Sprenging á Kyrrahafi kemur fram á þrýstiritum um heim allan

Um kl. 4 síðastliðna nótt (að íslenskum tíma) (15.janúar 2022) varð gríðarleg sprenging í eldstöð við Tonga-eyjar á Kyrrahafi. Sprenging þessi olli flóðbylgju þar um slóðir og flóðbylgjuaðvörun var gefin út við strendur Kyrrahafs - allt austur til Bandaríkjanna. Sprengingin náði að hrista veðrahvörfin og heiðhvolfið svo um munaði og barst þrýstibylgja á hljóðhraða um allan hnöttinn (svipað og jarðskjálftabylgjur gera oft). Þessi bylgja kom fram á loftþrýstimælum um allan heim, þar á meðal hér á landi. Það var um laust fyrir kl. hálfsex nú síðdegis, um 13 og hálfri klukkustund eftir að sprengingin varð.

w-blogg150122a

Hér má sjá þrýsting á 10-mínútna fresti í Reykjavík og á Dalatanga. Þegar bylgjunnar varð vart reis þrýstingur ört, en féll síðan skyndilega þegar hún gekk hjá. Við þykjumst sjá að hún hafi komið nokkrum mínútum fyrr í Reykjavík heldur en á Dalatanga. Trúlega kæmi bylgjan enn betur fram með háupplausnarskráningu. Vegna þess að hún stendur svo stutt hittir hún misvel á mælitímann á hinum mismunandi stöðvum, týnist kannski nærri því á sumum, en kemur að sama skapi enn betur fram á öðrum. Sömuleiðis er bylgjan sjálfsagt ekki alveg hrein - í rauninni bylgjulest þar sem styttri bylgjur hníga og rísa á víxl. Sömuleiðis hittir hún um síðir sjálfa sig fyrir (komin hringinn) og getur þar orðið víxlverkun þannig að bylgjan styrkist eða dofnar. 

w-blogg150122b

Blái ferillinn sýnir hér meðaltal þrýstings á 50 veðurstöðvum á Íslandi nú síðdegis. Rauði ferillinn sýnir hins vegar meðaltal þrýstibreytingar 10-mínútna á þessum 50 stöðvum. Meðaltalið rís nokkuð skarpt um kl.17:20 en fellur hraðast um kl.17:50 - breytingin reiknast minni þess á milli - líklega vegna þess að tímamunur er á komu bylgjunnar austanlands og vestan. 

Nær Tonga-eyjum var tíðni þessa sprengihljóðs mun meiri - inni á heyranlega sviðinu. Síðan lengist bylgjan og lengist eftir því sem lengra dregur. Ekki er gott að segja hvort mælingar á 10-mínútna fresti á Tonga hafi sýnt bylgjuna á þennan hátt. Til þess hefur e.t.v. þurft sérstaka skynjara - slíkir skynjarar hafa verið notaðir hér á landi - ritstjóri hungurdiska veit að sprengingin sást einnig á slíkum mælum hér á landi - og má finna fréttir um það á öðrum miðlum. 

Viðbót 16. janúar kl.15:30:

Svo fór að bylgjan barst líka hingað „hina leiðina“ og kom sá hluti sem lengra hafði farið hingað rétt um kl.3 síðastliðna nótt. Myndin hér að neðan sýnir samanburð á þessum tveimur atburðum. 

w-blogg150122ia

Nú er spurning hvort við sjáum bylgjuna koma annan hring - ef það verður ætti það að sjást í kringum miðnæturbil í kvöld - eða skömmu síðar - og svo aftur um kl.10 til 11 í fyrramálið. En kannski er slíkt harla ólíklegt - jafnlíklegt að allt hafi jafnast út. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á hversu miklu dípi undir sjáfaryfirborði er þetta eldgos ?

Magnús Magnússon (IP-tala skráð) 16.1.2022 kl. 03:26

2 identicon

Þótt Tonga sé í Suður-Kyrrahafi (20.5°S, 175.4°V) er stysta leiðin til Íslands yfir pólinn og bylgjan kom til okkar úr NNV (325°).  Þess vegna kom hún á svipuðum tíma í Reykjavík og Dalatanga.  Heppilegra að velja Bolungarvík (toppur kl. 17:20) og Teigarhorn (17:50).

Þórður Arason (IP-tala skráð) 16.1.2022 kl. 16:58

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Magnús: Svo er að sjá að gosið sé nærri yfirborði -

Þórður: Þó upplausnin sé lítil má reikna þetta allt nokkuð nákvæmlega vegna þess hve stöðvarnar eru margar - vonandi farið þið reiknimeistarar í það. Ég hef aðallega litið á meðaltölin - valdi svo Reykjavík og Dalatanga af tilviljun. 

Trausti Jónsson, 16.1.2022 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 81
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 1907
  • Frá upphafi: 2353109

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 1709
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 66

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband