Marshlýindi í veðrahvolfinu

Eins og fram hefur komið í marsyfirliti Veðurstofunnar var hiti hér á landi í mars yfirleitt 1,5 til 3,2 stig ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Víða var talsverður eða mikill snjór fram eftir mánuðinum og mikil orka fer í að bræða hann. Almenn hlýindi í veðrahvolfinu skila sér því ekki á vanga alveg eins og best verður á kosið.

w-blogg030416a

Heildregnu línurnar á kortinu sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í mars. Dálitill hæðarhryggur er við Ísland og hagstæð hæðarsveigja á jafnhæðarlínunum við landið. Strikalínur sýna meðalþykkt - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litirnir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. 

Vikin eru mest við Norðaustur-Grænland, nærri því 100 metrar. Það samsvarar um það bil 5 stiga hitaviki. Mest er þykktarvikið við landið við Vestfirði - um 70 metrar, það samsvarar um 3,5 stigum. Vik hita í Bolungarvík frá meðallagi áranna 1981 til 2010 var um 2,7 stig. - Um 0,8 stig vantar upp á að þykktarvikin skili sér að fullu til jarðar - það gera þau reyndar nærri því aldrei. - Þumalfingursregla segir okkur að líklegri ágiskun á vik við sjávarmál fáist með því að margfalda þykktarvikið (í metrum) með 0,04 í stað 0,05.

En lítum þá á spá um þykktarvik næstu tíu daga (2. til 12. apríl) - evrópureiknimiðstöðin reiknar.

w-blogg030416c

Hér má sjá að hlýindin færast heldur til vesturs - kuldapollur er norðvestur af Bretlandseyjum - og kuldi yfir Hudsonflóa sprengir litakvarða kortsins. Hita er spáð nærri meðallagi aprílmánaðar hér á landi. Undanfarna daga hefur mikil hryggjarmyndun yfir Grænlandi (eftir viku) legið í loftinu (í spám) - með þá töluverðum breytingum á veðurlagi. En reynslan segir okkur að trúa lítt framtíðarspám um öfgar - og rétt að bíða með að þusa um þær - líkur mestar á að ekkert sérlega markvert verði úr.

Að lokum lítum við á sjávarhitavik marsmánaðar.

w-blogg030416b

Enn er kalt fyrir sunnan land - en fremur hlýtt norðurundan. Þetta mynstur hefur í öllum aðalatriðum verið ríkjandi í rétt rúm tvö ár. - Ekki gætti þess þó á þykktarvikakortinu hér að ofan - sjávarhiti í fjarlægum sveitum hefur ekki alltaf áhrif. - En þessa vikamynsturs gætir trúlega samt í þrýstifari og legu háloftavinda, nú og næstu mánuði - það er erfitt að losna við það. 


Vetrarhitinn 2015 til 2016

Ritstjóri hungurdiska reynir sem fyrr að reikna landsmeðalhita (í byggð) og bera saman við fyrri tíð. Hér má sjá vetrarhita (desember til mars) á landinu aftur til 1824. Fyrstu áratugir reikninganna eru reyndar harla óvissir - en svo má endurtaka að trúanlegt verði (segir reynslan). 

w-blogg020416

Nýliðin vetur fékk töluna -0,4 stig, 0,1 stigi hlýrri en veturinn í fyrra, -0,7 stigum kaldari en meðalvetur síðustu tíu ára - enda eru þeir mjög hlýir í langtímasamhengi. 

Eins og oft er á myndum sem sýna aðskiljanleg hitameðaltöl á Íslandi er tímabilaskipting mjög áberandi. Einskonar hlýskeið var í gangi fyrir miðja 19. öld, síðan tekur við mjög langt kuldaskeið, það var verst í upphafi og svo aftur á 9. áratug 19. aldar. Langkaldastur var veturinn 1880 til 1881 - við höfum slitið kvarðann til að koma honum fyrir. 

Vetur hlýnuðu snögglega eftir 1920 - (veturinn hlýnaði á undan öðrum árstíðum) og stóðu hlýindin til og með 1964 - hluti vetrar 1965 var reyndar mjög hlýr líka. Ritstjóri hungurdiska man þessi umskipti vel - líka þá von um hlýrri tíð sem kom með vetrunum 1972 og 1973 - og þau stöðugu vonbrigði sem fylgdu síðan því sem virtist ætla að verða endalaust kuldaskeið. Það tók þó enda um síðir - eftir myndinni að dæma virðist það hafa gerst snögglega með vetrinum 2003. Ekki er annað að sjá en að það hlýindaskeið standi enn. 

Enga reglu virðist mega greina í lengd þessara tímabila - þau bara koma og fara eins og þeim sýnist - að leggja einhverjar reglubundnar sveiflur ofan í er tilgangslaust - nema eiga haldbærar skýringar á lager. Núverandi hlýskeið heldur þó enn sínu aðaleinkenni að ekki hefur sést einn einasti kaldur vetur síðan það byrjaði (í 14 ár) - tuttugustualdarhlýskeiðið mikla var langt í frá flekklaust hvað þetta varðar - og nítjándualdarhlýskeiðið með enn meiri hikstum.

En það hlýtur að koma að því - við hljótum að eiga eftir að sjá raunverulega kaldan vetur - þrátt fyrir hlýnandi heim - nema að hlýnunin sú sé enn ískyggilegri en talið hefur verið. 


Bloggfærslur 2. apríl 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 95
  • Sl. sólarhring: 187
  • Sl. viku: 604
  • Frá upphafi: 2351395

Annað

  • Innlit í dag: 84
  • Innlit sl. viku: 521
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 82

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband