Smávegis af september 2023

Eins og fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar var hiti hér á landi í september nærri meðallagi 1991 til 2020. Á heimsvísu hafa hins vegar ríkt óvenjuleg hlýindi.

w-blogg031023a

Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, jafnþykktarlínur eru daufar og strikaðar, en þykktarvik eru sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og þykktarvikin eru því hitavik (hér miðað við 1981-2010). Það er varla bláan blett að sjá á kortinu öllu, rétt aðeins á hafsvæðinu milli Grænlands og Svalbarða. Gríðarleg hlýindi eru yfir meginlöndunum, en hiti yfir svæðinu kringum Ísland og suður af er nærri meðallagi viðmiðunaráranna.

Hægt er að finna mánuði í fortíðinni þegar jafnæðarlínur liggja svipað og nú nærri Íslandi - sömuleiðis ámóta þykkt. Enginn þeirra mánaða (t.d. september 1980, 1965 og 1953) sýnir hins vegar neitt í líkingu við þykktarvikin sem nú lágu yfir meginlöndunum. Kannski má segja að í þessu tilviki sé lægðardragið við Ísland afleiðing af samkeppni hlýindanna austan- og vestanvið - til að fá ámóta hér þurfum við eindregnari sunnanátt - sem er ekki í boði þegar svona hlýtt er báðu megin atlantsála. - Atlantshafið sýnist því svalara heldur en svæðin umhverfis, jafnvel þótt yfirborðshiti sjávar sé þar í hæstu hæðum - eins og kortið hér að neðan sýnir. 

w-blogg031023c

Dálítið merkilegt. Það er aðeins á örfáum blettum þar sem hiti er lítillega undir meðallagi. Sjávarhitameðaltöl í námunda við ísjaðarinn eru afskaplega óáreiðanleg í endurgreiningunni sem lögð er til grundvallar - kannski marktæk - kannski ekki. Við gætum samt leitað einhverra skýringa á þessum neikvæðu vikum - þær eru ekki endilega réttar. Við getum t.d. sagt að bráðnandi ís úr Íshafinu haldi hita niðri í Austur-Grænlandsstraumnum - það tekur tíma að hækka hitann. Við landgrunnsbrúnir er blöndun milli yfirborðs og þess sem undir er meiri - blöndunin getur haldið hita niðri. Kuldinn við suðurodda Grænlands gæti t.d. stafað af meiri norðvestanátt við ströndina heldur en vant er - og dregur kaldari sjó upp til yfirborðs. Þetta eru þó allt ágiskanir - almennt séð er furðuhlýtt á svæðinu öllu. 

Spennandi verður að sjá framhaldið. Nú hlýtur að fara að hausta á meginlöndunum og að draga úr hitavikum þar - alla vega í bili. Gerist það fyrst Evrópumegin aukast líkur á norðanáttum hér á landi - en gerist það hraðar vestanmegin aukast vestan- og sunnanáttarlíkur. Þessi hitavik benda heldur til þess að sunnan- og austanáttir verði blautar hér í haust - en ráða engu ein og sér um tíðni slíkra átta. Við vitum ekki heldur hversu djúpt þessi hlýindi ná - stormar og illviðri hausts og vetrar geta á stuttum tíma svipt þeim burt - ef þau eru aðeins grunnstæð. Þegar kemur fram á vetur geta kaldar strokur úr vestri haft áhrif á stöðugleika - og þar með aukið blöndun. 

w-blogg031023b

Taflan sýnir hvernig hita hefur verið háttað á spásvæðum landsins í september. Raðað er í sæti, 1 til 23. Heldur kaldara var um landið norðanvert en syðra. Þó nánast tilviljun í hvaða sæti raðast. Breytileiki er meiri inn til landsins og á hálendinu heldur en við sjávarsíðuna. Þess vegna nægir -0,8 í 17. sæti á Austurlandi að Glettingi, en aðeins í það 15. á Miðhálendinu.

Við þökkum BP fyrir kortagerð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 23
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 1848
  • Frá upphafi: 2353148

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1666
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband