykktarlínur eru þéttari en jafnhæðarlínur - þar rými fyrir norðaustanstrekking - jafnvel hvassan vind - en fyrir sunnan eru jafnþykktarlínurnar gisnari en jafnhæðarlínurnar - þar nær vestanáttin til jarðar. 

Eitthvað má litlu muna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ímynda mér uppdrátt af heilabúi stjórnmálamanna sem ólmir vilja hreppa sætið í söðlinum sem stjórnar þrýstisviðinu,sannarlega "Dulin átök". 

 Hvað merkir annars söðull í veðurfræðinni Trausti? 

Helga Kristjánsdóttir, 29.11.2016 kl. 01:43

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Söðull í þrýstisviði lítur eins út og söðull á hesti - sá sem situr í þrýstisöðli er með hærri þrýsting framan og aftan við, en lægri til hægri og vinstri. - Skarð þar sem mætast tveir dalir - en líka tveir fjallshryggir. Í söðli býr stundum svikult veður - bregður til allra átta.

Trausti Jónsson, 29.11.2016 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 33
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 2343344

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband