Fárviðrið 3. apríl 1953

Veturinn 1952 til 1953 hafði verið mildur - og þótti hagstæður þrátt fyrir að þorri og góa hefðu verið vindasöm með köflum og veður ekki skaðalaus. Í góulokin, nærri jafndægrum, skipti eftirminnilega um tíð og þá upphófst nærri hálfs mánaðar norðankast af verstu gerð - og reyndar entist það lengur. Þau einstöku tíðindi urðu í Reykjavík að apríl varð bæði kaldasti mánuður vetrarins og kaldasti mánuður ársins. 

Í ritgerðasafninu góða „Loftin blá“ segir Páll Bergþórsson skemmtilega frá nokkurra daga átökum kalda og hlýja loftsins yfir Íslandi í góulokin - en getur ekki um framhaldið. Þau veðurnörd sem hafa bókina við höndina ættu að fletta þessum kafla upp sér til heilsubótar. En góulokasunnanáttin var hlý og úrkomusöm og olli miklum flóðum í stórám á Suðurlandi.

Landsþrýstispönn 24. mars til 6. apríl 1953

Myndin sýnir þrýstispönn á landinu dagana 24. mars til 6. apríl 1953. Norðan- og norðaustanátt ríkti allan tímann. Heita má að samfellt illviðri hafi staðið yfir dagana 25. til 29. - þá dúraði aðeins í tvo sólarhringa (þó ekki um land allt) og síðan kom annað meginkast fyrstu dagana í apríl - með hámarki þann 3. sem bar upp á föstudaginn langa. 

Gríðarleg snjóflóðahrina fylgdi þessum veðrabálki, eftirminnilegastur er mannskaðinn á Auðnum í Svarfaðardal og gríðarlegt snjóflóð á Seljalandsdal á Ísafirði. Sömuleiðis varð mjög mikið snjóflóð á Flateyri - sem hætt er við að valdið hefði mannskaða ef byggð hefði þá náð þangað sem hún síðar gerði. 

Slide1

Þetta var um páskana og blöð komu ekki út fyrr en þann 7. og 8. apríl. Fréttir voru því seinar á ferð og sjálfsagt farnar að grisjast. - Getið hafði verið um foktjón í veðrinu í Reykjavík þann 28. en ekkert er að finna um að foktjón hafi orðið í bænum þann 3. - þegar vindur náði fárviðrisstyrk um stutta stund eftir hádegið. - En þetta var á föstudaginn langa eins og áður sagði og þeir sem eldri eru muna vel hvernig þeir dagar gengu fyrir sig á árum áður. - Algjör þjóðlífslömun. 

Ekki var sama veðurstaða allan norðanbálkinn - en síðari skammturinn, sá sem náði hámarki 2. og 3. virðist hafa tengst aðsókn háloftahæðarhryggs úr vestri og samskiptum norðanrastarinnar austan við hann við þá neðri norðanátt sem fyrir var. Þetta má e.t.v. greina á kortum bandarísku endurgreiningarinnar hér að neðan.

Slide2

Það fyrsta sýnir stöðuna um hádegi á skírdag, 2. apríl. Mjög mikil hæð er yfir Grænlandi, heildregnu línurnar sýna hæð 1000 hPa-flatarins og auðvelt að breyta í hPa. Innsta línan í kringum hæðina sýnir 320 metra, sem jafngilda 1040 hPa - síðan eru línurnar dregnar á 40 m bili, (5 hPa). Við lægðarmiðjuna sjáum við -120, eða 985 hPa, lægðarmiðjan er eitthvað dýpri en það. Trúlega vanmetur greiningin dýpt lægðarinnar - en ofmetur frekar hæðina. 

Slide3

Í háloftunum má á sama tíma sjá hæðarhrygginn milli Grænlands og Labrador - hann þokast austur og í jaðri hans er mikill norðanstrengur - háloftalægð er hins vegar yfir Íslandi. Mörkin milli norðanstrengsins og áhrifasvæðis lægðarinnar virðast hafa verið mjög skörp og ýmsir skrýtnir hlutir í gangi þar - til dæmis má sjá óvenjulegan snúning á vindáttum í miðju veðrahvolfi í háloftaathugunum á Keflavíkurflugvelli - norðanátt fyrir ofan og neðan - en tímabundin vestanátt í miðju. Ekki treystir ritstjórinn sér til að fullgreina þetta - en gaman væri að sjá stöðu sem þessa höndlaða í nútímaháupplausnarlíkani - þar kæmi ábyggilega fram um hvers konar bylgjuhreyfingu hefur verið að ræða - og hver uppruni illviðrisins hefur verið.

Slide4

Hér er kominn föstudagurinn langi. Þétt hneppi af jafnhæðarlínum yfir landinu - með aðeins austlægari legu en daginn áður. 

Slide5

Og háloftalægðin sem var yfir landinu á skírdag komin suður fyrir það. Þó þessi kort endurgreiningarinnar séu trúleg - og þau sýna ábyggilega aðalatriði málsins - verðum við að hafa í huga að raunveruleikinn hefur sjálfsagt verið flóknari. Vestanáttin yfir Keflavík og getið var hér að ofan sést t.d. ekki í greiningunni. 

Slide6

Athugunarbókin frá Reykjavíkurflugvelli sýnir að fárviðri hefur verið um stutta stund um kl.15 og að vindhviða hefur um það leyti farið yfir 37 m/s. Vægt frost er þarna um daginn - en hiti skreið svo rétt yfir frostmarkið um kvöldið. 

Slide7

Vindritinu ber ekki alveg saman við bókina - ekki víst að tímakvarðinn sé á réttum stað, en við sjáum mestu vindhviðuna - og við sjáum líka að vindhraðinn er mjög breytilegur eins og oft er í norðanköstum í Reykjavík. Þetta veður fellur í sígildan flokk slíkra kasta. 

Slide8

Þrýstiritið ber líka með sér sígild einkenni reykvískra norðanillviðra - furðuleg, mjög stór stökk í loftþrýstingi sem hljóta að tengjast flotbylgjugangi í háloftunum ofan við stöðina - kannski eru þessar bylgjur vaktar af fjöllum - kannski ekki. 

Þessi pistill er í flokki þar sem fjallað er um fárviðri í Reykjavík. Haldið verður áfram og næst verður fjallað um veður í janúar 1952. 


Fréttabrot úr heiðhvolfinu

Heiðhvolfið hefur verið talsvert í tísku síðustu árin - það jafnvel svo að á það er minnst í almennum fréttum. Öldruðum og útbrunnum veðurspámönnum eins og ritstjóra hungurdiska finnst fréttaflutningur þessi stundum dálítið óþægilegur og setur að honum ákveðinn hroll eða jafnvel heimsbeyg (hvað sem það er nú). Alla vega finnur ritstjórinn einhvern sálrænan undirtón í heiðhvolfsfréttaflutningi undanfarinna missera - og er svo einnig í haust. - En ræðum það ekki frekar - lítum frekar til himins - upp í rúmlega 23 km hæð. 

w-blogg051116a

Hér má sjá hæð 30 hPa-flatarins yfir norðurhveli á hádegi í dag (4. nóvember - greining bandarísku veðurstofunnar). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en hiti er sýndur með litum, litakvarðinn verður skýrari sé myndin stækkuð. Á dökkbláa svæðinu er hiti á bilinu -74 til -78 stig, en -42 til -46 stig þar sem gulbrúni liturinn er dekkstur.

Það sem hefur verið í fréttum er að lægðasvæðið er tvískipt - það mun ekki vera algengt á þessum tíma árs. Þeir sem æstastir eru segja þetta auka líkur á fimbulvetri í Evrópu og/eða Norður-Ameríku - stöku almennur fréttamiðill hefur gripið þessar „spár“ og birt - úr samhengi. 

Ritstjóri hungurdiska hefur auðvitað ekki græna glóru um það hvernig veturinn verður, hvorki hér eða þar og má vel vera að vangaveltur þessar standist (með heppnina að vopni) - en honum finnst svona rétt fullsnemmt að draga ályktanir af lögun lægðarinnar nú í byrjun nóvember - hún er nefnilega rétt svo að byrja að taka við sér. 

Það er einkum tvennt sem ræður hitafari í þeirri hæð heiðhvolfsins sem kortið sýnir. Í fyrsta lagi geislunarbúskapur - inngeislun sólar og varmaútgeislun lofthjúpsins takast á - og í öðru lagi lóðréttar hreyfingar lofts. - Svo getur blöndun stundum haft áhrif ef stórar bylgjur brotna. 

Sólarljósið skín að mestu óhindrað í gegnum loftið í þessari hæð (sé þar ekki mikið ryk) - nema hvað það býr til dálítið af ósoni - sem svo getur drukkið geisla í sig og hitnað - og það hitað svo afgang þess lofts sem er á sveimi. 

Hitafarið á kortinu endurspeglar mjög dreifingu ósons - það er mest af því þar sem hlýjast er (yfir Austur-Asíu) - magnið þar er um 400 Dobsoneiningar. Þarna er loftið hvað móttækilegast fyrir stuttbylgjugeislanámi. Á kalda svæðinu nærri okkur er magnið hins vegar helmingi minna, um 200 Dobsoneiningar þar sem minnst er. Þar hefur útgeislun vinninginn þessa dagana.

Sólarljósið er auðvitað að búa til óson allan hringinn - álíka mikið allstaðar þar sem þess nýtur á annað borð. En það er nú meira yfir Austur-Asíu vegna þess að þar er dálítið niðurstreymi - sækir óson að ofan - ósonlagið er þéttast ofar en sá flötur sem við hér sjáum. Niðurstreymið bætir líka í hitann - við sjáum því samanlögð áhrif þess og meira ósonmagns. 

Á kalda svæðinu er hins vegar lítilsháttar uppstreymi - loftið kólnar vegna þess - en uppstreymið kemur líka úr ósonrýrara umhverfi og styður þannig við kuldann. 

Við norðurskautið er sólin þegar sest - heimskautanóttin hafin. Þangað berst eftir atvikum hlýrra eða kaldara loft á víxl - en í sólarleysinu fer nú að kólna mjög hratt - geislanám ósonsins hættir auðvitað þegar ekkert er sólarljósið. Varmageislun að neðan tefur eitthvað fyrir - en niðurstaðan er samt sú að kuldinn tekur völdin. 

Þá verður til mikil lægð - sem oft hefur komið við sögu í pistlum hungurdiska - og mikil vindröst - skammdegis(heiðhvolfs-)röstin. Hún er varla orðin til á kortinu hér að ofan - við skulum bíða í tvær til þrjár vikur og sjá svo til hvað gerist. 

En það er mjög algengt að hlýrra sé í heiðhvolfinu „hinumegin“ á norðurhveli heldur en á okkar hlið - ástæðan er sú að þar eru vetrarvindrastir veðrahvolfsins - heimskautaröstin og hvarfbaugsröstin - öflugri og meira samstíga heldur en á okkar hlið. Þær beinlínis draga loft niður á norðurvæng sínum - vekja niðurstreymið sem holdgerist í hærri hita í 30 hPa-fletinum handan skauts frá okkur séð. 


Bloggfærslur 5. nóvember 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1285
  • Frá upphafi: 2351070

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1107
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband