Um meðalvindhraða í Reykjavík

Í síðasta pistli var litið á ársmeðalvindhraða á Akureyri síðustu 80 árin rúm. Nú gerum við það sama fyrir Reykjavík. 

Ársmeðalvindhraði í Reykjavík 1935 til 2016

Lárétti ásinn sýnir árin - sá lóðrétti ársmeðalvindhraðann í metrum á sekúndu. Þrepin sýna ársgildin, rauða línan er 7-árakeðja, en sú græna sýnir ársmeðalvindhraðann á sjálfvirku stöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Grái ferillinn sýnir sjálfvirku mælingarnar á Veðurstofutúni. - Í maí árið 2000 var farið að nota þær mælingar í veðurskeytum (og ferlarnir sameinast). Við sjáum að mikill munur var á meðalvindhraða þau ár (1997 til 1999) sem lesið var af báðum mælum. 

Flutningurinn frá flugvellinum á Veðurstofutún 1973 virðist ekki hafa haft mikil áhrif - en hins vegar gerðist eitthvað árið 1977. Breyting sem varð þegar athuganir voru fluttar úr Landsímahúsinu við Austurvöll út á flugvöll í árslok 1945 sést greinilega. Höfum í huga að vindhraðamælirinn á flugvellinum var í 17 metra hæð - en ekki tíu eins og áskilið hefur verið frá 1949. Þessi hæðarmunur skýrir að einhverju leyti mikinn vindhraða á þeim tíma sem athuganir voru gerðar á vellinum.

Græni ferillinn sýnir mælingar á Reykjavíkurflugvelli frá 2002. Þar er vindur töluvert meiri en við Veðurstofuna. 

Við sáum í fyrri pistli að allgott samræmi var á milli meðalvindhraða á Akureyri og meðalvindhraða á landinu öllu. Í Reykjavík er því ekki að heilsa sé litið á tímabilið allt - mun betra samræmi verður séu einstök tímabil tekin fyrir - tímabil þar sem mælingar héldust lítt breyttar. 

Stormdagafjöldi í Reykjavík

Síðari mynd dagsins sýnir stormdagafjölda á Reykjavík - það er fjöldi daga á ári þegar vindhraði fer að minnsta kosti einu sinni (í 10-mínútur) yfir 20 m/s. Mikið (sýndar-) stökk varð þegar athuganir voru fluttar á flugvöllinn 1946. Skipt var um vindmæli 1957 og virðast þau skipti koma fram í stormatíðni. Annars er „dældin“ í ferlinum fram til 1964 e.t.v. tengd smágalla í gagnatöflunni - eitthvað sem þarf að fara betur í saumana á - en óvenjulítið var reyndar um hörð vestan- og suðvestanveður á árunum 1960 til 1964 miðað við það sem verið hafði árin áður.

Svo kemur stökk til færri storma vel fram 1977 - skýring á því liggur ekki á lausu - en ritstjórinn hefur þó ákveðnar grunsemdir. Eftir það fór stormum fækkandi - mest auðvitað eftir mælaskiptin árið 2000 - en önnur undirliggjandi fækkun á sér samt stað. Tengist hún nær örugglega þéttingu byggðar og trjávexti í borginni.

En sé einhver niðurstaða af þessum vangaveltum er hún sú að mjög varasamt sé að meðhöndla vindmælingar í Reykjavík í þessi 80 ár eins og um sambærileg og einsleit gögn sé að ræða. - Bæði staðsetningar og mælitæki hafa haft mikil áhrif á samfelluna. 

Til umhugsunar er texti í viðhenginu - ritstjórinn nennir ekki að þýða hann orðrétt á íslensku að svo stöddu. Hann er fenginn úr ritinu: „Manual of Meteorlogy, volume I, Meteorology in History“ eftir Napier Shaw sem lengi var forstjóri Bresku veðurstofunnar. Cambridge University Press gaf út 1932. - Bókin er öll aðgengileg á netinu. 

Hér er fjallað um þá ákvörðun bresku veðurstofunnar að leggja ekki sérstaka áherslu á uppsetningu fullkominna vindhraðamæla á öllum veðurstöðvum - að mörgu leyti væri bara betra að meta vindinn inn í Beaufort-kvarðann. Textinn stendur enn fyrir sínu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 21. janúar 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 143
  • Sl. sólarhring: 412
  • Sl. viku: 1968
  • Frá upphafi: 2350704

Annað

  • Innlit í dag: 136
  • Innlit sl. viku: 1764
  • Gestir í dag: 135
  • IP-tölur í dag: 134

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband