Nærri jafndægrum

Nú líður að jafndægrum að hausti, dagur styttist ört og það er farið að kólna á norðurslóðum. Óvenjuleg hlýindi hafa verið víða um heim í sumar, meira að segja yfir miklum hluta Atlantshafs. Ísland hefur þó sloppið við öfgar af þessu tagi, enn sem komið er alla vega. Óvenjuleg úrhelli hafa líka víða valdið stórkostlegu tjóni. Hvar þau koma niður er þó harla tilviljanakennt og mestu tjóni valda þau þar sem tjónnæmi er mikið. Fram að þessu höfum við einnig sloppið við úrhelli. - En einmitt í dag eru úrkomuviðvaranir í gildi um landið austanvert. Einhvern veginn finnst ritstjóra hungurdiska fleiri slíkar viðvaranir í pípunum síðar í haust, þótt rétt sé að taka fram að hann veit ekkert um það - og vel gæti heppni valdið því að hann hafi rangt fyrir sér í þeim efnum. Allt fer það eftir hegðan bylgjugangsins í vestanvindabeltinu, tilviljanakenndum atburðum suður við hvarfbaug og þróun kuldapolla heimskautasvæðanna. 

En lítum fyrst á almenna stöðu á norðurhveli.

w-blogg180923a

Kortið gildir um hádegi á morgun, þriðjudaginn 19.september. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Blái liturinn er eiginlega afgerandi haustlitur - en þó vekur athygli að þykktin nær hér hvergi niður í eiginlegan vetrarkulda - enginn afgerandi kuldapollur hefur enn komið sér fyrir á norðurslóðum. - Munum þó að um leið og blái liturinn (þykkt minni en 5280 metrar) fer að leika um okkur stórmagnast líkur á næturfrosti, snjó á fjallvegum og jafnvel í byggð.

Allmikið lægðasvæði er fyrir sunnan land og beinir það hlýju lofti úr austri inn yfir landið. Þar er þykkt jafnvel meiri en 5460 metrar - sumarástand. Langt suðvestur í hafi er nýr fellibylur, nefnist Nigel. Örlög hans eru nokkuð óráðin, en skemmtideildir reiknimiðstöðvanna hafa veifað honum á sýningum sínum síðustu daga - þá sem ofurlægð fyrir sunnan land, tölur allt niður í 933 hPa hafa sést. Í dag (mánudag) eru spárnar þó heldur hógværari - og sennilega raunhæfari (um 955 hPa) - þá á laugardag/sunnudag. Rétt að ræða ekki of mikið um það í bili.

En loftið sem kemur nú úr austri er býsna rakt.

w-blogg180923b

Kort dönsku veðurstofunnar (igb-líkanið) sýnir svokallað úrkomumætti í fyrramálið. Úrkomumætti er mælikvarði á vatnsinnihald lofts yfir hverjum stað - skili það sér allt sem úrkoma. Við getum ráðið af kortinu að vatnið er langmest í allra lægstu lögum - áberandi minni vatnsgufa er yfir Vatnafjökli og öðrum háfjöllum heldur en yfir sjó og láglendi. Úrkomumættið er yfir 20 mm á stóru svæði fyrir austan land. Það er nokkuð mikið - en langt í frá sérlega mikið. Til að telja það mjög mikið viljum við fara upp í 30 til 40 mm. En kortið sýnir líka vind í 100 metra hæð (vindörvar) og er hann 20 til 25 m/s á stóru svæði. Þegar vindur kemur að fjalli leirar hann helst til hliðar - en sé þrýstisviðið öflugt getur svo farið að hann þvingist upp hlíðina. Við það kólnar loftið, vatnsgufan þéttist og fellur út sem úrkoma - þéttingin skilar dulvarma sem falinn var í vatngufunni til loftsins það hlýnar og uppstreymið verður auðveldara og auknar líkur verða á því að loftið leiti ekki framhjá fjöllunum. (Þessi saga er nokkuð einfölduð auðvitað). 

En þetta þýðir að þrátt fyrir að úrkomumættið á kortinu að ofan sé ekki sérlega mikið á hverjum stað - kemur alltaf nýtt rakt loft inn í fjallauppstreymið mep hvössum vindi og úrkoman getur haldið áfram langtímum saman. Niðurstaðan verður úrhelli.

w-blogg180923c

Hér má sjá úrkomuaftakavísa evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir þriðjudaginn 19.september. 

Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af árstíðasveiflu úrkomunnar - sömuleiðis veit það að úrkoma er mismikil eftir landsvæðum á Íslandi.

Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn (litirnir sýna hann) fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér rýfur hann þau mörk á allstóru svæði (heildregnu línurnar) og fer alveg upp í 4,3 við utanvert Ísafjarðardjúp. Útgildavísirinn er stærri en 0,9 á allstóru svæði líka - dekksti brúni liturinn.

Orðið „útgildavísir“ er þýðing á því erlenda „extreme forecast index“, EFI, en „halavísir“ reynir að íslenska „shift of tail“, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar. Vel má vera að aðrir veðurfræðingar noti aðrar þýðingar heldur en ritstjóri hungurdiska

Útgildavísar evrópureiknimiðstöðvarinnar auðvelda mjög mat því hversu óvenjulegir veðuratburðir sem koma fram í spám eru. Vísarnir byggja á reynslu - „vita“ hversu algengt það veður er sem verið er að spá. Það er hins vegar með þessa vísa eins og annað, rétt er að trúa þeim ekki í blindni og greinilegt að talsverða reynslu þarf til að meta þær upplýsingar sem þeir vísa á. Fullvíst er að vaktveðurfræðingar Veðurstofunnar eru frekar með fingur á púlsinum hvað þetta varðar heldur en ritstjóri hungurdiska (hann er alinn upp í öðrum heimi).

Þeir sem eiga eitthvað undir ættu því að fylgjast vel með veðri og spám - og sérstaklega gefa aðvörunum Veðurstofunnar gaum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 44
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 1870
  • Frá upphafi: 2353072

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1678
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 40

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband