Staðan á norðurhveli í júlíbyrjun (afskaplega lauslegt)

Við lítum á stöðuna miðju veðrahvolfi á norðurhveli jarðar í dag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk. Litirnir sýna þykktina, en hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg010722a

Brúnu og gulu litirnir eru hlýir (sumarlitir) þeir bláu kaldastir (veturinn þrjóskast við). Grænu litirnir teljast heldur svalir á þessum árstíma, en þó er meðalþykkt yfir Íslandi í júlí „græn“ - rétt við mörk gula litarins - ekki ósvipað og dag. Munurinn á stöðunni í dag og meðallaginu hér við land er þó sá að í meðalstöðunni er styst til hlýindanna suður af landinu, en í dag er styst til þeirra í austurátt. Yfir Skandinavíu er gríðarhlýr hæðarhryggur - óvenjuöflugur. Þykktin er þar á stóru svæði meiri en 5640 metrar - sem er nærri íslandsmetinu. Methlýtt hefur verið í Norður-Noregi og hiti komist þar yfir 30 stig. Spár gera ráð fyrir því að hryggurinn mjaki sér austur á bóginn. Þá kólnar í Skandinavíu. 

Annar hryggur, ekki alveg jafn öflugur er yfir Alaska. Hann á lítið að breytast á næstunni. Við norðurskautið er hins vegar mjög öflugur kuldapollur, alls ekki metkaldur, en samt í öflugra lagi. Það er ekki óalgeng á þessum tíma að öflugir (fyrirferðarmiklir) hryggir og litlir kuldapollar séu á ferð - einhvers staðar á svæðinu í júlí. En mjög er misjafn hvar. Hryggirnir halda sig þó oftar yfir meginlöndunum hefur en úthöfunum á sumrin. Kuldinn úr norðurhöfum á greiðari leið suður um höfin heldur en meginlöndin (ekki þó án undantekninga). 

Veðurlag hér á landi ræðst mjög af legu og fyrirferð þessara meginkerfa. Þau eru hægari á sér á sumrin en vetrum og einskonar þráviðri algengari. Staðan getur þó læst sér á vetrum - eins og þeir sem vel fylgjast með veðri vita. 

Það sem helst getur breytt stöðunni á sumrin er að eitthvað gerist suður undir hvarfbaug - þar komi fram hitabeltisstormar eða fellibyljir - þeir geta stuggað við hryggjunum - sem geta þá aftur teygt sig nægilega langt norður til að stugga við kuldapollunum. Fari þeir á rás til suðurs geta þeir breytt mynstrinu á fáum dögum. 

Spárunur dagsins í dag gera ekki ráð fyrir stórfelldum breytingum. Jú, hryggurinn fyrir austan okkur hörfar - en það breytir nánast engu hér á landi nema að við eigum að fá norðanátt um helgina - einhver umstöflun á sér stað í lægðardraginu við Ísland og Bretland. Yfir Hudsonflóa er nokkuð öflugur kuldapollur, hann er á hægri leið austur og rótar einhverju suðlægu á undan sér. Spár eru þó á því að það verði ekki mjög afgerandi - helst í formi hlýrri lægða sem þá gengu yfir landið (hlýindi þá norðaustanlands). En allt er það sýnd veiði en ekki gefin. 

Sum sé - lítil tíðindi af veðri. Heldur leiðinleg norðanátt norðaustanlands um helgina, en sá landshluti fær e.t.v. greitt fyrir með hlýjum dögum síðar í vikunni? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide11
  • w-1945v
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 178
  • Sl. sólarhring: 367
  • Sl. viku: 1321
  • Frá upphafi: 2355081

Annað

  • Innlit í dag: 174
  • Innlit sl. viku: 1193
  • Gestir í dag: 173
  • IP-tölur í dag: 173

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband