Háþrýstisvæði og hlýrra loft (?)

Þótt „hretið“ að undanförnu nái vart máli sem slíkt - (alla vega meðal pollíönnuaðdáenda sem og veðurtrúbræðra ritstjóra hungurdiska - skiljum skýrt hér á milli) hefur veðrið verið heldur dauflegt. Landsmeðalhiti undanfarinna daga er á bilinu 3 til 4 stig - sem er að vísu ekki nema einu til einu og hálfu stigi undir meðallagi síðustu tíu ára - en við viljum meira. 

Nú hagar svo til að hlýtt loft stefnir í átt til landsins - en því miður bæði úr suðvestri og suðaustri - kalda loftið lendir kannski bara undir báðum sóknum - króast af? - En reiknimiðstöðvar gera samt ráð fyrir því að suðvestansóknin nái landi.

Ef rétt reynist er það auðvitað fínt - sérstaklega fyrir landið austanvert, en aftur á móti er vestanáttin sjaldnast fagnaðarefni á Vesturlandi á þessum árstíma - en við sjáum til með það.

Kortið sýnir sjávarmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag (8. maí) - einnig fylgir hiti í 850 hPa.

w-blogg070516a

Hér er kalda loftið enn yfir landinu - en vindur er afskaplega hægur og veður meinlítið. En þó eru einhverjir grænir smáblettir yfir landinu - og tákna úrkomu. Hlýja loftið úr suðaustri virðist ekki eiga langa leið til landsins - en sú sókn virðist renna út í sandinn hvað okkur varðar vegna hlýindanna sem stefna til norðurs austur af Nýfundnalandi. 

Meginás kalda loftsins hrekst því fyrst til vesturs undan austansókninni - en áður hlýindi ná til okkar stuggar suðvestansóknin kuldanum aftur til austurs og framlengir dvöl hans í nágrenni okkar. - En svo kemur vestanáttin víst um síðir. - Reynist þær spár réttar verður athyglisvert að sjá hana rífa í hafísinn á Grænlandssundi - sem reyndar er með minnsta móti. 

Tíu daga þykktarvikaspá reiknimiðstöðvarinnar sýnir vel austur- og vesturhitann - og hvernig við liggjum að meðaltali á milli. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og vik hennar frá meðallagi eru allgóður vísir á hitafar við jörð. 

w-blogg070516b

Þetta er nú talsvert betra en verið hefur (ef rétt reynist) - og spárnar í kvöld gefa jafnvel von í mestu hlýindi ársins til þessa. Tími til kominn - því marsmánuður á enn fjóra hlýjustu daga þess.  


Bloggfærslur 7. maí 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 110
  • Sl. sólarhring: 393
  • Sl. viku: 1935
  • Frá upphafi: 2350671

Annað

  • Innlit í dag: 105
  • Innlit sl. viku: 1733
  • Gestir í dag: 105
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband